Tuesday, July 08, 2008

Er þetta í lagi ?

Undanfarna daga hafa fréttir af glæpum, ákærum og dómum verið ansi fyrirferðamiklar í öllum fjölmiðlum. Það er engu líkara en að atburður sé ekki fréttnæmur nema hann sé neikvæður, sem er auðvitað dálítið sérstakt.

Kennari við háskólann í Reykjavík hefur, ásamt fjölskyldu sinni og fleirum, gengið í gegnum táradal vegna ónáttúru sem hann ræður ekki við. Margir menn aðrir hafa, í gegnum tíðina, gerst sekir um svipaða svívirðu og þessi maður hefur nú verið ákærður fyrir og sem betur fer er tíðarandinn nú annar en fyrir nokkrum áratugum þegar svipuð mál voru þöguð í hel. Samfélagið vill fá að vita hverjir þessir menn eru svo forðast megi samneyti þeirra við börn, kannski ekki ósanngjörn krafa í ljósi nokkurra mála sem upp hafa komið í seinni tíð. Gústi Guðsmaður fékk t.a.m. vinnu hjá sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi tvö sumur þó vitað væri þá að hann níddist á drengjum. Steingrímur Njálson blekkti sænska sérfræðinga til að halda að hann væri læknaður og eftir það gekk hann laus um sveitir landsins misnotandi drengi hægri-vinstri hvar sem hann komst í tæri við þá. Kannski er mál þessa háskólakennara á einhvern hátt þannig ólíkt öðrum að nafnbirting og mynd hefur ekki enn komið til álita í fjölmiðlum - en fólki er eðlilega brugðið.

Nafna-og myndbirtingar eru tvíeggja sverð, þjónustan við almenning í forvarnarskyni er eitt lóð á vogina, en hættan á "aftöku" án dóms og laga er vissulega fyrir hendi. Mannorðsmorð er nær öruggt þegar birtar eru myndir af mönnum og nöfn þeirra tíunduð án þess að nokkur rannsókn hafi farið fram, engin ákæra gefin út og engin dómur fallið.

Fróðlegt er að bera saman mismunandi vægi tveggja nýlegra mála með ofangreint í huga.
Af hverju er margákærðum barnaníðingnum hlíft og hann alltaf nefndur "Háskólakennari" á meðan umboðsmaðurinn og tónleikahaldarinn Þorsteinn Kragh má þola það að mynd af honum er birt allstaðar og nafn hann vandlega meitlað í vitund almennings löngu áður en nokkur rannsókn er hafin? Maðurinn var handtekinn og úrskurðaður í varðhald á meðan lögreglan skoðar málið, það er allt og sumt. Hverra hagsmunum er betur borgið ef allur almenningur þekkir ásjónu Þorsteins og fer með nafn hans eins og þar fari æskuvinur viðkomandi, bolurinn blaðrandi og bullandi um manninn við vinnufélaga sína í kaffitímanum?

Á hvorn veginn sem fer er þessi tiltekni maður rúinn æru um alla framtíð af því fjölmiðlar þurftu að smjatta á nafni hans. En perrinn losnar út eftir sína afplánun og enginn veit hver hann hann, fyrr en hann níðist aftur á barni, kannski þínu !

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

kannski að það sé til að hlífa börnum barnaníðingsins, en þau voru fórnarlömb hans.

7/28/2008 9:39 PM  
Blogger Hjörtur Howser said...

Enginn vafi er á að nafnleyndin er til að hlífa fórnarlömbum níðingsins. Hinsvegar er erfitt að koma auga á hvaða hagsmunum það þjónar að nafngreina og tíunda nafn grunaðs manns áður en rannsókn er formlega hafin. Hver flækist inn í smyglmál hverju sinni getur ekki verið slík stórfrétt að réttlæti nafn-og myndbirtingu ítrekað, eins og til að tryggja að andlit og nafn viðkomandi sé á hvers manns vörum. Hvar stöndum við ef kemur í ljós að þessi maður átti lítinn eða engann hlut að máli? Megum við þá eiga von á að sjá myndir og nöfn allra handtekinna manna á Íslandi hvort sem ætluð afbrot þeirra eru stór eða smá?
En eins og ég skrifaði þá togast þarna á hagsmunir fjöldans og hagsmunir þeirra sem hafa þegar mátt þola óréttlæti, fórnarlambanna sjálfra.
Takk fyrir innlitið og innleggið.
HH.

7/28/2008 11:02 PM  

Post a Comment

<< Home