Tuesday, July 29, 2008

Íslenski fáninn !


Spin-doktorinn Hrannar Péturson reynir þessa dagana að slá ryki í augu almennings með kjaftavaðli um íslenska fánann og "fánalögin". Þar á brellumeistarinn örugglega við lög nr. 34 frá 17.júní 1944. Hrannar talar af mikilli vanþekkingu og óvirðingu um þjóðfánann og þyrfti að lesa lagabókstafinn áður en hann bullar þetta og þvælir opinberlega í veikri tilraun til að réttlæta hið auma klúður sem auglýsingaherferðin "skítt með kerfið " er í heild sinni.
Hrannar segir á mbl.is í dag að herferðin standist lögin og að þau hafi verið höfð til hliðsjónar er unnið var að gerð auglýsinganna. Þessi fyrirsláttur stenst ekki nánari skoðun og hver sá sem er nettengdur getur sjálfur kíkt á heimasíðu Alþingis og lesið lögin. Þar stendur m.a.:" 11. gr. Lög þessi ná til allra þjóðfána, sem notaðir eru á venjulegan hátt, svo að almenningur eigi kost á að sjá þá úti eða inni, en ekki til skrautfána, borðfána eða því um líkra fána, sem þó skulu jafnan vera gerðir þannig, að réttir séu litir og stærðarhlutföll reita og krossa.
[Lög þessi ná jafnframt, eftir því sem við á, til hvers konar skírskotana til eða eftirlíkinga af þjóðfánanum, svo sem áprentana og myndvarpana.]1)
". Ekki þarf að túlka þessi orð á einn veg eða annan því merking þeirra er ljós; ekki er ætlast til að menn geri eftirlíkingar af fánanum, líkt og Hrannar heldur fram að gert hafi verið í þeirra tilviki og 12. grein laganna sem og önnur ákvæði um virðingu og rétta umgengni við þjóðfánann eiga því við í sambandi við herferðina fyrrnefndu. Því eru aðstandendur auglýsinganna "skítt með kerfið" brotlegir við lög um þjóðfána Íslendinga og sætir furðu að hið ofvirka ákæruvald sitji á strák sínum bíðandi eftir kæru utan úr bæ.
Um afleiðingar og eftirmála sel ég mönnum sjálfdæmi en vona að þjóðin beri þá virðingu fyrir fánanum sínum að hún hafni þessari kauðslegu auglýsingaherferð og hafi skömm á þeim sem létu sér detta í hug að gera þetta.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home