Thursday, January 10, 2008

Ævintýrið heldur áfram !













Yfir 40.000 Íslendingar, tæp 15% þjóðarinnar, komu í Borgarleikhúsið á síðasta ári til að gleðjast með Ladda í tilefni af 60 ára afmæli hans. Sýningarnar, sem áttu að verða 4 til 8, urðu 81 og var uppselt á þær allar. Slíkt hlýtur að vera einsdæmi á listamannsferli nokkurs skemmtikrafts þó það komi ekki alveg á óvart þegar þessi einstaki grínkarl á í hlut.

Sýningin heldur áfram og nú geta þeir sem ekki náðu í miða í fyrra stokkið til og tryggt sér sæti, reyndar ekki á fyrstu sýningarnar á árinu því þegar er orðið uppselt á þær.

Ævintýrið heldur áfram með þáttöku þjóðarinnar.

Saturday, January 05, 2008

Það var og !!!

"...snobbliðið mætir til að klappa (í Borgarleikhúsinu) en almenningur finnur nályktina og flýr..."

! ! ! ?

Uppselt var í 81 (áttatíu-og-eitt) skipti á sýninguna LADDI 6-tugur í Borgarleikhúsinu á nýliðnu ári.

Auðvitað er það svo að erfitt er að greina fólkið í salnum, þar sem það situr í myrkrinu, og sterkir ljóskastarar lýsa beint í augun á manni en við sem stöndum að sýningunni urðum ekki áberandi vör við að "almenningur" (í þessu tilfelli 40.000 einstaklingar, almennir og líka snobbaðir í bland) væru að flýja húsið. Allavega ekki í neinni panik undan kæfandi nálykt.

Margar aðrar sýningar hafa gengið vel í húsinu, Ást er enn á blússandi siglingu og uppselt á Superstar langt fram í febrúar. Leikfélagið stendur vel fjárhagslega (held ég) og rekstur hússins gengur vel. Gott samstarf er milli leikhússtjóra og sjálfstæðra leikhópa í borginni og almennt góður andi svífandi yfir vötnunum við Listabraut.

En.... menn eru misupplagðir, gagnrýnendur einnig, og það þarf ekki alltaf að fara á límingunum - stöðugt og yfir öllu ....

Friday, January 04, 2008

Ísafold hætt !

Tímaritið Ísafold hefur verið lagt niður.

Ritstjórar þess eru orðnir ritstjórar DV og aðstoðarfólk af ritstjórninni sálugu hefur tekið við ritstjórn tímaritsins Nýs Lífs.

Nýtt Líf er tímarit um tísku, öðru fremur, og rúmar ekki gagnrýnin skrif um veitingastaði.

Á næstu dögum og vikum mun skýrast hvar veitingarýni undirritaðs mun birtast á prenti en þangað til munu pistlar um veitingastaði birtast hér á síðunni sem hingað til.

Thursday, January 03, 2008

Mótvindur

Sjaldan er ein báran stök í 12 vindstigum.

Nú fær hún Hódda mín slæmar fréttir dag eftir dag og mótvindurinn er mikill.

Ég bið alla sem hingað slæðast inn að kíkja á síðuna hennar og hugsa til hennar eitt augnablik í amstri dagsins.

Máttur hugsana er mikill.

Gefstu ekki upp Hódda mín þó á móti blási.