Sunday, December 31, 2006

Já - einmitt

Þegar Biblían er eina GPS-ið manns er ekki nema von að maður villist stundum af leið. En þegar menn er orðnir svo gjörsamlega áttavilltir í trú sinni að þeir taka engum rökum er hreinlega spurning hvort þeir eigi að ganga lausir !

Nema þeir hinir sömu séu svo algjörlega í umsjá Guðs almáttugs að þeir muni aldrei nokkurn tíma þurfa á aðstoð annarra að halda.

Við skulum vona að hreindýraskyttan mikla "pústi" ekki alveg út og endi "áttavilltur" og aleinn á sínum vegi.

Hér er skrifað það sem allir eru að hugsa en enginn (nema Steingrímur Sævarr) þorir að segja upphátt...

Friday, December 29, 2006

Sjávarkjallarinn


Ég þurfti aðeins að leita til að finna Sjávarkjallarann, þó rata ég vel í miðbænum. Engar glannalegar merkingar eru utan á húsinu sem vísa manni á þennan rómaða veitingastað, maður verður bara að spyrja til vegar.
Aðgengi að staðnum er í gegnum lobbý á túrista-information centrúmi sem gangsett var fyrir nokkrum árum, og svo niður tröppur að gömlum hlöðnum kjallara. Strax þar á þröskuldinum virkar aðkoman dularfull og spennandi. Sumir fá “innilokara” en mér þótti gott að koma inn þar sem lágt er til lofts og lýsing dempuð. Gólfin eru lögð steinum eins og þeim sem kjallarinn er hlaðinn úr, tilfinningin dálítið eins og að koma ofaní dýflissu í gömlum kastala. Fiskabúrið undir barnum er svo efni í aðra grein í allt öðru tímariti.
Fremra rýmið er móttaka og lítill setukrókur úr plexigeri og plasti, nett undarlegur, með eldrauðum leðurklæddum svefnbekk. Salerni eru einnig staðsett í þessu rými og þegar mest er að gera um helgar geta myndast biðraðir við þau.
En matsalurinn innar í kjallaranum er málið. Mér datt í hug lína úr ljóðinu Sigtryggur vann, Þursaflokksins; “Hér er stofan ný, hún er öll tjölduð og þakin með blý”. Einstaklega aðlaðandi og smekklegt umhverfi. Uppfullt af góðum tilfinningum. Maður finnur strax hvað öllum, starfsliði og gestum, líður vel þarna inni. Fáum sögum fer af útsýninu, enda er kjallarinn niðurgrafinn eins og kjallarar eru gjarnan. Þess vegna heita þeir “kjallarar”.

Hvert borð var setið og allt á fullu, þó varð ég ekki tilfinnanlega var við umferð þjónanna um salinn. Þeir liðu um lókalið átakalaust og öruggt. Ég þurfti aldrei að skima eftir þjóninum og allar hans innkomur voru einstaklega fagmannlega útfærðar. Samt var hann líka kurteis og þægilegur. Stúlkan sem tók á móti okkur síðast og afgreiddi fordrykkina mætti taka hann sér til fyrirmyndar. Henni þótti ekki nógu gaman í vinnunni.
Matseðillinn virkar svolítið asískur við fyrsta yfirlestur en þó er hann það ekki alfarið. Sumir réttanna bergmála austrið fjær, sezuan, tobanjan, su-miso, satay og tandoori en í eldhúsinu eru íslenskir meistarakokkar, Matreiðslumaður ársins 2004 og nýbakaður matreiðslumaður ársins 2006.
Dark shadow laxinn og Four seasons, fjórir fiskréttir urðu fyrir valinu sem ágæti dagsins. Á undan fengum við óvænt skemmtilegan forrétt í miniútgáfu af gömlu glerkrukkunum með hespulokinu, þið munið. Eitt-núll fyrir kokkunum, búið að leggja línurnar strax í upphafi máltíðar. Eldamennska verðlaunakokkanna stóð fyllilega undir væntingum, allir fiskréttirnir fjórir voru góðir en laxinn stóð uppúr sem langbestur þetta kvöld. Seinna prófuðum við óvissuferð samsetta úr nokkrum ólíkum réttum og þó meistararnir hafi hvorugur verið á vakt það kvöld virtist það ekki koma að sök. Ef eitthvað var síðra það kvöld var það helst að biðin milli rétta var vandræðalega löng svo tognaði verulega úr máltíðinni. Ef fjölgar svo í salnum að erfitt er að ráða við það þarf líka að fjölga í staffinu.
Hlutverk borðbúnaðar er stundum vanmetið, nauðsyn sérkenna og samspils, hver rödd þarf að heyrast en kórinn verður samt að hljóma. Sjávarkjallarinn fer einum lengra í þessum efnum. Mikil vinna og natni er lögð í útlit og áferð réttanna og maður getur ekki annað en hlakkað til að smakka. Maturinn var frábær í þessi þrjú skipti sem við heimsóttum staðinn og hann var fallegur á diskinum löngu eftir að hann var búinn. Reyndar máttu diskarnir gjarnan standa örlitla stund, eftir máltíðina, svona eins og til að treina ánægjuna. Verðið er örlítið hærra en sumstaðar en kúnninn fær líka örlítið meira. Álagning á vín er hér, eins og víða, alltof há en gott úrval er á seðlinum.
Sjávarkjallarinn er meðal bestu veitingahúsa borgarinnar og fær fimm stjörnur.

Thursday, December 28, 2006

Meira um (m)álið !

Var að fá ruslpóstsskammtinn inn um lúguna og nú blasir desperasjónin við. Baksíða blaðs Björgunarsveitar Hafnarfjarðar er auglýsing um hina árlegu flugelda (kynningar) sýningu sveitarinnar undir fyrirsögninni "Forskot á flugelda sæluna".
Svo segir: "Alcan á Íslandi og Björgunarsveit Hafnarfjarðar bjóða Hafnfirðingum og nágrönnum til flugeldasýningar sem gefur hraustlega tóninn fyrir gamlárskvöldið".

Einhver skrifaði fyrir margt löngu: lýðurinn er heimskur og gleyminn. Það kann að vera rétt en halda forsvarsmenn og áróðursmeistarar álversins virkilega að Hafnfirðingar séu svo grunnir að það nægi að ausa þá gjöfum í nokkrar vikur til að þeir samþykki stækkun þá sem fyrirhuguð er með allri menguninni sem því mun fylgja og öllum verkalýðsóréttinum sem þegar er orðið vart við ?

Og heldur bæjarstjóri virkilega enn að samtök þeirra sem eru mótfallnir stækkun standi jafnfætis álrisanum sem virðist hafa ótæmandi sjóði í að sækja áróðri sínum til stuðnings ?

Nú þurfa Hafnfirðingar, bæði þeir sem hafa alið allan sinn aldur í bænum og hinir sem fluttu í hverfið í fyrradag, að snúa bökum saman gegn áróðursvélinni. Framtíð bæjarins er að veði.

Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir heimsóknirnar hingað á síðuna.

Wednesday, December 27, 2006

Alúminíum !

Fékk geisladisk í jólagjöf...frá Alcan. Fyrirtæki sem hét alltaf ÍSAL-"íslenska álfélagið" meðan ég var að vaxa úr grasi. Þá var borin virðing fyrir þessu apparati og það þótti vera góður vinnustaður sem bjó vel að sínu fólki. En tímarnir breytast og mennirnir með. Nú er mönnum sagt upp með litlum eða engum fyrirvara eftir allt að þriggja áratuga starf og smásmugulegar, ómerkilegar ástæður notaðar til að losna við starfsmenn þegar hyllir undir starfslok þeirra með öllum áunnum réttindum. Svo eru einhverjir nýbúar (fólk af erlendu bergi brotið, farandverkamenn frá Evrópu, efnahagslegir flóttamenn frá fyrrum ráðstjórnarríkjum, pólitískir flóttamenn frá fyrrum einræðisríkjum... lesarinn athugi að hér má setja inn hvaða þá skilgreiningu sem hver og einn vill hafa um verkafólk sem ekki er fætt hér og/eða uppalið) ráðnir í staðinn, fólk sem er tilbúið að vinna sóðadjobb fyrir minni pening en Íslendingar láta bjóða sér. Og vera réttindalaust í verkalýðsfélagslegum skilningi.

(Og hér skulum við aðeins staldra við og kalla skóflu - skóflu. Hættum öllu kjánalegu argaþrasi um hvaðan fólk er og hvaða rétt hver hefur til að setjast hér að og stunda vinnu. Drögum umræðuna ekki niður á svo rasískt og ómerkilegt plan. Umræðan ætti fremur að snúast um framkomu álrisans við sína verkamenn og það fullkomna virðingarleysi sem áratugalangri baráttu verkalýðsins á Íslandi, fyrir bættri stöðu, er sýnd. Þegar þremur áratugum úr lífi manna er sturtað niður eins og hverjum öðrum úrgangi og þeim sagt að éta það sem úti frýs, hlýtur hver sá sem hefur sjálfur verið á vinnumarkaði eða þekkir stöðu mála af afspurn að hafa á því skoðanir.)

OG HANA NÚ !!!

Örvænting Alcan skín í gegn, nú á að tryggja nokkur þúsund atkvæði í komandi kosningu um stækkun verksmiðjunnar með gjöfum og skjalli. Ekki var þetta alveg nógu augljóst þegar fyrirtækið bauð Hafnfirðingum á tónleika Bo í höllinni eða á Haukar/FH kappleikinn en nú hefur gríman verið felld og á jólakorti sem fylgdi geisladisknum (upptaka af sömu tónleikum) biðlar Rannveig Rist til bæjarbúa um "málefnaleg skoðanaskipti til að mynda heilbrigðan grunn að vel ígrundaðri afstöðu bæjarbúa".









Svo mörg voru þau orð.


En Lúðvík..... HALLÓ !!!! --- Hvað er í gangi á þessari mynd af ykkur Rannveigu ???

Monday, December 25, 2006

James Brown

James Brown látinn.

Ekki voru það góðar fréttir.

Friday, December 22, 2006

HNAKKUS

Tuesday, December 19, 2006

Kort

ja.is er símaskráin í dag.
Muniði hvernig það gat verið að skrifa jólakort, fyrir ekki svo löngu síðan ? Alltaf gert seint á kvöldin og langt frammá nótt. Hringt í vinina, suma, til að fá heimilisföng - fólk sem jafnvel átti að mæta í vinnu daginn eftir - og ættingjum gert rúmrusk .
Þessi tími er liðinn, segi og skrifa LIÐINN !
Nú nægir að geta rifjað upp eitthvert eitt atrið um þennan þarna eða hinn og þá er maður kominn með addressuna, póstfangið, jafnvel e-mailið og heimasíðuna hjá þeim - og reyndar öllum hinum í blokkinni þeirra líka.

En hvað er með teiknimyndaútgáfuna af "Google Earth" sem hönnuður heimasíðunnar bíður notendum uppá ?

Zoomiði inná heimilisfang !







(heimilsfang að ykkar eigin vali inná ja.is - að sjálfsögðu)

Nú ..... ekki rekinn ???

Hið breska BBC, ríkisútvarpið þar í landi, hefur ávallt varðað leiðina fyrir svipuð fyrirbæri í okkar heimshluta. Hvernig BBC tekur á málum sem upp koma er ríkisútvörpum annarra vestrænna ríkja gjarnan fyrirmynd, þó sumir kunni að virða að vettugi áralanga reynslu þeirra og úrlausnir.

Fyrir skemmstu kom upp þrálátt og þekkt vandamál hjá BBC. Staða sem hefur að líkindum komið upp í svipaðri mynd hjá flestöllum þeim sem stunda útvarps-eða sjónvarpsrekstur. Bretarnir leysa sín mál með eilítið öðrum hætti en við hér á Fróni. Hjá Bretum rista hugtök eins og tryggð (loyality), trúnaður (trust) og heiður (honor) miklu dýpra en hjá okkur. Þar í landi geta dagskrárgerðarmenn reitt sig á að stjórnendur stöðvarinnar sem þeir starfa hjá standi þétt að baki þeim þegar kverúlantar og jaðarfólk þyrla upp moldviðri og stormum í vatnsglösum.









Jeremy Clarkson missti út úr sér lélegan brandara, brandara sem sennilega er sagður oft á dag, daglega um heim allan. Brandarar af þessari sort eiga ekkert erindi í ríkisútvarpið og vegna þess fékk Clarkson áminningu.

Hann var ekki rekinn fyrir skoðanir sínar, ekki rekinn fyrir að hafa veizt að ákveðnum hópi þjóðfélagsþegna og ekki rekinn fyrir sinn mistæka húmor. (Reyndar hefur hann ágætan húmor þó kaldhæðnin leiði hann stundum í ógöngur).

Hann var áminntur réttilega og framvegis birtir BBC einskonar viðvörum til minnipokamanna sem geta sífellt fundið eitthvað til að pirra sig á.

Þannig leysir breska ríkisútvarpið sín mál.

Thursday, December 14, 2006

BO TEKINN

Frábær frammistaða Bo (Björgvins Halldórssonar) í þættinum Tekinn hefur orðið mönnum umræðuefni. Kóngurinn hélt kúlinu allan tímann þó Kringlurottan sem böggaði hann hafi verið ergilegasta týpa seinni tíma. En það sem vakti mína athygli sérstaklega var að Bo, með bakið á settinu í dyrnar, ekki auglýstur neinstaðar og aldeilis óundirbúinn, seldi 40 kvikindi þessa stuttu stund sem grínið stóð. Fjörutíu eintök á hálftíma, geri aðrir betur.

Friday, December 08, 2006

Cafe adesso Smáralind

Það halda margir að Cafe Adesso í Smáralind sé bara kaffihús. Svo er ekki. Cafe Adesso er veitingastaður með áhugaverðan matseðil, flott kökuhlaðborð, enda konditör á staðnum, og nú um stundir; sérstakan jólamatseðil.... að gefnu tilefni.....

Ég smakkaði kalkúnabringu á rauðvínslegnu rauðkáli (hvað eru mörg err í því?), með kartöflum, fersku salati og brúnni sósu.

Í traffikinni og erlinum, sem er þó minni í Smáralind en t.d. í Kringlunni, upplifði ég augnabliks upprof frá kapphlaupinu og fann svolítið "jóla" í þessari ágætu máltíð.

Ég ætla að fara aftur og prófa þá hangna kjetið með uppstúfinum. (Ég hef það fyrir satt að það megi aldrei hætta að hræra (aldrei!) í uppstúfum fyrr en þeir eru tilbúnir).