Thursday, March 29, 2007

Af bökkum Þjórsár

Enn eitt áróðursbréfið hugsaði ég þegar ég reif umslag merkt "Kæri Hafnfirðingur".

En þvílíkur léttir! Bréfið rita bændur í sveitum austur, af bökkum Þjórsár, og er einlægt og tilfinningaþrungið ákall til bæjarbúa að láta hugann reika útfyrir bæjarmörkin þegar kosið verður á laugardaginn.

Ég hef sjaldan lesið skrif sem hafa snert mig eins og þetta bréf.

Loksins er m-ál-ið komið í stærra samhengi og ábyrgð lögð á herðar þeim sem hingað til hafa haldið sig vera að ráðstafa eingöngu sinni framtíð og fyrirtækjanna sem þeir vinna hjá. "Þetta er vinnan mín" var einn spunafrasinn sem slett var í okkur en nú hafa bændur á bökkum þjórsár bætt um betur og segja "þetta er líf okkar" og jafnvel "þetta er landið okkar" og stundarbrjálæði stóriðjugróðablindu hefur ekki verið veitt umboð til að svívirða það eins og mun verða ef af stækkun verður.

Hafnfirðingar hafa í hendi sér að breyta rétt á laugardaginn og geta þá með stolti sagt að náttúran, landið og framtíð niðja okkar hafi fengið að njóta vafans.


Lokaorð bréfsins eru; "Sælir eru hógværir því þeir munu landið erfa" !


Þeir sem rita nöfn sín undir þetta fallega bréf eru menn að meiri. Ég er þeim þakklátur og mun hugsa austur jafnt og í minn eigin túnfót þegar ég, á laugardaginn, mæti á kjörstað og segi hátt og skýrt; "NEI" við stækkun álbræðslunnar í Straumsvík!

Davíð Þór

Ég hvet ykkur til að kíkja á skrif vinar míns Davíðs Þórs um álbræðsuna og lygaáróðurinn.

Bein lína til Davíðs: SMELLIÐ HÉR !

Ekki mútur ! Nei, einmitt, og ég er fífl !

Hrannar minn! Þú er vænsti drengur, kurteis, dagfarsprúður og vel m-ál-i farinn. En finnst þér ekki í alvöru kominn tími til að fara að segja satt og rétt frá?

Það ER EKKI "tilviljun" að samningar um raflínur í jörð "ef af stækkuninni verður" nást korteri fyrir kosningar. Það er þér ekki samboðið að áframsegja þessar lygar og falsanir til okkar Hafnfirðinga. Komdu í fjörðinn og spjallaðu við okkur sem erum fædd hér í bænum eða búin að búa hér lungann úr ævinni. Ekki tala bara við 3 ný-aðflutta í Vallarhverfinu og segja svo frá skoðunum þeirra sem dæmigerðum fyrir okkur öll hin sem eigum hér heima. Og vittu til, þegar þú ferð að tala við okkur augliti til auglitis er ég sannfærður um að þú munt átta þig á því að öfugt við það sem þið virðist halda eru Hafnfirðingar ekki kjánar og fífl upp til hópa.

M-ál-lflutningur ykkar álbræðsuleiguliða síðustu daga ber með sér að í ykkar augum erum við öll asnar sem hægt er að ljúga hverju sem er að. Ég fullvissa þig um að asnar erum við ekki, nema þá með einstaka undantekningum, og okkur er gróflega misboðið með staðreyndaleikfimi ykkar.

Og þið megið líka athuga það að flestir hugsandi menn bregðast illa við hótunum eins og þeim að Álgrímur muni pakka saman og hypja sig ef við heimilum ekki stækkun. Allir þessir Álgrímar hinir sem hingað vilja koma og bræða ál með niðurgreiddu rafmagni vita kannski eitthvað sem þið vitið ekki. Eða hafa þeir e.t.v. ekki í önnur hús að venda? Og hvað þá með ykkur, hvert ætlið þið svosem að fara þar sem ykkur er næstum "gefið" rafmagn eins og hér er gert?

Hrannar, vertu sjálfum þér samkvæmur og segðu satt.

Wednesday, March 28, 2007

Hvað er m-ál-ið ?

Rétt í þessu hringdi í mig kurteis maður og kynnti sig sem starfsmann álversins í Straumsvík. Ég heyrði að hann hringdi frá stað þar sem aðrir voru greinilega að hringja líka, margar raddir og allir að tala í síma. Hann sagðist vilja minna mig á kosningarnar á laugardaginn og spurði hvort ég ætlaði ekki að kjósa. Svo bauðst hann til að svara spurningum mínum ef eitthvað væri sem ég vildi vita um m-ál-ið.

Allt saman mjög snyrtilegt og pro...

Ég sé mest eftir því að hafa ekki látið eftir þessum ágæta manni að gera sig að fífli í minn síma en til þess hafði ég einfaldlega ekki tíma. Í staðinn benti ég honum á þessa síðu og bauð honum að lesa það sem hér er ritað m.a. um Álgrím og hans aðferðir. Kannski snýst þessum "starfsmanni" hugur eftir lesturinn þó ég efi það.

En mér er spurn; eru laun verkamannanna í álbræðslunni virkilega svona lág að þeir eru tilneyddir að sitja langt fram á kvöld á yfirvinnulaunum við úthringingar, eins og kosningasmalar í prófkjöri, eða eru menn virkilega að fylgja sannfæringu sinni og þá endurgjaldslaust?

Og enn er mér spurn; getur verið að Sól í Straumi hafi skotið sig í fótinn og vakið sofandi þurs, heljarinnar mikinn þurs, sem nú er vaknaður og gramur mjög. Álgrímur var nefnilega ekkert að þenja sig og andstæðingar stækkunarinnar voru það margir að hann kaus að birta ekki niðurstöður skoðanakönnunar sem hann sjálfur lét gera. Og hann aðhafðist ekkert. En um leið og hann varð þess áskynja að hópur fólks var að rotta sig saman á móti honum reis hann uppá afturlappirnar og þandi kassann, eins og þursum er tamt að gera séu þeir vaktir af sínum væra milljarðagróða-blundi.

Og nú situr mauraherinn og hringir út samansoðinn lygaáróðurinn.

Mætti ég vinsamlegast biðja ykkur að láta mig og fjölskyldu mína í friði.

Það er nóg að við þurfum að anda að okkur viðbjóðnum, sem álbræðslan ykkar spúir út í andrúmsloftið á hverjum einasta degi, svo við þurfum ekki að eiga von á grátkórnum "en þetta er vinnan mín" í okkar prívat heimasíma.

Ég segi nei takk!




P.S. Það stakk mig hve Forstýrunni varð svarafátt aðspurð um fjarveru raflína og strompa á glansmyndinni fallegu. Engu líkara en hún hafi ekki vitað af þrotlausum fundahöldum smápeða sem loks náðu samkomulagi, fjórum dögum fyrir kosningar, um að leggja þessar línur í jörð. Hún hefði alltént getað gert sér áróðursmat úr því í sjónvarpi allra landsmanna - oní allt bullið sem hún bauð uppá þar. En kannski er hún ekkert að velta fyrir sér smæstu verkþáttum væntanlegrar stækkunar, frekar en öðru.

M-ál-efnafátækt !

Enn berst mér áróðurspóstur frá Álrisanum Álgrími. Nú fylgdi mynddiskur öllum glansbæklingunum. 11 mínútna löng áróðursmynd sem ætlað er að sannfæra mig um að hið stórkostlega álver í Straumsvík sé næstum gjöf frá Guði til Hafnfirðinga. Ekkert minna en heimsmet "í því að menga ekki" svo vitnað sé í siðblindan leiguliðann sem dubbaður er upp til að flytja boðskapinn. Tölvugrafík í þrí-vídd á svo að slá ryki (væntanlega þó frekar litlu svif-ryki) í augu allra sem á horfa og sýna fram á hve óviðjafnanlega fallegt þetta stækkaða álver mun verða í landslaginu. Reyndar er tíundað í lesnum texta, og minnst á í beinni ræðu forstjórans, að stækkunin sé alls ekki eins mikil og andstæðingarnir hafa reynt að plata fólk til að trúa. Þó um sé að ræða þreföldun frá núverandi stærð muni húsakostur aðeins stækka um 80% og lóðin eitthvað minna. Já, hvað er þetta eiginlega með ykkur? Skiljið'i ekki svona einfalda útreikninga. Álverið er alls ekki að stækka neitt verulega og mengun mun að öllum líkindum minnka, ef ekki bara hverfa alfarið. Það verður dásamlegt og hreint, tilvalin móttaka fyrir ferðamenn sem aka Reykjanesbrautina frá flugvellinum í leit að "Iceland, the unspoiled land"!

Fyrir rúmri hálfri öld komst fasískt, siðlaus og firrt klíka til valda í Evrópu. Þessi klíka traðkaði á skítugum skónum (öllu heldur; gljáðum leðurstígvélunum) yfir lönd og þjóðir og hafði að engu skoðanir, réttindi og líf þeirra sem tróðust undir. Eitt helsta vopn þessarar klíku í upphafi ferilsins var útspekúleruð áróðurstækni og vann fjöldi sérfræðinga við það eitt að meitla skilaboðin til að sem flestir létu glepjast. Og það tókst! Adolf hrifsaði ekki til sín völdin, hann var kosinn af óttaslegnum og leiðitömum lýðnum sem kallaði sig Þjóðverja og hafði kokgleypt frasana sem Göbbels og hans attaníossar höfðu matreitt. Allir þekkja framhaldið og eftirmálana, eða ættu að gera það svo ekki sannist orð Foringjans; "lýðurinn er heimskur og gleyminn"! Það sem gerðist í Evrópu á fyrri hluta síðustu aldar má aldrei nokkurn tíma falla í gleymsku. Sú skylda hvílir á herðum okkar að sýna fram á einhvern aukinn þroska og láta aldrei aftur glepjast af órökstuddum áróðri sem settur er fram sem fullgildur sannleikur. Þeir sem hafa lesið skáldsögu Orwells, 1984, eða séð bíómyndina með John Hurt í aðalhlutverkinu, geta borið saman raunveruleikann og skáldskapinn og það hvernig valdaklíkur hafa alltaf hagrætt sannleikanum sér í vil. Jafnvel búið til nýjan sannleika ef sá gamli þykir ekki nógu góður.

Auðvaldsklíkan sem á og rekur álbræðsluna í Straumsvík heldur að hún geti unnið hug og hjörtu Hafnfirðinga og landsmanna allra með sykurhúðuðum þrí-víddar teikningum af hinni dásamlegu nýju verksmiðju. Með passamyndum af glaðlegum og fullnægðum starfsmönnum fyrirtækisins sem auðvitað munu allir missa vinnuna ef "við hin" leyfum ekki stækkunina. Með óforskömmuðum lygum um mengunarvarnir og útblástur eitraðra lofttegunda. Með bulli um að andstaðan við þessa framkvæmd sé byggð á vanþekkingu og skorti á upplýsingum. Með því að valta yfir íbúa Hafnarfjarðar með síendurteknum og útspekúleruðum lyga-áróðri að hætti Nasistanna sem tókst að blekkja Þjóðverja, og marga fleiri, í aðdraganda seinni heimstyrjaldarinnar. Með ógeðslegri áróðursmynd sem falin er í búningi heimildamyndar og minnir mest á "heimildamyndina" sem ríkistjórnin lét framleiða fyrir sig og átti að sýna fegurð og hlýju helvítisins sem var upptökuheimilið í Breiðuvík.

Hafnfirðingar! Látið ekki glepjast af áróðrinum. Kynnið ykkur m-ál-ið og leitið upplýsinga og svara við spurningum ykkar á sem flestum stöðum.

Veljið með framtíð Hafnarfjarðar og landsins alls í huga en ekki af barnalegu þakklæti fyrir alla peningana sem bærinn hefur fengið í sinn hlut í gegnum tíðina. Þeir voru ekki gjöf frá álbræðslunni heldur greiðsla fyrir aðstöðu og veitta þjónustu og vísast mun álbræðslan starfa áfram í óbreyttri mynd, ef ekki undir stjórn núverandi eigenda þá einhverra þeirra mörgu auðhringa annarra sem ásælast álbræðslu á Íslandi. Greiðið atkvæði í komandi kosningu um stækkun bræðslunnar með það í huga hverju þið ætlið að svara börnum ykkar og barnabörnum þegar þið verðið spurð; "hvernig datt ykkur í hug að leyfa þetta?".

Gerið ekkert sem þið gætuð þurft að skammast ykkar fyrir seinna.

Verum ekki "heimski og gleymni lýðurinn" þeirra Adolfs og Josephs heldur upplýst og meðvituð þjóð í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Þjóð sem hefur enn allt til að bera að vera leiðandi í þeirri hugarfarsbreytingu sem skipta mun sköpum fyrir allt líf á jörðinni á komandi áratugum.

Friday, March 23, 2007

Raki !

"Mér finnst rigningin góð" var sungið hér um árið. Ég sel það nú ekki dýrara en ég keypti það og öllu má ofgera. Hvað er t.d. í gangi á fjallstindi Skálafells ef þar er 101% raki? Er þa´ki of mikið???


Thursday, March 22, 2007

Siðareglur og mennirnir sem fara eftir þeim !












Jón Steinar er lengst til vinstri, við hliðina á ónefndum.

Ummæli Jóns Steinars um siðareglur lögmanna og hvernig hann telur ekki að hann hafi brotið þær reglur þegar hann tók að sér mál gegn Jóni Ásgeiri þó hann væri í reynd enn að vinna að máli fyrir Ingibjörgu S. Pálmadóttur hafa vakið mig til umhugsunar.

Fyrir nokkrum árum keyptum við hjónaleysin íbúð af konu hér í mínum heimabæ. Hún leyndi göllum og skemmdum fyrir okkur og ekki liðu nema nokkrir dagar frá því við fluttum inn, þar til við vöktum athygli á þessum atriðum. Í hroka sínum og frekju taldi seljandi sig á engan hátt ábyrgan þó augljóslega hefði hún átt að segja frá jafn mikilvægum hlutum sem þessum. Fasteignasalinn óheiðarlegi fór undan í flæmingi og þóttist ekkert vita af göllunum þó skrifað stæði að hann hefði skoðað íbúðina alla. Við vorum því tilneydd að leita til lögmanns eftir aðstoð því þarna voru miklir peningar í húfi. Sá fróði maður ráðlagði okkur að halda eftir síðustu afborgun til tryggingar kostnaði sem þessar skemmdir útheimtu og það gerðum við. Þá féll allur ketill í eld og sú siðblinda fór á límingunum. Þegar okkur hafði verið birt stefna töluðum við aftur við lögmanninn sem hafði ráðlagt okkur svo vel en þá vildi hann ekkert við okkur tala. Í millitíðinni hafði nefnilega komið í ljós að sú siðblinda hafði látið innheimta fyrir sig skuld einhvejum árum áður og það hafði annast lögmaður sem starfaði á sömu stofu og okkar ráðgjafi. Ekki var um að ræða sama lögmann heldur annan sem starfaði á sömu stofu. Annaðhvort var okkar maður svona ragur eða hann var svona heiðarlegur að hann gat með engu móti hugsað sér að halda áfram með okkar mál fyrst svo var í pottinn búið. Skemmst er frá að segja að hinn lögmaðurinn, fullkomlega siðlaus lygalaupur líkt og sá sem nefndur var hér í upphafi, fór í verkið af fullri hörku og við, sem vorum fórnarlömb í þessu máli, töpuðum því og sátum uppi með skemmdirnar, greiðslu afborguninnar, vexti og allan kostnað af málarekstrinum. Ráðgjafi okkar starfar enn sem lögmaður á sömu stofu, sjálfsagt gefandi góð ráð fólki sem til hans leitar.

Jóni Steinari þykir, af yfirlýsingum hans sjálfs að dæma, ekki athugunarvert að hann hafi tekið að sér mál Sullubergs gegn Jóni Ásgeiri á sama tíma og hann var að vinna í málum fyrir Ingibjörgu, sem er stór hluthafi í Baugi og kona Jóns Ásgeirs, og fyrir systur hennar reyndar líka.
En froðusnakkurinn starfar ekki lengur sem lögmaður heldur er hann nú dómari við æðsta dómstól landsins.
Og enginn þorir að segja neitt um það.

Monday, March 12, 2007

Food and Fun

Um leið og ég lýsi eftir nöfnum þeirra veitingastaða sem ekki hafa lækkað verð á sínum matseðlum þrátt fyrir skattalækkunar-(les.kosningar-)útspil ríkisstjórnarinnar birti ég hér hugleiðingu um Food and Fun...


Food and Fun festivalið er skemmtileg viðbót í menningu höfuðborgarinnar. Hátíðin nú er sú fimmta í röðinni og þáttaka almennings hefur sennilega aldrei verið meiri. Nafntogaðir matreiðslumenn frá ýmsum löndum sækja okkur heim og yfirtaka eldhús 12 veitingastaða í borginni þá fjóra daga sem festivalið er ætlað gestum og gangandi. Hátíðinni lýkur svo með keppni þar sem reglurnar eru einfaldar; aðeins má nota íslenskt hráefni og meistararnir fá litlar 30 mínútur til að versla í matinn. Á matseðli keppninnar er einn fiskréttur, einn kjötréttur og desert og er kokkunum ætlað að töfra fram réttina sína á þremur tímum. Keppnin sjálf fer fram í Listasafninu í Hafnarhúsinu og undanfarin tvö ár hafa yfir 20.000 manns verið viðstaddir þennan stórskemmtilega matreiðslusirkus.
Að ætla sér að kynnast matargerð 12 meistara á aðeins fjórum dögum er auðvitað ógerningur þó maður gerði lítið annað en borða alla dagana. Það er þeim mun nauðsynlegra að kynna vel þáttakendur og veitingastaðina sem þeir munu starfa á með góðum fyrirvara. Kannski var undirritaður eitthvað óvenju sljór á þorranum þetta árið eða upptekinn af öðru en nákvæm tímasetning og umfang hátíðarinnar fór næstum framhjá án þess að vekja athygli. Það hefði verið miður að hafa misst af þessu alfarið og hátíðarhöldurum og þeirra almannatengslaverkmönnum ekki til hróss. En fyrst tíminn var orðinn naumur var bara að velja af þeim mun meiri kostgæfni hvert skyldi fara til að prófa. Indverjinn/Bandaríkjamaðurinn Vikram Garg, yfirmatreiðslumeistari Indebleu í G stræti í Washington DC varð fyrir valinu. Áhugi á indverskri matargerð og það að hann ætlaði að vera í Sjávarkjallaranum við eldamennsku vó þyngst. Eldamennska Garg er samruni af indverskum og frönskum stíl og samsettur menu meistarans var fjórrétta. Túnfisktartar, borinn fram á kúmen papadom með rauðbeðum og sesamfræjum var einstaklega góður. Algjört sælgæti og rétt að kvetja Kjallaramenn til að bæta þessum forrétti á fastaseðil staðarins. Þá var boðið uppá smörsteiktan humar með fenugreek rjómasósu á spinat og kartöflubeði. Mildur en afar góður milliréttur. Lamb í aðalrétt, tvennskonar, með pistasíu og minntu annarsvegar og tandoori á linsubaunabeði hinsvegar. Til nokkurra vonbrigða stóðst hvorugur lambaréttanna forréttunum snúning. Báðir voru bragðdaufir og má vera að meistarinn hafi vanmetið smekk landans og getu til að höndla sterkt kryddaðan mat. Linsubaunabeðið var besti hluti aðalréttanna, bragðmikið en þó fínlegt meðlæti. Meðferð meistarans á hráefninu, hinum rómaða íslenska lambi, var þó til fyrirmyndar. Ólíkt okkur heimamönnum þora útlendingar að bera lambið fram medium-rare og jafnvel rare, fagurbleikt í miðjunni. Þetta mættum við gjarnan herma eftir þeim. Súkkulaðimouse og karamelluís með karríbanana og karríryki gerði endanlega út um síðasta áramótaheitið og með þessum mat var drukkið Pinot Gris Dopoff Moulin í fyrri hálfleik og frábært Masi Amarone rauðvín með lambinu í þeim síðari.
Það sem herjaði á hugann fram eftir nóttu og líka morguninn eftir er sú ánægjulega staðreynd sem svona heimsóknir erlendra atvinnumanna varpa ljósi á. Við eigum á Íslandi matreiðslumenn og framreiðslufólk sem stenst fyllilega samanburð við erlenda toppmenn. Vandvirkni, metnaður og hugmyndaauðgi einkennir flest okkar fólk og örfáir skussar inná milli ná engan vegin að varpa skugga á það. Food and Fun að ári er tilhlökkunarefni og víst er að þetta framtak er vítamínsprauta fyrir alla sem að því koma.

Friday, March 09, 2007

Æ - æ

Enn einn "fjölmiðlafræðingurinn" að þenja sig. Nú er það tilfinning viðkomandi fyrir klámi sem veldur hugarangri.
Mér er hinsvegar spurn; hvernig má það vera að viðkomandi þekkir klám í svona miklum smáatriðum að hún getur tjáð sig um það opinberlega með þeim hætti sem hún gerir?

Er það hluti af námi viðkomandi í "fræðunum"?

Er ekki að verða komið nóg af upphlaupum "fjölmiðlafræðinganna" í samfélaginu?

Friday, March 02, 2007

M-ál-ið enn og aftur













Mér er slétt sama hvort nýjasta tækni geri álframleiðindum kleift að framleiða ál með "minni" mengun ef framleitt er hér á landi með rafmagni frekar en annarstaðar með kolum. Mér er líka nokk sama, á heildina litið, hvort bæjarfélagið mitt verður af þessari sporslu sem nemur víst ekki nema einu til tveimur prósentum af heildartekjunum yfir árið. Þessir 40 til 50 "birgjar" sem missa spón úr aski sínum ef Alcan skyldi loka eiga reyndar samúð mína svo langt sem hún nær en verða menn ekki að aðlagast breyttum tímum og finna sér lífsviðurværi sem ekki útheimtir þrælslund á við þessa. Það þurftu Suðurnesjamenn að gera eftir að herinn hysjaði upp um sig og fór.

Nei, öll þessi atriði vega ekki þungt á mínum skálum til móts við vægi þeirrar ábyrgðar sem á herðum okkar hvílir sem ábúenda á þessu landi og á þessari jörð.
Indíánahöfðingi, gamall og vitur, sagði fyrir margt löngu síðan, þegar umræðan snerist um eignarhald á landinu, að það að rífast um hver ætti landið væri álíka viturlegt eins og ef tvær flær væru að rífast um hvor þeirra ætti hundinn.

Við eigum ekki þetta land, ekki heldur þessa jörð eða nokkuð sem henni fylgir, andrúmsloft, höf, vötn, lönd eða annað. Okkur er einungis treyst fyrir þessu í stutta stund. Mjög stutta stund, hverju okkar. Og við erum að bregðast því trausti.

Afkoma örfárra verkamanna, lítils bæjarfélags eða þjóðar norður í ballarhafi á ekki að blinda okkur svo að við skilum plánetunni sem við búum á í slíku ófremdarástandi til niðja okkar að okkur verði aldrei fyrirgefið.

Til þess höfum við ekkert umboð og ekkert leyfi. Því eru komandi kosningar um stækkun eða ekki stækkun álversins í Straumsvík markleysa og óþarfar með öllu. Okkar umhverfisvitund og siðferðisþrek á að bjóða okkur að hafna þessari stóriðjutísku í eitt skipti fyrir öll án þess að til þurfi að koma pólitískir flokkadrættir, vinslit, og hatrammar deilur.

Verum samt ekki vanþakklát, virðum tíðarandann eins og hann var fyrir þremur áratugum síðan og viðurkennum þátt Ísal/Alcan í þróun og uppbyggingu bæjarins, hvort heldur sá þáttur er stór eða lítill. En nú er öldin önnur og Ísland tilheyrir ekki "þriðja" heiminum lengur.

Þökkum fyrir okkur og segjum þetta gott. Ef aðrar þjóðir kjósa að reisa álver í sínum bakgarði getum við alltént sagt; "maður breytir engum nema manninum í speglinum"...