Saturday, January 24, 2009

Hörður Torfason


Veikir menn eiga að taka sér veikindafrí, um það ætla ég að menn deili ekki. Krabbameinsmeðferð er, ein og sér, slíkt álag á þann sjúka að engu öðru er á bætandi. Því eiga þeir aðilar í stjórnsýslunni sem við þann illvíga sjúkdóm glíma tafarlaust að segja af sér og snúa sér heilshugar að sínum veikindum og vonandi bata.

Ef þið, sem teljið ykkur þess umkomin að úthrópa og ata auri Hörð Torfason, gætuð HLUSTAÐ á viðtalið umtalaða með eyrun opin og hugann stilltan á móttöku mynduð þið skilja það sem hann sagði.
Skammist ykkar fyrir lágkúruleg ummæli ykkar um þann eina Íslending sem hafði kjark til að hefja mótmæli þau sem nú eru loks að skila árangri.

Geir er veikur, Ingibjörg líka og nú ætlar Þorgerður að taka við en færri vita að hún stríðir einnig við alvarleg veikindi lítillar dóttur sinnar. Við þurfum mannskap með óskerta starfsorku og fulla einbeitingu í þeim hreingerningum sem framundan eru, ekki fólk sem á fullt í fangi með sjálft sig og sína.

Ætli samúð ykkar væri ekki betur varið hjá fjölskyldum þeirra sem hrunið mikla hefur þegar, svo snautlega lagt af velli?

Friday, January 23, 2009

Dagur B Eggertsson


Nafn Dags B Eggertssonar hefur æ oftar borið á góma í samtölum síðustu daga.

Hvar sem litið er yfir blóðvellina eða brunarústirnar blasir við að þeir, sem töldu sig hafa töglin og hagldirnar í öllum málum þjóðarinnar, liggja annaðhvort örendir í valnum eða ráfa um rammvilltir og ósjálfbjarga.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir háir hetjulega baráttu við illvígan og íþyngjandi sjúkdóm.
Fáum hefur komið til hugar að álag síðustu vikna og mánuða kynni að geta haft óbætanleg skaðleg áhrif á meðferðina og batahorfur. Fyrst nú, hundrað dögum eftir hrun, íhuga menn einhvern í hennar stað. Hinn pasturslitli varaformaður flokksins þykir varla kostur né heldur þeir aðrir sem helst eru nefndir í umræðunni, af ýmsum ástæðum og mörgum.

Þetta ætti auðvitað ekki að vera spurning fyrst og fremst um hvort þessi eða hinn komi til greina sem arftaki Ingibjargar Sólrúnar heldur miklu fremur um þann Gídeonshnút sem fjarvera hennar og veikindi hafa hnýtt þjóðinni. Það verður að höggva á hnútinn bölvaða og enginn þeirra sem stóð við fótskör ráðherrans, jánkandi ákvörðunum í ríkisstjórninni sem brást, hefur heiður til verksins.

Í Degi B Eggertssyni virðist vera það forystugen sem í öllu kviku skilur milli þess sem leiðir og hinna sem fylgja á eftir. Svo spillir hvorki fyrir honum né okkur að hann hefur einlægt, jákvætt viðmót og þægilega nærveru. Þeir persónueiginleikar gætu gert gæfumuninn fyrir þjóðina á þeim þungbæru og erfiðu tímum sem framundan eru. Þjóðin er í sárum og Dagur B Eggertsson er læknir af heilum hug.

Útrétt hönd í samkennd hefur önnur áhrif en oflæti og óeining.

Við þurfum ármann í öndvegi, lausan við hrokann sem núverandi ráðherrar hafa iðullega sýnt almenningi. Forystumann sem ekki burðast með erfðasynd svikinna kosningaloforða og ber ekki niðurlægður, kinnroða þess sem selt hefur sál sína og sannfæringu fyrir þægilegan stól.

Dagur B Eggertsson er hugsanlega einmitt maðurinn sem gæti stappað stálinu í örmagna þjóðina og hrifið hana með sér í vorhreingerninguna óhjákvæmilegu.

Dagur B Eggertsson er hugsanlega einmitt maðurinn sem Ísland þarfnast núna.

Thursday, January 22, 2009

Ekkert föðurland !

Þú ert ekki Íslendingur!
æpa þeir að mér,
ef ég sára saklaust vitni
sannleikanum ber.

Ekki mega iljar mínar
íslenskt snerta grjót,
ef ég blekktum bróður mínum
bendi á svikin ljót.

Ekki má mitt auga skoða
íslenskt blóm í hlíð,
ef ég harma örbrigð vora,
ómenningu og stríð.

Ekki má mitt eyra hlusta
á íslenskt lindarhjal,
ef ég þrái að þekkja og boða
það, sem koma skal.

"Báran kveður eins og áður
úr við fjörusand -
en ég á orðið einhvernveginn
ekkert föðurland".


Úr ljóðabókinni "Eilífðar smáblóm" frá 1940
eftir Jóhannes úr Kötlum

Wednesday, January 21, 2009

TRAITOR !


Varla er til nokkur glæpur lágkúrulegri
eða aumari en föðurlandssvik.

Hver er hæfileg refsing fyrir landráð ?

Í fullri alvöru, hvað telst hæfileg refsing fyrir að hafa kúgað og niðurlægt heila þjóð vel á annan áratug.

Myndi dauði hins siðlausa og veruleikafirrta gæpamanns skila okkur aftur því sem hann stal frá okkur ?

Hefur vistun á vitlausraspítala, útilokun frá samskiptum við aðra menn, nokkra þýðingu fyrir aumingja sem selt hefur sál sína ?

Sá sem svíkur fósturjörð sína og föðurland fyrirgerir tilverurétti sínum.

Tuesday, January 20, 2009

"Know your enemy" !!


Þekktu óvin þinn er gamalt og gott ráð. Tímabært mun vera fyrir niðurlægða og svínbeygða þjóðina að átta sig á hverjir eru hættulegustu og eitruðustu óvinir hennar nú á ögurstundu.

Fleyg setning úr skemmtilegri íslenskri bíómynd: "maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn" !
Siðblindir og veruleikafirrtir stjórnmálamenn hafa ekkert gert fyrir okkur nú um alllangt skeið nema auka á vandann. Þeir hafa hækkað laun sín afturvirkt og fest eftirlaunafrumvarpið í sessi, þeir hafa strikað yfir óþægilegar skuldir vildarvina og hagrætt í stjórnum banka og fyrirtækja svo líti út sem "liðir í aðgerð stjórnvalda" meðan raunverulegur ásetningur þeirra hefur verið að hylja spor og eyða sönnunum. Þeir hafa sigað lögreglu á hópa fólks sem nýtir sér stjórnskrárbundinn rétt til mótmæla og þeir hafa daufheyrst við öllum kröfum um að þeir axli ábyrgð og hypji sig burt. Þeir lofa fyrir hádegi að ekki verði gengið hart fram í innheimtuaðgerðum í ljósi aðstæðna en aðhafast ekkert þegar sýslumenn bjóða heimilin ofan af fjölskyldunum. Þeir vita ekki að grunnskólakrakkar fá ekki að borða í hádeginu ef mamma skuldar 4.350 krónur síðan um mánaðarmótin. Enda er þeim alveg sama.......

Einhver hluti ósvífinna athafnarmanna er samsekur. Heiðarleiki og drengskapur eru ekki valgreinar í viðskiptafræði, hvorki í háskólum höfuðborgarinnar né á Bifröst. Einhver hluti spilaði svo Matadorið af græðgi einni saman. Allir þessir óheilu og óvönduðu menn spiluðu þó bara eftir leikreglunum sem hinir kjörnu fulltrúar höfðu komið sér saman um að ættu að gilda.

Og svo er kyrjuð mantran "leitum ekki sökudólga" !! Maður leitar að því sem er týnt eða hulið ekki að því sem blasir við og hlær uppí opið geðið á manni.

Þjóðin veit uppá hár hverjir eru sekir og á ekki að láta ráðherra í umboðslausri ríkistjórn segja sér fyrir verkum.

ÉG SKORA Á ALLA HUGSANDI ÍSLENDINGA AÐ LÆRA NÚ ÞEGAR AÐ ÞEKKJA ÓVINI SÍNA OG BEINA ÖLLUM KRÖFTUM Í UPPREISN GEGN ÞEIM OG ÞEIRRI SVÍVIRÐU SEM ÞEIR HAFA LEITT YFIR ÞJÓÐINA.

LENGI LIFI FRJÁLST OG SJÁLFSTÆTT ÍSLAND OG ÍSLENDINGAR.

Monday, January 05, 2009

Samúð !



Ég finn til innilegrar samkenndar með kvikmyndaleikaranum John Travolta vegna dauða sonar hans.

Þessi leikari hefur fylgt okkar kynslóð frá því hann dansaði og söng á móti Olivíu Newton-John í Grease og þær eru ófár myndirnar sem hann hefur leikið í síðan, flestar góðar og sumar kannski-ekki-eins-góðar. En enginn hefur enn toppað töffaraganginn í Pulp Fiction.

Það getur enginn sett í spor foreldris sem missir barn sitt nema sá sem hefur viðlíka reynslu, við hin lútum höfði og vottum samúð.

Ég finn til með þessum ágæta leikara er dauðinn hefur svo harkalega knúið dyra hjá honum og fjölskyldu hans.