Wednesday, April 16, 2008

Laddi 6-tugur (sex-tíu-eins) +




Það væri að bera í bakkafullan lækinn að tíunda enn einu sinni þær frábæru móttökur sem afmælissýning Ladda í Borgarleikhúsinu hefur hlotið hjá þjóðinni.

Nú er sýning númer eitt hundrað framundan, í lok þessa mánaðar, og enn hefur ekki ein einasta sýning farið fram fyrir minna en troðfullu húsi. Slíkt er fáheyrt ef ekki einsdæmi í leikhússögu þjóðarinnar, að einn einstakur listamaður nái að selja upp á yfirlitssýningu af ferli sínum í eitt hundrað skipti.

Nú hefur verið bætt við sýningum í maí og ástæða til að kvetja þá sem enn hafa ekki séð sýninguna að tryggja sér miða í tíma því sumarið er framundan og enginn veit hvað haustið ber í skauti sér.
En ævintýrið hefur verið einmitt það, stórkostlegt ævintýr sem 16,5% Íslendinga hafa upplifað og ekki sér enn fyrir endann á.

Friday, April 11, 2008

Einangrun !

Vegna fréttar á visir.is um vanþekkingu þingmannsins (og íþróttafréttamannsins) Samúels Arnar er rétt að ítreka fyrri ábendingu um heimasíðuna "mál214" og hlekkjuð er hér til hliðar.

Takið ykkur nokkrar mínútur og lesið það helsta sem þarna er að finna svo þið þurfið ekki að standa í sporum íþróttafréttaritaraafleysingaþingmannsins og afhjúpa vanþekkingu ykkar eins og hann gerði svo eftirminnilega.

Glæpurinn sem íslenska ríkið, og þjóðin öll með þegjandi samþykki sínu, framdi gegn þolendum í máli 214 er smánarblettur sem þingmenn eiga ekki, frekar en aðrir, að þykjast ekkert vita um.

Maður á ekki að þurfa að skammast sín fyrir Alþingismenn sína. Þær eitthundraðogsex vikur sem grunaður einstaklingur þurfti að sitja í einangrun vegna ásakana um glæpi í máli 214 mega ekki svo auðveldlega verða gleymsku að bráð að "kjörinn" fulltrúi á Alþingi Íslendinga gaspri um einhvern dópsala í Færeyjum vorkennandi viðkomandi af því danska réttarkerfið sé svo seinvirkt.

Maður líttu þér nær... Og skammist ykkar svo til að taka mál 214 upp aftur svo hreinsa megi þá einstaklinga sem þar voru bornir röngum sökum og þjóðina alla af þeirri svívirðu sem Guðmundar-og Geirfinnsmálin voru í heild sinni.

ÍNN ?


Ný sjónvarpsstöð, nokkur þekkt andlit, álitsgjafar og fólk með skoðanir, gestir í stúdíói til að krydda umræðuna..... en svo er eitthvað stórundarlegt innskot öðru hvoru og erfitt fyrir óvana að átta sig á hvað er að gerast.

Einhver maður eys úr skálum reiði sinnar og myndatakan lítur út einsog viðkomandi sé staddur í geimstöðinni Mír að senda pistla heim í gegnum gamalt Sovéskt lampaviðtæki. Orðbragðið er óheflað og skoðanirnar öfgakenndar. Maðurinn grettir sig og geiflar eins og hann finni vonda lykt og hann talar af mikilli vandlætingu um "gæjana" og "strákana" sem, með mótmælum sínum, hafi bakað þjóðinni vandræði og tjón síðustu daga. "Það á að taka þessa gæja og fleygja þeim í svartholið... og gera bílana þeirra upptæka" !

Mynd-og hljóðgæði er kannski ekki endilega það sem sjónvarpsstöð stendur og fellur með, þó eðlilegt sé að gera einhverjar lágmarkskröfur í þeim efnum. Þegar varla er lengur hægt að greina hvort nábleik og óskýr mannveran í miðri mynd er lífs eða liðin verða tæknimenn hér á jörðu niðri þó að grípa inní og reyna að laga það sem hægt er.

En öfgakenndar og hatursfullar jaðarskoðanir eins og þær sem sendar eru út á ÍNN í þætti gamals fúllynds nöldrara sem lítur út eins og Ingvi Hrafn ætti engin sjónvarpsstöð að láta bendla sig við.

Ég trúi ekki að þetta sé Ingvi Hrafn sjálfur, hann myndi aldrei láta draga sig niður í aðra eins lágkúru - eins vandur og hann er að virðingu sinni.... og sjónvarpsstöðvar sinnar.... Þessi tiltekni þáttur er fáránlega "ekki töff"!!!

Monday, April 07, 2008

Upprifjun !

Ég skal reyna að hætta að "tuða" svona mikið yfir hinu og þessu og öllu milli himins og jarðar.

Ég skal t.d. reyna að "tuða" ekki yfir bílastæðislögbrjótunum í hverfinu mínu þegar sonur minn, eða barn annars foreldris í þessu annars ágæta hverfi, fær heilahimnubólgu og deyr af því sjúkraflutningamenn og læknar komast ekki að húsinu mínu í tæka tíð.

Einnig skal ég minnka "tuðið" næst þegar ríkisstjórn landsins, rúin trausti þjóðarinnar og sitjandi að völdum án umboðs kjósenda, ákveður einhliða að lýsa yfir stuðningi við stríðsrekstur galins trúðs í Washington.

Heimtufrekjan, sem fólgin er í þeirri tilætlunarsemi að vilja fá þjónustu og boðlegan mat á veitingahúsum sem verðleggja sig út yfir allan þjófabálk, hefur einnig getið af sér heilmikið "tuð" sem sjálfsagt er hægt að minnka til muna.

Til dæmis með því að sökkva sjálfum sér niður á meðalmennskuplan minnipokamanna sem láta allt yfir sig ganga átölu- og tuðlaust!

En þá væri sennilega nær að loka síðunni og hætta alveg að deila skoðunum með vöfrurum í netheimum.

Sunday, April 06, 2008

Neyslustýring !

Spónarplötur brenna og við það losna hættulegar eiturgufur, þær hljóðeinangra fremur illa og mynda ekki sléttan flöt þegar búið er að setja þær upp nema stoðirnar sem bera þær hafi verið þeim mun betur smíðaðar. Og þær veita takmarkaða einangrun hita og kulda. En þær bera ekki vörugjald og eru því ódýrari kostur en gipsplötur.

Gipsplötur brenna ekki og eru því prýðileg eldvörn. Þær hljóðeinangra afar vel og eru auðveldar í uppsetningu, aðeins þarf að spartla lítillega samskeyti og þá er veggurinn sléttur og tilbúinn fyrir málningu. Og þær einangra ágætlega hita og kulda. En þær bera vörugjald og eru því dýrari en spónarplöturnar.

Til lengri tíma litið hlýtur að vera hagkvæmara fyrir þjóðina að húsin séu byggð úr betri efnum. Efnum sem brenna ekki, hljóðeinangra vel svo lífsskilyrði batni og halda kuldanum úti og hitanum inni. Neytendum er hinsvegar stýrt frá betri byggingarefnunum til þeirra lakari með illa ígrundaðri skattlagningu ríkisvalds sem slitið hefur öll tengsl við þá þjóð sem falið hefur henni ábyrgð og völd.

Nú er verð á bensíni og skattlagning á hvern lítra af eldsneyti talsvert í umræðunni. Díselvélar eru endingarbetri en bensínvélar. Þær menga minna, nota alla jafna færri lítra af eldsneyti á hvern ekinn kílómetra en bensínvélar og þurfa minna viðhald til langs tíma litið. Samt er díselolía nú orðin dýrari en bensín. Engin talar neitt um það.

Í stjórnarskrá Bandaríkjanna, hinni frægu "Declaration of Independence" er ákvæði annarrar málsgreinar um ríkisstjórnina og ábyrgð hennar og skyldur. Þar segir að ef stjórnin þyki ekki lengur þjóna hagsmunum þjóðarinnar geti þjóðin losað sig við hana og komið sér upp annarri og betri stjórn. Reyndar beri þjóðinni skylda til þess að setja óhæf stjórnvöld af og tryggja hagsmuni heildarinnar með nýrri og hæfari mönnum.

Engin slík úrræði eru fyrir hendi hér. Við sitjum uppi með sama grautinn í sömu skálinni áratug eftir áratug og virðist engu breyta hve óheiðarlegir og svikulir menn eru eða hversu miklu þeir klúðra. Þeir sitja sem fastast í sínum stólum og neita bara að tjá sig þegar þjóðin krefst skýringa.

Og á meðan byggjum við, með aðstoð farandverkamanna frá Austur-Evrópu, léleg hús úr lélegum byggingarefnum og keyrum mengandi bensínsvelgi um handónýtt gatnakerfi því göng þurfti að bora án tafar einhverstaðar í útkjálka-umdæmi sitjandi ráðherra.

Og þingmenn og ríkistjórn sitja veislur í fjarlægum löndum og ráða ráðum sínum fram að eftirlaununum sínum, sem eru víst ekki skorin við nögl.

"Öll dýrin á búgarðinum eru jöfn, sum eru bara jafnari en önnur......."

Og þau sem ójafnari eru borga brúsann.

Tuesday, April 01, 2008

Kraumur ?

"Þó í potti kraumi" var sungið í rútunni þegar átti að barna setningar úr þekktum popplögum og lag Eyfa "Ég lifi í draumi" dúkkaði upp í fíflalátunum.

En það "kraumar" í fleiri pottum en þeim sem bláfátækir poppararnir voru að gantast með á heimleiðinni eftir ballið "út'á landi", sem þeir héldu sjálfir. Nú kraumar nefnilega í miklum sjóðapotti sem tónlistarlegir öryrkjar og þurfalingar geta sótt sporslu í til að eiga fyrir salti í grautinn sinn.... sem er svo eldaður í enn öðrum potti..

"Kraumur" var það heillin, og ef platan selst ekki nógu vel eða mætingin á tónleikana er eitthvað léleg má þiggja aðréttu úr hinum nýja digra sjóði.



Samt var eitthvað þroskandi og næstum heillandi við það að þurfa sjálfur að afla sér viðurværis með eigin verkum og dugnaði... og láta markaðslögmálin framboð og eftirspurn um að greina hismið frá kjarnanum....


En tímarnir breytast og dugnaður manna og drengskapur líka. Það sem sumir mega hvorki nefna né tala um hentar öðrum ágætlega til framfærslu....

Rauðará

Fyrir nokkrum mánuðum síðan sóttum við heim steikhúsið Rauðará. Um vonbrigði þeirrar heimsóknar má lesa hér á síðunni. Í greininni gætir misskilnings sem vert er að leiðrétta. Gefið er í skyn að nýjir eigendur standi við stjórnvölinn en hið rétta er að sá sem nafngreindur er hafði þegar þarna var komið við sögu rekið staðinn í réttan áratug.

Nú hefur Rauðará sannarlega skipt um eigendur og mun gagnrýni á hinn endurnýjaða stað birtast innan tíðar.