Friday, February 23, 2007

LADDI ???

















What the f*** ?

Tuesday, February 20, 2007

UPPSELT !!!

Nú skil ég loks þennan gamla leikhúsfrasa "uppselt, uppselt"!

Uppselt er á nær allar sýningar Ladda sem áformaðar voru og hefur enn verið bætt við þremur aukasýningum; miðvikudaginn 28. feb. kl.20.oo, fimmtudaginn 8. mars kl.20.oo og laugardaginn 10. mars kl 14.oo.

Sýningin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og Páll Baldvin gaf fjórar stjörnur í Fréttablaðinu.

Margir hafa spurt um teikninguna frábæru af Ladda, sem ég tók mér bersaleyfi og birti með pistlinum hér að neðan. Ljúft og skylt að upplýsa að þar á í hlut Róbert Schmidt frá Suðureyri við Súgandafjörð og vona ég að hann fyrirgefi að eign hans var tekin að láni með þesum hætti.

Sunday, February 18, 2007

Lukkaðist !




Troðfullt hús ...
Allir skemmtu sér vel ...

og nú er meira að segja til fiðrildi
sem heitir Laddi ...

Nú er aftur gaman ...

Thursday, February 08, 2007

LADDI 6-TUGUR


Borgarleikhúsið - stóra sviðið

Þórhallur Sigurðsson, Laddi, varð sextugur á dögunum. Hann fagnar jafnframt 40 ára ferli sem tónlistarmaður, leikari og grínisti. Í tilefni af afmælinu, hefur verið ákveðið að slá upp grínsýningu með Ladda, gestum og hljómsveit.

Auk Ladda muni allir helstu góðkunningjar Ladda líta við og láta ljós sitt skína, þar á meðal Eiríkur Fjalar, Saxi læknir, Skúli Rafvirki, Elsa Lund, Þórður húsvörður, Jón Spæjó og Magnús bóndi.

Verður sýningin frumsýnd 17. febrúar.
Höfundar: Þórhallur Sigurðsson og Gísli Rúnar Jónsson
Sviðsetning: Björn Björnsson
Hljómsveitarstjóri: Hjörtur Howser



Aukasýningar


Í kjölfar tilkynningar um að setja ætti upp grínsýninguna LADDI 6- TUGUR í Borgarleikhúsinu rigndi inn fyrirspurnum frá fólki um allt land varðandi það hvernig maður tryggi sér miða. Ákveðið var að opna einfaldlega fyrir miðasöluna til að geta sinnt öllu þessu fólki strax, án þess að tilkynna sérstaklega um það, hvað þá auglýsa. Skemmst er frá því að segja að viðbrögðin hafa verið ótrúleg og miðarnir rokið út. Nú hefur verið bætt við aukasýningum á Ladda og það borgar sig að hafa hraðann á ef þið viljið tryggja ykkur miða. Aukasýningarnar eru: laugardaginn 24. febrúar kl. 22:30, laugardaginn 3.mars kl. 22:30 og laugardaginn 24. mars kl. 22:30.

Tuesday, February 06, 2007

Apótekið







Ein af mínum fyrstu minningum úr æsku var þegar ég og afi fórum í bæinn. Ekki man ég erindið, árstímann eða önnur smáatriði en ég man götuhorn og á því horni stóð skrítinn karl og kallaði nefmæltur nöfn allra fréttablaða sem þá voru gefin út. Fékk seinna að vita að þessi náungi hét Óli blaðasali og hornið sem hann stóð á og galaði blaðaheitin var hornið á Austurstræti og Pósthússtræti. Og tröppurnar hans voru tröppurnar að Apótekinu. Mér hefur alltaf þótt svolítið vænt um þennan tiltekna stað í borginni.
Lengi eftir að þarna var opnaður veitingastaður var ég hálfragur við að kíkja á hann en auðvitað gerði ég það að lokum. Enda varð Apótekið fljótt umtalað og ekki dugar að hafa enga skoðun á því sem um er rætt. Ég var líka spenntur að sjá hvernig til hafði tekist með innréttingar og samspil þess gamla og nýja.
Salurinn hefur verið opnaður endilangt og færður nær upprunanum. Sjálfsagt ekki margir á lífi sem muna svo langt aftur en reynt hefur verið að hafa allan frágang sem líkastan því sem upphaflega var. Afgreiðsluborðið fremst í rýminu, þar sem áður voru afgreidd lyf, er nú bar og biðsalur viðskiptavina lyfsalans er setustofa. Þar sem í fyrndinni var opið út í garð, aftantil í stóra salnum, er nú eldhús. Glerveggur skilur á milli og því eru kokkarnir vel sýnilegir á meðan þeir elda. Sjálfur matsalurinn er dálítið á lengdina, borð fyrir fjóra eða fleiri við gluggaröðina og raðir af tveggjamanna borðum inneftir miðjunni. Innst er svo herbergi það sem minni hópar geta fengið að vera prívat. Allt er málað mildum, björtum litum og ljósakrónurnar loka heildarmyndinni afar smekklega. Staðurinn er fallegur og aðlaðandi, hlýlegur þó hann sé svona stór og opinn. Og virðingin fyrir fortíðinni er augljós þó nútíminn sé í aðalhlutverki.
Tilgangur heimsóknar á veitingahús er hjá mér, eins og sennilega hjá flestum, að fá eitthvað að borða. Eitthvað gott að borða og að láta stjana svolítið við mig á meðan snætt er. Hvort tveggja þarf að vera í sómasamlegu lagi til að heimsóknin heppnist vel og viðskiptavinurinn fari ánægður heim. Og komi þá vonandi aftur. Þegar ég bað stúlku sem þarna gekk um beina, um þurrku, til viðbótar þeirri einu sem okkur tveimur hafði verið ætluð, var svarið: “sorry, I don´t speak Icelandic”. Er það ásættanlegt á einu af dýrari veitingahúsum borgarinnar? En þjónn hússins leysti öll mál sem upp komu af fagmennsku og kurteisi. Hann er áhugamaður um vín og er fróður um þau sem í boði eru. Hann er veitingastaðnum til sóma. Aðrir sem þarna voru að þvælast um salinn eru það ekki. Fyrri heimsókn mín á Apótekið var með stórum hópi fólks og um helgi. Mikill handagangur var í öskjunni og ekki sanngjarnt að meta viðurgjörning í smáatriðum útfrá þeirri reynslu. Því ákvað ég að koma aftur og þá með minni látum. Maturinn í þessum tveimur heimsóknum kom mér í opna skjöldu. Enginn í tólf manna hópnum var alveg ánægður og þá smakkaði ég túnfisksteik sem var bragðlaus og þurr. Wasabypiparsósa náði ekki flugi og niðurstaðan var vonbrigði. Er þetta þó einn af réttunum sem yfirkokkurinn mælir sérstaklega með. Í seinni heimsókninni pöntuðum við jólamatseðilinn og stendur uppúr hvað allt sem borið var á borð var einstaklega óspennandi. Lítið virðist spáð í bragð og útlit og botninum var náð með grænu hummusi sem var svo illa útlítandi að við báðum þjóninn að fjarlægja það svo matarlystin færi ekki sömu leið. Af fjórum forréttum stóð enginn uppúr, sama flatneskjan og bragðleysið af öllu, en graskerssúpan var kannski sínu verst. Af aðalréttunum var svínasíðan langsíst og aðrir réttir ekki nema aðeins skárri. Þoskhnakki með reykýsusósu var slepjulegur og grillaði aspasinn sem fylgdi honum var trénaður. Maturinn var ekki bara óspennandi á að líta, hann var beinlínis vondur. Það eru mestu vonbrigðin við heimsóknirnar á Apótekið. Við smökkuðum ýmis vín með þessum jólamatseðli og sú upplifun, og fróðleikurinn sem fylgdi, var besti hluti kvöldsins.
Apótekið fær tvær stjörnur, eina fyrir fallegt og hlýlegt umhverfi sem tekur vel á móti manni og eina fyrir þjóninn góða sem gerði allt sem hann gat til að bjarga kvöldinu.




Heimasíða Apóteksins er:www.veitingar.is - ljósmynd fengin þaðan

Thursday, February 01, 2007

Íslensku tónlistarverðlaunin

Lay Low kom, sá og sigraði. Hún er söngkona ársins, á besta plötuumslagið og var kosin vinsælasti flytjandinn í SMS kosningu. Frábært. Hef reyndar ekki enn heyrt tónlist þessa nýstirnis en mun bæta úr því reynsluleysi á næstu dögum.

Bubbi og Bo fengu sína styttuna hvor og Óli Gaukur var heiðraður.

Hafdís Huld á poppplötu ársins.

Hefur einhver heyrt lag og texta ársins með Ghostdigital ???

Fróðlegt væri að fá að vita hvernig valið fer fram, hverjir eru til umsagnar og eftir hverju er farið þegar veita á verðlaun sem þessi.

Og hvar var Sviðin Jörð meðan á þessu stóð ?

Æsingsóráðsheilkenni ?

Þegar menn mála sig útí horn er gott að geta gripið til nýyrðasmíði til að redda sér.

Lögreglan varð fyrir því skrambans óláni að maður lést í átökum við þá og aðstandendur og vinir kröfðust skýringa, eðlilega.

"Dánarorsök mannsins samkvæmt krufningarskýrslunni er svokallað æsingsóráðsheilkenni og hefur neysla kókaíns og amfetamíns orsakað æsingsóráðið".

Einmitt.

En svo segir:"ekki fannst hins vegar mikið magn af efnunum í blóði hans"...

Nú ?

Enn er skrifað:"Talið er að þetta óráð hefði ekki endað jafn illa og það gerði ef maðurinn hefði ekki verið með undirliggjandi hjartasjúkdóm" !

Svo greinir frá að rannsókn sé lokið og málið hafi verið fellt niður, ekkert kom fram sem gaf tilefni til frekari aðgerða ríkissaksóknara.

Þá vantar bara þrjú nýyrði í púkkið. Einhverja góða þýðingu á "Spin Doctor", eitthvað snallt yfir "Damage Control" og svo gott orð sem nota mætti yfir "White-wash"...

Örflokkasukk

Hættið'i að segja okkur fréttir af allsherjarþingi Frjálslynda flokksins!

Ekkert hefur verið eins mikið í fréttum undanfarið eins og hinar miklu deilur og ósamkomulag þessara fáu einstaklinga sem kalla sig Frjálslynda flokkinn.

Las í Blaðinu í dag að skráðir meðlimir eru 1.547. Eittþúsundfimmhundrufjörutíuogsjö!!!

Hvað er málið ?

Fjölmiðlar láta eins og íslenska þjóðin standi og falli með þessu fólki og því sem það er að karpa um á sínum skrifstofum.

Þetta er svipaður fjöldi og er áskrifendur að tímaritinu Bleikt og Blátt...

Hættið'i að plaga okkur hin með fréttum af þessum fámenna kjaftaklúbbi...

Lögbann á tengibraut

Bryndís Schram og fleiri góðir Álafosskvosingar mótmæltu yfirgangi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og tókst að stöðva umhverfis-og skipulagsslys. Aðdáunarvert þykir mér þegar fólk tekur sig saman og gerir eitthvað í málunum í stað þess að röfla bara hvort við annað. Athygli vakti hroki og virðingarleysi bæjarstýrunnar en hún lét hafa eftir sér að hún hefði lengi vitað af "mótbárum" Varmársamtakanna. Hún lætur í veðri vaka að reynt hafi verið að taka mið af tillögum samtakanna og að framkvæmdin hafi, "fra A til Ö" verið í "lögformlegu ferli". Bæjarstjórnin hafi "bara unnið sína vinnu" !!!

Hvaða firring er í gangi? Er þessari bæjarstýru ekki kunnugt um að hún sækir umboð sitt til bæjarbúa, þar þar með talið fólksins í Varmársamtökunum? Hennar er ekki að deila og drottna heldur taka fullt tillit til þess sem hennar yfirmenn, bæjarbúar sjálfir, segja. Að öðrum kosti verður henni skipt út að lýðræðislegum hætti fyrir einhvern sem betur er í tengslum við sitt fólk.

Og vel á minnst; hvaða dæmalausu rökþrot eru það að ætla að gera lítið úr mótmælunum með því að persónugera notkun fánans sem flaggað var í hálfa stöng? Bæjarstýran segir það ósmekklegt og óvirðingu við fánann, og minningu tveggja ára stúlku sem jarðsungin var á sama tíma og mótmælin fóru fram, að nota fánann á þennan hátt. Það "sýni í hvaða tengslum samtökin eru við bæinn og bæjarbúa, sem greinilega eru ekki mikil"!

Og þetta úr munni manneskju sem fótum treður skoðanir fólks og hleypir stórvirkum vinnuvélum í þeirra nánasta umhverfi til að leggja þar 10.000 bíla tengibraut. Og hefur hunsað algerlega öll rök í málinu og ítrekuð mótmæli þeirra sem framkvæmdin bitnar hvað harðast á.

Má ég þá heldur biðja um bæjarstjórann minn, sem ALLTAF hlustar á raddir sinna bæjarbúa...