Thursday, May 15, 2008

Harmleikur á harmleik ofan !


smellið til að stækka !



Íslenskan er dauð.... lifi Húbba-búbbískan !

Hryllingur atburða í Austurríki nýverið er ömurlegri en tárum tekur.

Engin leið er að setja sig í spor mannsins sem missti svo algerlega tökin á sinni tilveru að hann drap alla sína nánustu.

Þegar segja þarf frá slíkum harmleik eru fá verkfæri betri en Íslenskan, tungumálið okkar undursamlega sem skilur okkur frá þeim þjóðum sem tala barnamál.

En eins og þurft hafi að bæta á sorgina þá eru þeir, sem segja okkur hinum frá því sem hefur gerst, hættir að beita Íslensku. Í hennar stað er komin mállíska sem hvorki er hægt að tala né skrifa nema jórtrandi væna tuggu af Hubba-bubba tyggjói á meðan, þið munið "saftiga búbblor..la la la".

Því kýs ég að nefna þetta hrognamál fjölmiðlanna "Húbba-búbbísku!", til aðgreiningar frá kjarnyrtasta og blæbrigðaríkasta tungumáli veraldar, Íslenskunni.

Lesið fréttina hægt yfir og spyrjið ykkur síðan sjálf;

Hvað er "almannatengill"...

Hver er munurinn á "sjálfstætt starfandi" almannatengli og öðrum almannatenglum ?

Er "almannatengill" til sem starfsheiti ?

Hverjum öðrum en "lögreglumönnum" tilkynnir maður um voðaverk þar sem maður er staddur búinn að gefa sig fram við "lögreglu". (hann gaf sig fram við lögreglu og tilkynnti skúringakonunni að hann hefði myrt fimm manns !)

Hvað var það eiginlega sem lögreglan viðurkenndi áður en hún fór af stað og fann líkin fimm ?


Mikið svakalega hefur aumingja maðurinn verið blankur....



Á Húbba-búbbísku gjaldfalla allar frásagnir og ekkert stendur eftir nema bullið.

Tuesday, May 06, 2008

Hugtakið "hear-say" !

Í mörgum ágætum réttarsala-og lögfræðinga þáttum í sjónvarpinu er notað hugtakið "hear-say", um það sem haft er eftir þriðja aðila. Slíkt telst alla jafna ekki góður vitnisburður þar sem sá sem segir frá var ekki viðstaddur, og sá því ekki með eigin augum það sem gerðist, heldur hefur eftir frásögn einhvers annars.

Í okkar brokkgenga réttarfari hafa menn verið dæmdir sekir eftir slíkum "hear-say" vitnisburði. Nýlegt dæmi; táningur fór í leyfisleysi inná einkalóð (trespassing) og kastaði af sér vatni (meig) yfir eigur þess sem á lóðina. Sá brást við og rak boðflennuna burt. Þegar viðkomandi neitaði að fara stuggaði eigandinn við honum. Hland-unglingurinn hrökk þá í kút, sjálfsagt óvanur því að vera sagt fyrir verkum, og hljóp hljóðandi út í náttmyrkrið. Félagarnir, sem biðu í bílnum á meðan kippkorn frá, tóku á móti stráknum sem andstuttur og skjálfandi sagði þeim frá því að þar sem hann stóð og meig í rólegheitum kom snarbrjálaður maður og hóf að berja á honum með kústskafti. Engu tauti var við þann geðsjúkling komandi og eina ráðið að forða sér á hlaupum, í taugasjokki.

Vitni að þessum atburði voru eigandi eignanna sem mígið var á og sá sem meig.... engir aðrir.

Eigandinn var dæmdur fyrir líkamsárás og gert að greiða hlandhausnum bætur fyrir ónæðið sem hann varð fyrir á meðan hann meig á heimili og eigur þess fyrrnefnda.

Fyrir rétti var vitnisburður mannanna, sem sátu í bíl hálfan kílómetra í burtu og hlustuðu á tónlist, tekinn gildur sem frásögn af atburðinum. Í flestum ríkjum hins siðmenntaða heims hefði slíkur vitnisburður verið kallaður "hear-say" (snjöll þýðing óskast) og ekki talinn trúverðug heimild um hvað gerðist eða gerðist ekki.

Á Íslandi líðst mönnum hinsvegar að gaspra án ábyrgðar um hvaðeina sem í umræðunni kann að vera þann daginn og skiptir þá engu hvað er rétt eða rangt, hvað er satt eða logið, hvað er grunur og hvað telst sannað. Mannorð má fótum troða alveg sama hver á í hlut og sá telst sekur sem ásakaður er ef hann sjálfur getur ekki án tafar sannað sakleysi sitt.

Og "vitnin" spretta út úr tréverkinu eins og veggjatítlur, blaðrandi og þvaðrandi, gerandi sjálfa sig merkilega vegna einhvers sem "þeir heyrðu" eða "upplifðu eftir á", líkt og mennirnir sem biðu í bílnum meðan hlandhausinn meig á einkaeignirnar.

Svo er gjarnar bætt við, neðst í frásögnina; "reyndar sá ég þetta ekki með eigin augum" - en þá er skaðinn skeður og "sökudólgurinn" orðinn sekur í hugum allra sem lásu "vitnisburðinn".

Datt þetta svona í hug þegar ég las þettta á visir.is

Monday, May 05, 2008

Stuð !




Fjölmiðlarnir með á nótunum:

http://visir.is/article/20080505/LIFID01/673735104