Sunday, April 09, 2006

Burger King

Alltaf er ég jafnbit á því þegar afgreiðslufólk ber ekki hag fyrirtækisins sem það vinnur hjá fyrir brjósti. Á Burger King í Smáralind vinna krakkar sem er sléttsama um hvort viðskiptavinurinn fer ánægður eða svekktur frá þeim eftir máltíð. Fjögur börn og tveir fullorðnir keyptu hamborgara og skýrt var tekið fram að þau tvö yngstu vildu “barna” borgara. Barnamáltíðinni á að fylgja eitthvert lítið leikfang en þegar spurt var um það kom í ljós að það fylgir ekki JR (djúníor) borgaranum sem þó er mun dýrari en hinn sem dótið á að fylgja. Í stað þess að gott úr misskilningnum fór afgreiðslukrakkinn að munnhöggvast við kúnnann og gaf sig ekki, ekkert dót fyrir þessi börn. Hamborgararnir þarna eru ruslfæði svo um þá þarf ekki að fjölyrða, læt nægja að benda á að mun betri borgara er hægt að fá nánast hvar sem er á höfuðborgarsvæðinu, með dóti eða án ...

Krua Thai

Eitthvað hefur Fischer karlinn hreyft við aðstandendum Krua Thai við Tryggvagötu því ógeðið sem mér fannst einkenna staðinn er nú víðs fjarri. Ég sló til og prófaði í hádegi og viti menn, staðurinn er hreinni og loftið betra en það var. Og maturinn er góður. Afgreiðslan er dálítið á persónulegu nótunum en það stuðaði ekki, svolítið mömmulegt og örugglega meint þannig. Réttirnir sem bornir eru á borð eru eins og þeir sem myndirnar eru af á heimasíðu staðarins, nokkuð sem mætti taka til fyrirmyndar. En skákjöfurinn var hvergi sjáanlegur ...

Súfistinn Hafnarfirði

Súfistinn við Strandgötu í Hafnarfirði er eina kaffihúsið sem stendur undir nafni í þeim bæ. Ljóður er þó á sem dregur Súfistann talsvert niður. Tilgangur heimsókna á þennan stað hlýtur að vera, fyrir utan kaffið sjálft, að eiga augnabliks upprof frá amstri dagsins, slaka örlítið á, lesa blöð og kannski að hitta fólk og spjalla. Það er útilokað þegar djöfulgangurinn í kaffivélinni er slíkur að maður heyrir sjálfan sig ekki hugsa. Svona alvörukaffivélar eru víða en ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt annan eins hávaða í þeim og ég upplifði þarna. Ég hélt um tíma að draslið myndi hreinlega springa í loft upp
Seinagangurinn í afgreiðslu á Súfistanum er hluti af stemmningu en þetta síendurtekna áreiti var ekki hægt að leiða hjá sér. Og eitt enn: Unglingar, sem koma í hópum, og einn eða tveir kaupa kaffi meðan hinir þamba vatn, þurfa að tempra tóbaksneysluna. Ef ég á að fara úr óbeinum reykingum vil ég í það minnsta að það séu “paying customers” sem valda því ...