Friday, January 26, 2007

Sviðin Jörð

















Hróður hljómsveitarinnar sem nefnir sig "Sviðin Jörð" breiðist hratt út. Tónleikar á Cafe Rósenberg, bæði þeir sem fram fóru rétt fyrir jólin nýliðin og aðrir á fimmtudagskvöldið 25. s.l. þóttu takast með eindæmum vel. Svo vel reyndar að staðarhaldari hefur óskað eftir frekara samstarfi við félaga sveitarinnnar og eru tvennir tónleikar fyrirhugaðir á staðnum, þann 9. febrúar og þann 10.
Einnig er í bígerð "turne" um landið norðanvert og mun sveitin sækja Akureyringa heim föstudagskvöldið 2. febrúar og svo Húsvíkinga laugardaginn þann 3. Hefur tónleikaferð þessi hlotið heitið "Sviðin Jörð Arctic Tour 2007".
Hér til hliðar gefur að finna tengil á nýopnaða upplýsingasíðu þar sem helstu viðburðir úr starfi sveitarinnar eru, og verða, tíundaðir. Á þeirri síðu er svo að finna tengil á enn eina síðu tileinkaða sveitinni, þar sem höfundurinn Davíð Þór Jónsson birtir öll ljóðin af hljómplötu sveitarinnar "Lög til að skjóta sig við". Er talsverður fengur af þeirri síðu því ljóðin eru læsileg vel. Má hafa af þeim nokkurt gaman einum og sér þó auðvitað sé eindregið mælt með því að platan sé keypt og þeirra notið í því tónlistarlega umhverfi sem Sviðin Jörð bjó þeim af álúð og vandvirkni.

Wednesday, January 24, 2007

Spurningalögga ríkisins tekur Gest á teppið

Skamm Gestur Einar, hvernig vogar þú þér að spyrja nýráðinn bæjarstjóra Akureyrar um úrvalið í fataskápnum hennar?
Veist'ekki að í dagskrárstefnu ríkisins, eins og hún birtist í skoðunum og gjörðum einstakra millistrumpa, er ekki rúm fyrir fólk eins og þig sem talar um og við annað fólk á mannlegum nótum?

Þú hefur ítrekað gerst sekur um brot af svipuðum toga og raunar sætir nokkurri furðu að þú skulir enn halda starfi þínu eins oft og þú tjáir húmaníska innrætingu þína á öldum ljósvakans.
Það eru dagskrárgerðarmenn eins og þú, sífellt geislandi hlýju og manngæsku, sem torvelda algera hugsanastjórnun (thought control) þá sem stefnt er að.
Í guðanna bænum reynd'að vera svolítið meira eins og allir hinir og ekki alltaf vera að skapa þér sérstöðu með einlægni þinni og alþýðlegheitum.

Ljósmynd af Gesti Einari: Finnbogi Marinósson

Tuesday, January 23, 2007

Styrkir og styrkþegar

Mentamálaráðherra hefur veitt styrki til tónlistargeirans. Útgáfa verka, kynningar á efni og fyrirhugaðir tónleikar eða ferðalög er meðal þess sem sótt var um styrki vegna.

Á heimasíðu ráðuneytisins má sjá upptalningu á þeim listamönnum sem þóknanlegir eru ríkisstjórninni að þessu sinni.


Fróðleg lesning í ljósi umræðunnar sem fram fór í netheimum á haustdögum.


En styrkþegum er óskað til hamingju með hið opinbera fé sem þeim var úthlutað.

Monday, January 22, 2007

Enn af mÁLum

Margir hafnfirðingar láta eins og umræðan um álversstækkun sé fyrst nú að fara í gang.

Svo er ekki.
Alllengi hafa menn velt þessum bolta milli sín og skeggrætt ýmsa þætti mÁLsins.

Það hefur hentað spunameisturum Álvers Álfakóngs afar vel að halda að hinn almenni bæjarbúi hafi ekki aðgang að öllum upplýsingum um mÁLið....... en þar skýtur hann sig í fótinn því allir sem eru nettengdir geta uppfrætt sig að vild......það er bara að nenna því.....

Hér er slóð á fundargerð og ef hún er lesin hægt og vandlega má læra eitt og annað af henni.

http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/fundargerd_nanar/?ec_item_9_id=96eee7e5-c10c-49b6-aa78-e892ba739778

Sérstaklega athyglisverð er bókunin um mengunarvarnir !

Thursday, January 18, 2007

Erum "við" heyrnarlaus ?

Kennari, sem kennt hefur heyrnarskertum um nokkurt skeið, kom fram í fjölmiðlum og tjáði sig um nýlegar fréttir um misnotkun heyrnarlausra barna. Þar viðurkenndi hún að lengstum framan af hafi þeir sem sáu um og báru ábyrgð á börnunum einfaldlega ekki skilið þau vegna þess að táknmálskunnátta var engin. Semsagt; þegar börnin komu til kennara sinna eða leiðbeinenda til að láta vita um hryllinginn, var enginn sem skildi hvað þau voru að reyna að tjá sig um.

Þetta er eitthvert svakalegasta dæmi sem ég hef heyrt um algeran vanmátt kerfisins.

Og enn svakalegra þykir mér að þorri almennings lætur eins og hann hafi ekki heyrt fréttirnar, lætur sig þetta engu varða.

Það er engu líkara en við séum orðin ónæm fyrir fréttum, hversu svakalegar sem þær kunna að vera.

Tuesday, January 16, 2007

Gæðunum misskipt !

Fer oft inná vedur.is, (til að tékka á veðrinu), og rekst stundum á fróðlega hluti þar. Núna t.d. (rétt fyrir miðnætti) sé ég, svo ekki verður um villst, að Akureyringar njóta sumarblíðu á meðan hér er "Frost á Fróni", og engrar smá.

Við króknum en þeir grilla.....



Hreint og ferskt !

Iceland - the unspoiled land !













Þetta fyrirbæri er eitt það fyrsta sem mætir útlendingum sem hingað koma í leit að óspjallaðri náttúru, hreinu lofti og vatni.

Svolítið tortryggilegt ský, en þessi mökkur fer víst ekki útfyrir "þynningarsvæðið" svonefnda - svo þá er allt í lagi.

Er það ekki ???

Monday, January 15, 2007

OK þá !

Það sem fólk getur pirrað sig á pirringi annarra !!

Og ég sem hélt að ég væri að standa mína plikt með því að láta vita af afbrotum, einkum þeim sem bitna á saklausum vegfarendum og hættulega veikum smábörnum.

Framvegis mun ég ætla þessum pirringi mínum stað á "afbrotavaktin.blogspot.com" svo þeir sem einhverrahluta vegna þola ekki að afbrot séu afhjúpuð hér á síðunni þurfi ekki að fara á límingunum.

Ég læt síðustu færslur varðandi umferðarsóðana þó standa örlítið lengur, og commentin sem þeim fylgja. Þeim sem vilja fylgjast með framvindu málsins og jafnvel leggja mér lið í baráttunni bendi ég á fyrrnefndu síðu.

Wednesday, January 10, 2007

Bada-bing !


Veitingastaðir í jöðrum iðnaðarhverfa? Er tilvist þeirra ein og sér ekki efni í einhverskonar samfélagsstúdíu? Matarholur sem existera fyrst og fremst til að fullnægja þörf vinnandi manna á að fóðra sig, á sem haghvæmastan og gjarnan fljótlegastan hátt, hljóta að lúta öðrum lögmálum en þær sem snúast um afþreyingu og raunveruleikaflótta viðskiptavinarins. Allavega reyndi ég að stilla mig inná einhverja slíka hugsun þegar ég gekk inn á veitingastaðinn Bada-bing í Hafnarfirði. Bada-bing?! Er verið að sítera, með nafngiftinni, í eitthvert ítalskt gangsterslang að hætti mafíunnar vestan hafs? Eða þýðir þetta í alvöru eitthvað á Thailensku? Og þá hvað?

Aðkoman er stórundarleg, ófrágengið bílastæði, risastórt skilti á húsgafli á iðnaðarhúsnæði, sem hefur reyndar hýst menningarstarfsemi um nokkurt skeið og fáir aðrir vegvísar að sjálfum staðnum. Engar merkingar á hurð og dyrnar sjálfar ekki nógu greinilegar í gluggaröðinni, maður þarf að leggjast á gægjur til að sjá hvort fletta er veitingastaðurinn eða bílaverkstæði Badda.
Stór salur, hátt til lofts, vítt til veggja og lagnir sýnilegar eins og títt er í iðnaðarhúsnæði. Engir kúnnar og staffið, kokkur í kokka-klæðum, stúlka, og illa tilhafður piltur til viðbótar, sitjandi frammi í borðsalnum með fartölvu og kaffibolla. Risastórt tjald á vegg sem á er varpað einhverri íþróttasjónvarpsstöð. Viðskiptavinurinn er eiginlega tilneyddur að spyrja; “Er opið hjá ykkur núna”? Ekki að sú spurning hafi hreyft tiltakanlega mikið við þeim þremur sem þarna sátu og slökuðu á.
Aðeins helmingur matseðilsins í boði, þessi vinstra megin á blaðinu. Hitt bara einhverjar pítsur og hamborgarar, barnamatseðill og svoleiðis “vesen”. Algjört ævintýri í mannlegum samskiptum að reyna að fá piltinn til að skilja pöntunina, sem þó var ekki ýkja flókin enda aðeins helmingur seðilsins í boði. Ekki var um að kenna ólíkum menningarlegum uppruna eða tungumálaskilningsleysi, því þetta tætingslega ungmenni var, án alls efa, af innlendu bergi brotinn.
Lítið hægt að gera annað en bíða og sjá hvað kæmi að lokum á borðið. Já einmitt – “að lokum”. þegar maður er látinn bíða eins lengi eftir matnum og við þetta kvöld er maður að vonum orðinn eftirvæntingafullur þegar hann loks skilar sér á borðið.
Og til að allrar sanngirni sé gætt er rétt að það komi skýrt fram; maturinn sem borinn var á borð bragðaðist ágætlega. Hann leit hinsvegar út eins og honum hefði verið mokað á diskana með miðlungstórri sandkassaskóflu, kúffullir diskar af hrísgrjónum á mann og svo sinn rétturinn hvor á tveimur diskum til viðbótar, ausið beint af pönnunni. En hvað var það þá sem tók allan þennan tíma? Og afhverju fylgdu engin áhöld með til að skammta matinn?

Sá sem eldar þarna kann að líkindum eitthvað til verka, maturinn bar það með sér kominn í munninn. En er nauðsynlegt að slubba þessu á diskana líkt og gert er í mötuneytum ríkisfangelsa í Amerískum bíómyndum? Hefði ekki verið jafn lítið mál að færa þetta upp þannig að þetta liti í það minnsta út eins og matur pantaður af matseðli á veitingahúsi um kvöldmatarleytið föstudaginn fyrir áramót og ætlaður 6 manna barnafjölskyldu.
Og í alvöru; hvað var með piltinn sjoppulega sem sauðaðist við afgreiðsluborðið og villti á sér þær heimildir að hann væri þarna staddur til að ganga um beina? Er feluleikurinn í aðkomunni, kuldalegt og fráhrindandi umhverfið, kjánalegar móttökurnar og helmingaður matseðillinn ekki nóg? Þarf að gulltryggja að maður kemur aldrei nokkurn tíma aftur inn á þennan stað með því að hafa enga... minna en enga, þjónustu... eða öllu heldur afgreiðslu, sem er sennilega réttara orð?

Viðmiðið hlýtur ávallt að vera það sama, hvort heldur er um að ræða veitingastað vandan að virðingu sinni, eða ræfilslega matarholu í jaðri iðnaðarhverfis. Maturinn þarf að vera í lagi, umhverfið má helst ekki vera þannig að manni líði beinlínis illa inni á staðnum og sá sem sér um afgreiðslu, milligöngumaðurinn, þarf að hafa í það minnsta gripsvit á því verki sem honum er ætlað að vinna og helst að vera hreinn, sæmilega kurteis og þokkalega til fara líka.
Breytir engu hvort staðurinn er í dýrari eða ódýrari klassa, þessir tilteknu hlutir þurfa helst að vera í lagi.
Á Bada-bing er aðeins eitt þessara atriða í þokkalegu lagi, sjálf eldamennskan, maturinn bragðast ekki illa. Allt annað, á þessum illa heppnaða matsölustað, er algerlega út í hött og gefur manni enga ástæðu til endurkomu.