Thursday, July 19, 2007

"lúserinn"

Í beinu framhaldi af pistlum mínum um löggæslumenn og virðingu og/eða virðingarleysi þeim til handa klappa ég lyklaborði nú til að fagna viðhorfsbreytingu sem birtist mér í Séð og heyrt rétt í þessu.
Ég hef látið fara í taugarnar á mér þann hroka, sem birtist í annars skemmtilegri áminningarauglýsingu um umferðarhraða, þegar lögregluþjónn er látinn segja "mér sýnist þetta vera sami lúserinn og í gær" um dreng sem í tvígang með stuttu millibili gerist sekur um of hraðan akstur. Manngreinarálitið og fordómarnir sem fólgnir eru í þessari einu litlu setningu súmmera upp nær allt sem ég hef verið að reyna að segja í pistlum mínum um það hvernig virðing hlýtur ávallt að vera áunnin en ekki sjálfgefin og ekki síst í jafn vandasömu starfi og löggæsla er. Lögreglumaður, sem vogar sér að kalla ungan pilt "lúser" fyrir það eitt að, í þroskaleysi ungs aldurs og dómgreyndarleysi þess sem enga reynslu hefur, gerast sekur um að aka of hratt, á ekki að búast við því að viðkomandi sýni honum eða búningnum sem hann ber meiri virðingu en sýnd var.
Það gladdi mig því að sjá þessa sömu teiknimyndaseríu í fyrrnefndu blaði og þar hafði "lúserinn" verið breytt í "náunginn" ! Miklu betra og auglýsingin í heild markvissari og alveg örugglega vænlegri til árangurs.

Það sem kemur mér kannski enn meira á óvart er að þessi meinta viðhorfsbreyting skuli einmitt birtast í þessu tiltekna slúðurblaði en ritsjóri þess hefur hingað til ekki verið þekktastur fyrir siðvendni eða aðgát í nærveru sálna í því sem birst hefur undir hans stjórn og ábyrgð.
Það er að segja, ef hann hefur þá nokkuð um það að segja hvaða auglýsingar birtast í blaðinu hans og hvernig þær eru útfærðar, já og nokkurn áhuga á því yfirhöfuð.

En batnandi er mönnum best að lifa, það sannast enn og aftur.

Wednesday, July 18, 2007

Mildi að mannbjörg varð...

Mikið er ég sammála því þegar óhapp verður að það er blessun þegar ekki týnist mannslíf. Eða eins og Benóný þyrluflugstjóri sagði; það er hægt að endurnýja tækin en ekki mennina. Samt fékk ég nettan aulahroll þegar dvergurinn Eyrnastór var að sýna sig í fréttum (Rúv n.b. þar sem öllum öðrum fjölmiðlum var víst meinaður aðgangur að svæðinu) að taka á móti áhöfn þyrlunnar sem hlekktist á frammi fyrir ál-verinu í Straumsvík. (Er mengunin orðin svona svakaleg þarna að mótórar drepa á sér ?). Eyrnastór tók á móti mönnunum eins og hann væri að heilsa sendinefnd og sjá mátti á svip sumra að þeim var misboðið. Steininn tók hinsvegar ekki úr fyrr en ráðherrann með völdin sagði; þið stóðuð ykkur vel og gangi ykkur allt í haginn... (eða ehv. í þá áttina).

Hann hefði kannski frekar átt að taka sér í munn fleyg orð eins vinar míns úr poppbransanum og segja. "Þetta var nú ekki alveg nógu PRÓ hjá okkur strákar mínir"!!!

En mennirnir eru lifandi og það er fyrir mestu.

Monday, July 16, 2007

Stóru húsin

Ef gerður er samanburður á hve margir stunda tónlistarnám í einhverri mynd og hve margir æfa reglubundið íþróttir á Íslandi í dag er með ólíkindum að við skulum hafa þurft að bíða áratugum saman eftir tónlistarhúsi. Íþróttahallir af stærri gerðinni spretta upp eins og gorkúlur út um allt land og það er ekkert krummaskuð svo aumt að þar sé ekki að finna risamusteri ætlað íþróttaiðkendum, með plássi fyrir áhorfendur og fréttamenn og alles. Ekki það að ég hafi svo mikið á móti íþróttum, stundaði frjálsar á mínum yngri árum samhliða tónlistinni og sé ekkert eftir því, nei miklu frekar fagna ég því mikla fjárstreymi sem hinar ýmsu íþróttagreinar njóta í dag og þykir mikið til þessara stóru húsa koma. En ég vildi gjarnan sjá tónlistinni gert eins hátt undir höfði. Sjáið fyrir ykkur fréttina;
"Í dag var tekin í notkun glæný risaíþróttahöll á Hvammstanga og stendur hún gengt hinu stórglæsilega tónlistarhúsi sem reist var í fyrra og hefur verið fullbókað síðan. Vænta menn mikils af þessu nýja 8000 manna húsi og víst er að það mun styrkja allt íþróttastarf í plássinu" !!! Nei, sennilega kemur þessi frétt aldrei í fjölmiðlum, það verður allavega lítið talað um tónlistarhúsið þó ég eigi allt eins von á að íþróttahöllin rísi einhverntíma í útnáranum. Enda eru dæmin fjölmörg um einmitt slíkar hallir sem risið hafa í plássum sem telja ekki nógu marga íbúa til að fylla þær. En ef minnst er á tónlistarhús er eins og allir fari í keng og byrji að tala útfrá peningum en ekki stolti og metnaði.
Ég leggst ekki svo lágt að bera saman það sem Eiður Smári og Björk hafa gert fyrir Ísland og íslenskt orðspor út í hinum stóra heimi en ég er viss um að það er hægt að færa rök fyrir því að stórt og gott tónlistarhús sé jafngóð fjárfesting og stórt og gott íþróttahús þegar upp er staðið.

Prófiði t.d. að setja orðið "tónlist" allsstaðar þar sem orðið "íþróttir" kemur fyrir í ræðunni góðu sem alltaf glymur þegar réttlæta á byggingu enn eins gímaldsins í einhverjum smábænum. Sparar heilmikið að geta notað sama fyrirlesturinn !

Tuesday, July 10, 2007

Zero Tolerance

Fátt ömurlegra en þegar menn lítilla sanda ryðja uppúr sér besservisserbulli um hluti sem þeir hafa lítið eða ekkert vit á og enga greind til að skilja.
Einhver Jón Kaldal, hlaupadrengur hjá Þorsteini Pálsyni, tjáir sig um Blöndóslögguna í leiðara Fréttablaðsins, aðferðir þeirra og árangur, og ber saman við zero tolerance stefnu Giuliani's fyrrum borgarstjóra New York. Heyr á endemi, hvílíkt og annað eins bull og málefnafátækt. Að ætla að fegra fasistaaðferðir sveitavargsins á Blöndósi með því að bera saman við örvæntingafulla tilraun borgarstjóra í margmilljónaborg til að stemma stigu við morðum og fíkniefnavanda og segja að þar sé saman að jafna sýnileika, ef ekki hreinlega áþreifanleika löggæslunnar og árangur Blöndóslöggunnar í hraðakstursmálum í héraðinu sé því að þakka að sýslumaðurinn þar sé með alla sína menn úti á vegunum við eftirlit. Ja hérna hr. Kaldal. Hefur þú aldrei komið uppfyrir Ártúnsbrekkuna á Fíatinum þínum ?
Bókstafstrúarofstopi Blöndóslöggunnar í umferðarmálum er ekki bara áhyggjuefni þeim sem "lent hafa í henni" heldur öllum mönnum sem virða grunnreglur lýðræðis-og réttarríkisins. Allir menn skulu jafnir fyrir lögum og teljast saklausir nema sekt verði sönnuð. Ennfremur eiga allir rétt á sanngjarnri og hlutlausri málsmeðferð. Allstaðar á Íslandi nema á Blönduósi nota bene. Þar gilda geðþóttaákvarðanir einstakra löggæslumanna og hending ræður hvort skapið er í lagi þann daginn eða ekki.
Fjölgun í liði lögregluþjóna og nálægð þeirra við borgarbúa á röltinu í höfuðborginni á ekkert sameiginlegt með ofstækismönnunum fyrir norðan annað en búninginn og starfsheitið. Zero tolerance aðferð Giuliani´s var ekki beint gegn einhverri einni tiltekinni tegund glæpa heldur glæpum yfirhöfuð. Á miklum villigötum ert þú hr. Kaldal ef þú heldur að vegafasisimi Blöndóslöggunnar hafi fækkað glæpum í héraðinu. Það eina sem þessi ofstopi hefur gert í gegnum tíðina er að þurrka burt þá litlu virðingu sem lögregla á svæðinu hafði fyrir og reyndar líka að opna glæpamönnum dyr að allskyns öðru athæfi, glæpsamlegu, sem betur hefði ekki verið. Óvíða er jafn mikið um fíkniefnavandamál, heimilisofbeldi, ofbeldi manna í millum, sifjaspell, mannorðsmorð, dýraníð og ýmsa smærri glæpi en einmitt í umdæmi hinnar dásömuðu Blöndóslöggu, enda eru þeir uppteknir við ökumannaveiðar. Jafnvel barnsrán hefur verið látið óátalið af þessum "embættismönnum". En enginn, nema fuglinn fljúgandi, skal komast í gegn hjá þeim nema á þeim hraða sem þeir ákveða. Já taktu eftir því hr. Kaldal, að hugtakið "umferðarhraði" sem þekkt er um allan hinn siðmenntaða heim, er umferðarfanatíkerunum á Blönduósi algerlega óþekkt.
Ég óska þér þess helst, Jón Kaldal, að þú þurfir einhverntíma á aðstoð lögreglunnar í Húnavatnssýslum að halda og munir upplifa sjálfur hve bagalegt það getur verið þegar þjónar almennings eru "busy" að sinna ofstæki sínu á vegum úti og ekki fáanlegir til að sinna "raunverulegum" glæpum og vandamálum. Og hættu svo endilega að bulla um hluti sem þú veist ekkert um.