Tuesday, March 28, 2006

Blönduskálinn

Blönduskálinn er farinn. Um langt árabil var blómlegur rekstur í skálanum og bæði bensín og viðurgjörningur á boðstólum. Eftir að Húnfjörð-fjölskyldan hætti með skálann hafa margir og misjafnir reynt fyrir sér þar. Engum þeirra tókst að hefja skálann til vegs og virðingar á ný og hann náði aldrei fyrra sessi sem einn af skyldustoppustöðunum á leiðinni R-vík/Akureyri. Heldur þóttu það slæm bítti að sitja uppi með bensínstöðina hinumegin árinnar því þar er aðeins opið á almennum verslunartíma og ekki frameftir um helgar. Þjónustuhlutverk svona stoppustöðva við þjóðveginn er óumdeilt. Ekki bara með tilliti til eldsneytis og matar heldur og þess öryggis sem það veitir ferðalöngum að vita af einhverju athvarfi á leiðinni, ef eitthvað skyldi bera útaf. Skemmst er að minnast þegar undirritaður missti stjórn á bílnum og þeyttist útaf þjóðvegi númer eitt á leið norður svo að lá við stórslysi. Enginn slasaðist sem betur fer en þegar fjölskyldan kom, þreytt og í sjokki eftir óhappið, á Blönduós var þar enga þjónustu að fá. Esso-stöðin lokuð, staffið farið heim að hvíla sig og Blönduskálinn hættur starfsemi. Ef ekki hefði komið til kunnugleiki á staðnum hefðum við verið í vondum málum. Nei, dreifbýlingar verða að finna hjá sjálfum sér hvöt til að halda lífi í sínum eigin byggðalögum og hætta þessu byggðarstefnu væli. Ef þjónustan er ekki betri en hún er í dag á Blönduósi, með þessa einu bensínstöð sem oftar en ekki er lokuð, þá skil ég vel að allir sem eru á ferðinni á nr. 1 hraði sér í gegnum þetta syfjulega byggðarlag og stoppi hvorki fyrir bensín né nokkuð annað. Enda búið að rífa Blönduskálann til grunna. Það er af sem áður var.

Tuesday, March 14, 2006

Þrír Frakkar

Á fyrstu hæð í íbúðarhúsi inni í miðjum Þingholtunum minnir aðkoman að Þremur Frökkum á suma þessa frægu litlu restauranta í stórborgum erlendis. En þar endar samlíkingin. Þegar inn er komið býðst gestum að setjast inn í lítið hliðarherbergi, hlýlegt og notalegt, eða út í sólskálann viðbyggða, kaldan og mötuneytislegan, auk salarins. Ég ákvað að láta þjóninn velja okkur stað og hún vísaði okkur hiklaust út í skálann, á agnarsmátt tveggja manna borð og mátti varla vera að því að hinkra á meðan við fengum okkur sæti. Svo, þegar stund var liðin án fordrykkja, kom önnur til að taka pöntun. Skrítið þetta að bjóða manni ekki strax drykk til að sötra yfir lestri. Reyndar var ekki til á barnum það sem talið var upp á seðli, hvorki fordrykkurinn sem okkur langaði í né vínið sem við völdum eftir þó nokkrar vangaveltur því seðillinn er fjölbreyttur. Sérvöldum vínum Úlfars sjálfs var lýst fyrir okkur sem annaðhvort alltof “sætum” eða alltof “súrum”, veit ekki hvort Úlfar er sammála því. Lauksúpan sem ég smakkaði fyrst þarf að hverfa strax af matseðli Þriggja Frakka, svo gjörsamlega misheppnuð sem hún var. Dökk og dimm voru orð sem komu í hugann meðan ég reyndi að krafla burtu öllu brauðinu sem hafði verið troðið ofan á í þeirri von að undir niðri leyndist næg súpa til að vera marktæk í smakkprófi. Smásletta var í botninum og laukdreggjarnar sem lágu þar í voru ofeldaðar og ansi legnar. Alls ekki nógu vandað og í raun algert klúður á stað sem hefur jafn gott orðspor og þessi. Sannarlega byrjaði þessi heimsókn ekki vel. Ég vildi fyrir alla muni prófa hvalkjöt áður en birgðir þrýtur og það býðst ekki lengur. Þrennskonar hráefni var borið á borð og auka hrúgurnar tvær voru hrár túnfiskur, ágætur, og reyktur lax sem á litla samleið með hvalkjötinu að “japönskum sið” sem ég hafði pantað. Hvalurinn sá var hreinasta sælgæti og ég undrast þá snilld að geta borið fram hrátt það sem búið er að geyma í frosti árum saman, gott ef ekki hartnær áratug, og það virkar svona ferskt. Aðalrétturinn skyldi vera fiskur í samræmi við orðsporið. Og núna vorum við að dansa. Það er fyrir þetta sem staðurinn er frægur. Við fengum alveg hreint frábærlega matreiddan karfa og skötusel, lystuga og spennandi rétti. En eins og þjónustan stuðaði okkur þá gerðu rifna kálið og forsoðnu kartöflurnar það líka. Nenna menn virkilega ekki að hafa fyrir því sem er hæglega helmingur þess réttar sem borinn er fram? Er það svo að matreiðslumönnum finnist einhver minnkun að því að skera ferskt grænmeti og útbúa sjálfir kartöflur sem hæfa matnum? Staður sem er eins umtalaður og þessi getur hvorki leyft sér að vera með kokka né framreiðslufólk sem sinnir sínu starfi með hálfum hug. Alveg er ég viss um að þegar meistarinn er sjálfur á vakt eru gestirnir ekki afgreiddir með því áhugaleysi sem við upplifðum þetta sunnudagskvöld. Breytir engu hvort fiskurinn var rétt eldaður eða ekki. Ætli maður að upplifa “the dining experience” hlýtur þjónusta, viðmót, umhverfi og stemmning að skipta jafnmiklu máli og maturinn. Sé eitthvert eitt þessara atriða ekki í lagi er upplifunin fyrir bí. Maður jafnvel sér eftir þeim peningum sem það kostar að borða á viðkomandi stað og kvöldinu sem átti að vera tilbreyting frá hversdagsleikanum. Þrír Frakkar fá tvær stjörnur fyrir hvalinn og fiskana, annað var ekki í lagi.

Þessi rýni birtist í Mannlífi apríl ´06

Monday, March 13, 2006

Gallery Fiskur

Plokkfiskur í sparifötunum getur verið fín tilbreyting en þá þarf hann einmitt að vera í “spari” fötunum. Uppsópið sem slett var á diskinn minn á fiskistaðnum Gallery Fiskur slapp varla fyrir horn þó maður tæki “spari” hugtakið burt. Lítill svartur pipar, nánast enginn laukur og fátt annað sem maður er vanur að finna í plokkfisk. En Galleríið gerir margt annað vel. Fékk ágæta Lúðu þar fyrir skemmstu, bragðgóða og smekklega fram borna en austurlensk grænmetis-og núðlusúpa sem ég smakkaði við sama tækifæri var alls ekki það, kannski nálægt því að vera “stílfærð lauksúpa með stakri núðlu”. Það verður að passa svolítið hvað hlutirnir eru nefndir, líka á svona hádegisstöðum í jaðri iðnaðarhverfa ...

Tapas Barinn

Tapas barinn er skemmtilegur. Maður veit nokk að hverju maður gengur þar og þó stelpurnar séu ekki langskólagengnar í þjónafræðum eru þær glaðlegar og aðlaðandi. Þjónustulund er meðfæddur eiginleiki sem skín í gegn hvort sem menn hafa menntun í faginu eða ekki. Og svo er næstum sama hvað maður pantar, allt er mjög gott eða gott. Snarl eða máltíð, Tapas virkar ...

Cafe Kidda Rót

Hugtakið “þjóðvegaborgari” hefur fengið nýja merkingu í borgurunum hans Kidda Rót í Hveragerði. Hvort sem menn eru á leið austur eða vestur ættu menn að gefa sér tíma og koma við hjá Kidda. “Rómantískir borgarar” var upphaflega sellið og hugmyndin var að eftir matinn væru menn svo saddir að göngutúr í fallegu umhverfi bæjarins væri eina úrræðið. Og það er ekki hægt að ganga um Hveragerði, upp með ánni og innan um allan þennan gróður án þess að finna rómantískar tilfinningar, sérstaklega ef einhver röltir með manni ...

Tónlist og kirkja

Í Hafnarfjarðarkirkju hafa starfað í gegnum tíðina margir merkir tónlistarmenn og er á engan hallað þó nöfn Friðriks Bjarnasonar tónskálds og Páls Kr. Pálssonar komi fyrst upp í hugann.
Báðir voru framsæknir frumkvöðlar í tónlist og skyldu eftir sig merkileg söfn, skrifaðar nótur og upptökur. Safn Friðriks varð grunnurinn að Friðriksdeild bókasafns Hafnarfjarðar, tónlistardeildinni, sem hefur vaxið fiskur um hrygg og er starfandi í dag í nýjum húsakynnum Bókasafnsins við Strandgötu. Nótnasafn Páls hefur enn ekki verið flokkað nema að hluta til en ljóst er að þar leynast miklar gersemar. Má nefna frumprentun af nokkrum verkum Bachs sem dæmi. Antonía Hevesi, organisti, hefur um nokkurt skeið unnið að varðveislu nótnasafnsins en mest er um að ræða óinnbundin blöð. Upptökur af organleik Páls voru á sínum tíma gefnar út á vínil og síðar endurútgefnar í stafrænu formi á geisladiskum. Þar leikur Páll á orgel Hafnarfjarðarkirkju og má glöggt heyra hvílíkur meistari er þar á ferð.
Orgelið er nú komið til ára sinna og varla svipur hjá sjón en á upptökunum hljómar það stórkostlega, hljómmikið í sterkum köflum og undurmilt í mýkri tónhendingum. Hugmyndir eru uppi um að endurbyggja hljóðfærið og nýta úr þvi allt að tuttugu raddir en bæta tíu til tólf röddum við. Þannig fengist orgel sem tæknilega svaraði kröfum samtímans en hinn eftirsóknarverði hljómblær og tónn gamla hljóðfærisins héldist að stórum hluta. Orgelið sem var í kirkjunni fram til ársins 1954 var átta radda Zackariesen hljóðfæri og var um tíma geymt í byggðasafninu. Ekki er vitað fyrir víst hvar það er niðurkomið í dag en Helgi Bragason, organisti kirkjunnar í þrettán ár frá 1984 til 1997, hefur sett fram hugmynd um að ef það fyndist væri gaman að það yrði gert upp og komið fyrir í Hásölum Strandbergs.
Kór Hafnarfjarðarkirkju hefur ávallt verið sjálfum sér og kirkjunni til sóma. Á seinni árum hefur kórinn vaxið og eflst og undanfarin tuttugu ár hefur hann tekið þátt í tónleikahaldi og tónlistarviðburðum víða um land og erlendis. Skemmst er að minnast ferðar kórsins til Ungverjalands þar sem hann söng við messu og á tónleikum. Á efniskránni voru þekkt kórlög og íslensk ættjarðarlög. Var gerður góður rómur að flutningi kórsins og vakti heimsóknin mikla athygli í þarlendum fjölmiðlum. Stórvirki kórtónbókmenntanna hafa verið æfð og flutt í Hafnarfjarðarkirkju, verk eftir Mozart, Bach, Handel og einnig íslensk tónskáld. Barnakórar hafa nú um árabil starfað við kirkjuna samhliða kirkjukórnum.
Núna stýrir Helga Loftsdóttir bæði barnakór og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju sem fór í eftirminnilega söngferð til Danmerkur á liðnu vori. Anna Magnúsdóttir leikur undir söng þessara kóra. Sigrún M. Þórsteinsdóttir stjórnar nú Kór Hafnarfjarðarkirkju með Antoníu Hevesi organista. Kórinn leikur stórt hlutverk á afmælisárinu ekki síst á jólavökunni. Í tilefni afmælisins hefur verið æfð dagskrá sem flutt verður sunnudaginn 12. desember n.k., þriðja sunnudag í aðventu og felur hún að stórum hluta í sér hafnfirsk og innlend verk svo sem hæfir á þessum tímamótum.
Hlutverk organista hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina. Áður voru orgelleikarar oft með takmarkaða menntun og í gamla daga var algengt til sveita að bóndinn færi á tveggja tíma námskeið og léki svo í messum undir söng. Í dag eru organistar margir með langt og strangt nám að baki, sumir jafnvel með doktorsgráðu í tónlist og sérmenntun í kórstjórn. Auknar kröfur eru gerðar til organistans og hann þarf að geta sinnt fjölbreyttri samtímatónlist til viðbótar við hina klassísku kirkjutónlist.
Starf organista er í eðli sínu trúarlega þjónusta. Organisti sækir sér föng í sígildan tónlistararf kirkjunnar, innlendan og erlendan en gætir einnig að hræringum og nútímastraumum sem glæða lofsöng og einlæga tilbeiðslu. Dægurlög heyrast æ oftar í kirkjunni í seinni tíð og við nánari hlustun kemur í ljós að mörg hafa þau trúarlegan undirtón. Hinar sérstöku dægurlagamessur hafa verið vinsælar hjá bæjarbúum en í þeim er hefðbundnum sálmum skipt út fyrir dægurlög. Tónlist í kirkjunni á ávallt að endurspegla helgi hennar og virðingu.

Þessi grein birtist í afmælisriti Hafnarfjarðarkirkju haustið 2005

Brú Hrútafirði

Á Brú í Hrútafirði var í nokkur ár hægt að fá íslenska kjötsúpu sem aðeins átti sinn líka í kjötsúpunni á Möðruvöllum. Á báðum þessum stöðum var skylda að stoppa og borða súpuna góðu. Nú standa Möðruvellir einir eftir sem framverðir íslensku kjötsúpunnar því bragðlausa skolvatnið með kjöt tuttlunum sem í boði er innst í Hrútafirðinum stendur ekki lengur undir þeirri sæmdarnafngift. Svo er algerlega ólíðandi að þreytulegt og pirrað afgreiðslufólkið segi við þá fjóra sem bíða í röðinni að nú sé því miður búið að loka og þeir fái því ekki afgreiðslu. Staðurinn lokar auðvitað á áður tilgreindum tíma en þeir sem þegar eru komnir inn, og búnir að velja það af matseðlinum sem þeir treysta sér í, hljóta að eiga einhvern rétt á lágmarks kurteisi. Þar fækkaði stoppustöðunum um einn og ég er nokkuð viss um að þeir sem þarna voru reknir út koma aldrei aftur inn.

Galileo

Galíleó gerir út á að vera ítalskur veitingastaður. Fátt þar inni sem minnir á Ítalíu, landið eða þjóðina. Pizzur er hægt að fá víða þó menn kalli staðina sína ekki Ítalska. Sátum á efri hæðinni og vorum einu gestirnir lengi vel framanaf. Það kom þó ekki í veg fyrir afskiptaleysi stúlknanna þriggja sem fóru frekar að raða stólum um alla hæð en að sinna okkur. Alveg finnst mér furðuleg stefna hjá veitingahúsaeigendum að vera eilíft að ætla að spara pening með því að ráða ófaglært staff til að ganga um beina. Við hefðum t.a.m. örugglega setið lengur og eytt meiri peningum ef þjónn, með fagmennsku sinni og kunnáttu, hefði látið okkur finnast við vera velkomin á þennan stað. 6 manna fjölskylda er það góður kúnni að það er ekki forsvaranlegt að fæla hana út bara af því að stelpurnar nenna ekki að vinna það verk sem þær voru ráðnar til ...

Sushi

Sushi færibandið O-sushi á efri hæð bókabúðarinnar Iðu er fyndið fyrirbæri. Réttirnir eru ferskir og bragðgóðir. Fjölbreyti- og framandleiki er yfirskriftin og allt sem ég prófaði var gott. Japönsk hefð er fyrir því að byrja svona máltíð á Mísó súpu og sú sem þarna var framborin var til sóma. Laxa-tartar var upplífgandi og kjúklinga-chilli smáréttur kom mér skemmtilega á óvart. Var reyndar dálítið hissa að sjá kjúlla þarna innanum en það virkaði. Hvala sashimi bar af nokkrum sem í boði voru og rækjur futomaki voru líka góðar. Annars er það sushíið sem er aðall staðarins og traustvekjandi að finna hve mikil virðing er borin fyrir hráefninu, besta fisk í heimi...

Ítalía

Ítalía við Laugaveg er dottin inn aftur, datt reyndar aldrei alveg út en fékk hvíld þar til búið var að stokka staffið svolítið upp. Eldhúsið hefur alltaf staðið fyrir sínu og svo var einnig nú. Chilli pasta #40 er vert prufu og pizzur eru betri eldbakaðar. Umhverfið er afar þægilegt og ekki að sjá að staðurinn hafi brunnið nánast til grunna, svo vel hefur endurreisnin tekist ...

Shalimar

Shalimar býður 3 mismunandi rétti á hádegisseðli og hægt að raða saman hvernig sem hver vill ?!? Prófaði alla réttina og var býsna sáttur. Heimilisleg og látlaus þjónusta og eigandinn sjálfur við pottana. Pilturinn sem tók pöntunina og kom síðar með matinn skildi ekki alveg hvað ég var að spyrja um en það kom ekki að sök, þetta skilaði sér á endanum. Ágætis matur fyrir sanngjarna upphæð. Fínt í hádeginu ...

Hornið

Hornið þekkja allir, en sumum gestum þykir kannski ekki þægilegt að allir þjónarnir “þekki “sig. Krakkarnir sem ganga um beina eiga það til að spjalla við hvort annað þvert yfir salinn svo maður verður óviljandi þátttakandi í þeirra samtali. Heimilislegt, kannski, en getur líka verið óþægilegt. Sérstaklega þegar talið berst að því hvað hver og einn var að aðhafast kvöldið áður. Auðvelt að laga þetta atriði. Svo sest maður ekki fram í sal með sígó í pásunni sinni. Góðar pizzur og stundum ágætir réttir dagsins ...

Búllan Hafnarfirði

Það er nú líklega að bera í bakkafullan lækinn að segja að hamborgararnir á Búllunni séu þeir bestu í bænum en ég kemst samt ekki hjá því, þeir eru frábærir. Nú hefur Búllunni fjölgað um eina og er sú í Firðinum. Þar er meira pláss og yfirbragð allt mun rólegra og afslappaðra en á Geirsgötunni og kannski þess vegna nýtur maður borgarans betur. Þarna er komið millistigið á skyndaranum og ressanum, svona eins og þekkist í útlöndum, já einmitt, þetta er svona svolítið “erlendis!!” ...

Ruby Tuesday Höfða

Ég er sammála því að gefa eigi fólki sem nennir að vinna, tækifæri, en þurfa þeir sem ætla að starfa á veitingahúsum og þar að afgreiða íslenskumælandi viðskiptavini að stærstum hluta, ekki að fá einhverja lágmarkstilsögn í tungumálinu áður en þeim er hent útí sal? Ruby Tuesday á Höfða er með þessi mál í miklum ólestri. Þar virðist enginn kunna neitt tungumál annað en sitt eigið. En það eitt og sér ætti ekki að hindra starfsfólk í að vera kurteist. Góðan dag, gjörið svo vel, verði ykkur að góðu, takk fyrir og fleiri slíkir frasar geta nefnilega virkað á fleiri tungum en Íslensku ...

Thursday, March 02, 2006

Þar sem kúnninn hefur aldrei rétt fyrir sér.

Ein er sú sjoppa hér í Hafnarfirði sem alltaf telur viðskiptavini sína ljúga. Engin leið virðist vera að eiga eðlileg, sanngjörn viðskipti við Videóleiguna Snæland í Setbergi og útilokað með öllu að fá þá, sem þar stunda rekstur, til að bera nokkra ábyrgð á vöru eða þjónustu þeirri sem þeir selja dýru verði. Öllum aðfinnslum er mætt með hroka, stælum og í versta falli uppgerðar skilningsleysi. Á annan dag jóla kom það atvik upp sem reyndist fullnaðarkornið í minn mæli. Ég hafði tekið fjóra dvd diska á leigu rétt fyrir hádegi á aðfangadag og ætlaði að leifa börnunum á heimilinu að eiga afslappað “kósí” á jóladag yfir gjöfum, nammi og heimabíói sem þau fá alltof sjaldan að hafa fyrir sig. Tveir af fjórum diskum reyndust svo illa farnir, kámugir og rispaðir, að allar tilraunir til þrifa með hefðbundnum aðferðum voru tilgangslausar. Þá var gripið til viðgerðarkrems sem reynst hefur vel á rispur, bæði á músik-, tölvu- og mynddiskum, en allt kom fyrir ekki, þessar splunkunýju myndir voru algjörlega ónothæfar og jólabíóið fyrir bí. Þegar ég gerði, við skilin, athugasemd um þetta við vaktstjórann á leigunni brást hún hin versta við og í stað þess að biðja okkur forláts og bjóða bætur sagði hún bara að þetta yrði athugað. Ég kváði og spurðu hana hvort hún væri í alvöru að efast um sannindi orða minna og hvort hún héldi að ég væri með þessar aðfinnslur að ástæðulausu. Hún ítrekaði það sem hún hafði áður sagt og bætti við að leigan bæri ekki ábyrgð á því þó myndir væru skítugar eða rispaðar. Svo sá hún ástæðu til að nefna vel upphátt, svo allir viðskiptavinir heyrðu, “það eru nú eitthvað leiðinleg jólin hjá ykkur ef þau eru ónýt útaf nokkrum rispuðum mynddiskum”. Henni var þá góðfúslega bent á að þetta snérist ekki um jólahaldið á mínu heimili, skemmtanagildi athafna þar eða innhald að neinu öðru leiti heldur viðskiptahætti verslunar- og þjónustufyrirtækis sem neitar að bera ábyrgð á vörunni sem greitt er fyrir. Svo bætti ég við að nógu fljótt væru viðskiptavinir þessarar tilteknu leigu rukkaðir um aukadaga ef ekki væri skilað strax og að ég hefði greitt slíka sekt og verið rukkaður aftur um það sama í næstu heimsókn. Ég veit um fleiri sem hafa sömu reynslu af rukkunum í þessari sjoppu og það virðist vera lenska þarna að reyna alltaf trixið “svo er skuld hérna” í þeirri von að kúnninn taki það trúanlegt og borgi. Enginn veit hvað verður um þessar auka innborganir því tölvubókhald leigunnar virðist ekki koma þar við sögu. Síðast hafði ég vit á því að biðja bankann minn um yfirlit svo ég gæti sannreynt borgunina og það kom heim og saman. Greiðsla sem innt var af hendi annan dag mánaðarins var rukkuð aftur tveimur vikum síðar. Þegar það svo bættist nú við að ég skyldi vera rengdur um misheppnað jólabíó barnanna og þau fengju ekki að velja sér mynd í staðinn var mér nóg boðið. Vídeóleigueigendur þurfa að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að skömmu síðar verður öllum rekstrargrundvelli kippt undan þeirra starfsemi. Nú þegar er boðið uppá á einskonar “pay-tv” og verð á keyptum dvd mynddiskum hefur farið lækkandi svo ekki munar nú nema fáum hundruðum á leigu og kaupum. Aðeins þeir sem vanda sig munu lifa af þessa þróun. Ég hvet viðskiptavini vídeóleigunnar Snæland í Setbergi að vera vel vakandi yfir öllum greiðslum sem inntar eru af hendi þar. Að biðja ávallt um kvittun fyrir borguninni og að fara fram á að “skuldin” verði tafarlaust afmáð úr “tölvunni” því greinilega er ekki hægt að treysta orðum unglinganna sem þarna vinna. Affarasælast væri að við öll beindum viðskiptum okkar annað því það virðast vera einu skilaboðin sem óheiðarlegir sjoppurekendur skilja; ef kúnninn hættir að koma, kassinn hættir að fyllast af greiðslum fyrir ónothæfa mynddiska og vasar afgreiðslu-unglinganna af margrukkuðum skuldum sem ekki eru færðar í bókhald. Ég tala nú ekki um ef kúnninn fer í auknu mæli fram á það að sjoppan beri einhverja ábyrgð á því sem þar er selt eða leigt. Slík frekja fer greinilega mjög í taugarnar á aðstandendum þessa fyrirtækis því sannleikanum er hver sárreiðastur. Svo mætti lögreglan gefa því gaum að þarna hanga hópar ungmenna öllum stundum, langt framyfir lögboðinn útivistartíma, án athugasemda afgreiðslufólksins sem sjálft er unglingar og sjoppan því kjörið athafnasvæði fyrir óprúttna sölumenn dauðans. Sjoppur og vídeóleigur eiga ekki að vera einhverskonar málamyndafélagsmiðstöðvar og þar eiga ekki að vera stunduð ósiðleg, óheiðarleg eða ólögleg viðskipti.