Monday, July 31, 2006

Fyrri greinaskrif

Um leið og ég þakka allar heimsóknir undanfarna sólahringa vil ég benda lesendum á að ég hef breytt uppsetningu síðunnar á þann veg að fyrri greinaskrif eru nú aðgengileg hér á forsíðu. Til að nálgast rýni allt aftur til síðustu áramóta þarf nú aðeins að "scrolla" (heitir það ekki að hruna á ísl.) niður eftir síðunni. Þar koma greinarskrifin fyrir í tímaröð, elstu neðst. Er það von mín að þetta auðveldi lesendum að finna þá rýni sem leitað er að hverju sinni.

Saturday, July 29, 2006

Þrastalundur, við þjóðveg 35

Frábært veður, sól og hiti og Þrastalundur framundan, rétt að stoppa og prófa. Enda sagði í Dagskránni á Selfossi, fimmtudaginn 12.janúar að í Hafsteinsstofu yrði opnaður, þann 4. febrúar, hágæða veitingastaður með fimmrétta matseðli. Í fréttinni stóð reyndar líka að alltaf yrði hægt að fá rétt dagsins.
Ég var svolítið hissa að sjá aðeins eitt borð setið í stórum, mjög smekklega innréttuðum, matsal og klukkan rétt hálf sjö á laugardegi. Og non-stop umferð úr og í sumarbústaði. Enginn réttur dagsins, hann er bara í hádeginu! jæja, hver var þá réttur dagsins í hádeginu? Nei, hann er bara í hádeginu á virkum dögum. Gott og vel, en er kokkur á vakt, hugsanlega sá sami og eldar hér rétt dagsins, í hádeginu, á virkum dögum? Já já hann er alltaf á vakt...(Vá, er hann ekkert orðinn þreyttur? ok, ég verð þá líklega að renna austur, í hádeginu, einhvern virkan dag, fljótlega, til að sjá hvað hann býður best þann daginn).
Matseðillinn er hefðbundinn samloku/hamborgara/kjúklingabringu/
salats/grillskála seðill og er trúlega sá sami og er í boði í sjoppunni sem mætir manni fyrst. Pöntuðum barnasamloku með skinku og osti og Púka-borgara fyrir börnin en Panini kjúklingasamloku og Þrastalundar-borgara fyrir okkur. Barna maturinn var boðlegur og kjúllalokan næstum líka þrátt fyrir fátæklegt salatið og skort á flestu sem svona samloku þarf að prýða til að hún virki. En burgerinn sem lá andvana fyrir framan mig á borðinu minnti mig á setningu sem Berti Jensen sagði einhverntíma og fræg er orðin; “hvaða æfingar eru þetta eiginlega ???”. Örþunn beljuhakksneiðin (vitað er að það er hægt að gera um 400 stóra hamborgara úr einni belju) var ofsteikt svo að hún var brennd á jöðrum og á henni ekkert nema ostsneið og einhver sinnepsjafningur á milli tveggja snjóhvítra brauðsneiða. (það eru til að mynda að meðaltali 178 sesamfræ á einu Bic-Mac hamborgarabrauði). Icebergsalat hafði verið skorið og lá það við hliðina á tilbúningnum og inní honum, í felum, undir hakkinu. Og hinumegin var hrúga af frönskum kartöflum, reyndar alveg ágætum, jú og smásletta af kokteilsósu í svona litlu plast íláti með loki eins og á skyndibitastöðunum, (minni á fréttina um hágæða veitingastaðinn). Og þessi réttur er stolt staðarins, í þvílíkum hávegum hafður að þaðan dregur hann nafn sitt, Þrastalundar-borgari!!!
Þessari tilraun var að sjálfsögðu skilað tilbaka og farið fram á að borgari sem er rétt um tvöfalt dýrari en Púkaborgarinn skilji sig frá honum með einhverju öðru en munnfylli af icebergsalati. Nýr burger steiktur, jafn þunnur, en ekki látinn brenna að þessu sinni. Salatið til hliðar nú með ferskum skornum tómötum og rauðlaukshringjum oná iceberginu. Ostsneið og jafningur þó á sínum stað en virkaði einhvernvegin allt saman dýrara á að líta sökum tómata og lauks.
Af hverju er borgarinn hér ekki matreiddur af meiri metnaði? Af hverju þarf að skila honum með kvörtunum til að fá eitthvað sem líkist hamborgara sem gæti hugsanlega gert tilkall í sæmdarheitið “borgari hússins"? (En stenst þó enganveginn þá áskorun). Það er ekki erfitt að matreiða góðan hamborgara, það er gert oft á dag, á hverjum degi, um heim allan. Mér er nær að halda að það þurfi ásetning og fyrirhöfn til að gera hann svona illa. Þrastalundar-borgarinn er ekki verður nafns síns og þennan borgara þarf að gera miklu betur til að standa undir heitinu og verðinu. Það hlýtur að vera (eða ætti í það minnsta að vera) tilgangur hvers matreiðslumanns að elda mat sem manni líður vel af, á meðan hann er snæddur og einhverja stund þar á eftir. Ég var kominn framhjá litlu kaffistofunni í Svínahrauni , langleiðina heim, en fann ennþá fúlt steikarolíu bragðið í kokinu. Maginn, sem hafði mótmælt kröftuglega alla Hellisheiðina, var búinn að játa sig sigraðan og ég fann á honum að hann myndi ekki sætta sig við aðra svona árás.
Á þessum stað, við þjóðveg 35, rétt við ármót tveggja nafntogaðra, sögufrægra fljóta, í jaðri einhvers fegursta skógarkjarrs á Íslandi á ekki að vera grillskáli af lélegustu sort. Og á ég þá við eldhúsið ekki húsnæðið, því það er aðlaðandi, búið fallegum þægilegum húsgögnum og með þá flottustu ljósaskerma sem sést hafa lengi. Nema menn hafi í alvöru ætlað að reka hér “flottasta” grilldjoint ever! Vondan mat á ekki að bjóða til sölu neinsstaðar. Prufiði hitt, Þrastalundarmenn, og ég er viss um að það verður setið á fleiri borðum en þessu eina, klukkan hálf sjö að kvöldi laugardags, helgina fyrir verslunarmannahelgi, í steikjandi sól og blíðu og stanslausri traffík.

Thursday, July 27, 2006

Henging án dóms og laga ???

Úr veitingarýni; Salt Restaurant:

Staðsetningin í þessu fornfræga húsi er frábær, miðsvæðis svo maður kemst næstum ekki hjá því að detta inn um dyrnar, innréttingar smart og modern og gluggarnir magnaðir. Svo er mannskapurinn í eldhúsinu ekki af verri endanum.
Matsalurinn er snyrtilegur og gatið á veggnum, þar sem sér inn í eldhúsið, er sniðugt og skapar stemmningu. Salurinn er tvískiptur, fremra rýmið er gengt gatinu góða og innra rýmið er meira prívat, hentar vel fyrir hópa ...
En að matnum sem er frábær.
Túnfisksteik var ein sú besta sem ég hef smakkað lengi, mun betri en á mörgu sjávarréttarhúsinu. Steikingin hárrétt og krydd og meðlæti smellpassaði saman. Steiktur saltfiskur var ævintýri og eins passaði meðlætið stórvel þar.
Salt hefur nær allt til að bera til að slá rækilega í gegn, maturinn er góður, umhverfið aðlaðandi og afar smekklegt og staðsetningin einstök.
Ég gef staðnum tvær stjörnur fyrir matinn og umhverfið og er tilbúinn að bæta tveimur við þegar þeir hreinsa til í staffinu ...


Já, ósanngirnin og ónákvæmnin ríður ekki við einteyming. Að ekki sé nú minnst á mannorðsmorðið ...

Wednesday, July 26, 2006

Fagvernd

Enginn má titla sig rafvirkja nema sá sem hefur lokið prófi í því fagi og staðist það. Heldur ekki pípari, rennismiður, flugvirki, ökukennari, vélstjóri eða beykir. (veit samt ekki alveg með beykinn). Ég má til að mynda ekki titla mig organista þrátt fyrir tæp 30 ár sem atvinnuhljóðfæraleikari og hafandi leikið á flest betri kirkjuorgel landsins. Hvernig má þá vera að hver sem ráfar um sali veitingahúsa, kemst upp með að kalla sig þjón? Framreiðsla er þriggja ára nám sem lýkur með burtfararprófi og starfsheitinu framreiðslumaður, í daglegu tali; þjónn.

Tuesday, July 25, 2006

Ja hérna

Og í blaðinu í dag; "hún á mest niðurhöluðustu mynd á netinu í dag".
"Niðurhöluðustu" ; segi og skrifa. Er þetta orð til ?

Monday, July 24, 2006

Íslenskan í dag

Fólk er farið að bæta “N” inn í íslensk orð á ólíklegustu stöðum. Menn sem borða hnetur og ólívur eru orðnir “neytendur hnetna og ólívna” samkvæmt helstu fréttastofum landsins. Menn deyja undanfarið “ af völdum byssna” og aukinn fjöldi “greiðslna” er að sliga landann, enda vita allir að greidd skuld er glatað fé. Menn sem eru “hræddir” eru væntanlega haldnir “hræðni”. Reyndar eru svo lesendur tímaritsins Séð og heyrt orðnir lesendur “Séðs og heyrðs”. Kannski er þetta eðlileg þróun; “hin nýja Íslenska”, en ekki er hún falleg ...

Við Árbakkann

Á Blönduósi, rétt við þjóðveg númer eitt, er veitingastaðurinn Við Árbakkann. Þar borðaði ég tvisvar fyrr í sumar og fékk mjög góðan mat í bæði skiptin. Samlokurnar eru eins og þær sem maður sér í teiknimyndunum, matarmiklar og á mörgum hæðum og réttir dagsins voru vel matreiddir fiskar og steikur, hvort tveggja bragðgott og lystugt. Meðlæti var sömuleiðis gott, ferskt grænmeti, góðar kartöflur og sósur. Fyrir utan ágætan mat og snoturt umhverfi er einn helsti styrkur þessa veitingahúss að eigendurnir eru sjálfir á vakt í eldhúsinu og frammi í sal, milliliðalaust samband við framreiðslufólk sem bera hag gestanna, ekki síður en hússins, fyrir brjósti ...

Sunday, July 16, 2006

Salt Restaurant

Ég hef mikið velt fyrir mér hvers vegna veitingastaðurinn Salt, á fyrstu hæð Radison SAS 1919, hefur ekki slegið í gegn. Staðsetningin í þessu fornfræga húsi er frábær, miðsvæðis svo maður kemst næstum ekki hjá því að detta inn um dyrnar, innréttingar smart og modern og gluggarnir magnaðir. Svo er mannskapurinn í eldhúsinu ekki af verri endanum. En hvað er að klikka? Ég sló til þó áliðið væri kvölds, stúlkan sagði glaðlega að eldhúsið lokaði ekki fyrr en kl.10 og við værum velkomin, en bara ef við ætluðum ekki í þríréttað!?! Okkur var vísað inná bar og þar stóðum við í reiðileysi í smástund því okkur var hvorki boðið sæti né fordrykkur. Öll borð virtust vera frátekin og þau voru það enn þegar við fórum heim um miðnættið. Ef til vill er þarna komin hluti af skýringunni, það á að taka frá svo mikið pláss fyrir “djettsettið” að staðurinn stendur hálftómur lungann úr kvöldinu og svo mætir það bara eftir hentugleikum. Matsalurinn er snyrtilegur og gatið á veggnum, þar sem sér inn í eldhúsið, er sniðugt og skapar stemmningu. Salurinn er tvískiptur, fremra rýmið er gengt gatinu góða og innra rýmið er meira prívat, hentar vel fyrir hópa, við vorum sett á pínulítið borð í gangveginum. Hin borðin hafa eflaust verið frátekin. Þjóninum sáum við bregða fyrir alloft þessa stund sem við vorum þarna, en hann hafði öðrum hnöppum að hneppa en sinna okkur. Stúlkan sem fékk það hlutverk var veitingastaðnum tæplega til sóma. Nógu var hún samt vingjarnleg en þegar hún fór að segja okkur að það væri nú ekki svo fátt á staðnum núna miðað við þá tvo gesti sem mættu helgina á undan þótti okkur hún vera komin á hálan ís. Svo beit hún höfuðið af skömminni þegar hún fór að tjá sig um veitingahúsarýni sem nýlega birtist í virtu tímariti, “sá tók okkur sko aldeilis í rassg... “ Við vorum rétt að byrja að borða og þetta var myndin sem hún kaus að planta í huga okkar í upphafi máltíðarinnar. Ekki beint til að auka lystina eða gera staðinn aðlaðandi í okkar augum. Þarna hygg ég að kominn sé helsta ástæða þess að Salt er ekki vinsælasti staðurinn í bænum, þjónustan er fyrir neðan allar hellur og á köflum svo að jaðrar við að vera fáránleg. Það kærir sig enginn um að fara á veitingastað, borga fullt verð fyrir og vera afgreiddur af viðvaning. Sérstaklega ekki ef lærður þjónn er á þönum um salinn allt kvöldið “busy doing nothing” að undirbúa morgundaginn og sjálfsagt fyrir einhverja merkilegri gesti. En að matnum sem er frábær. Við smökkuðum reyndar bara aðalrétt því kjáninn hafði bannað okkur að panta margréttað, af því klukkuna vantaði korter í tíu. Túnfisksteik var ein sú besta sem ég hef smakkað lengi, mun betri en á mörgu sjávarréttarhúsinu. Steikingin hárrétt og krydd og meðlæti smellpassaði saman. Steiktur saltfiskur var ævintýri og eins passaði meðlætið stórvel þar. Þessir tveir réttir hefðu verið næg ástæða fyrir annarri heimsókn en afar vond þjónusta eyðilagði þá hugmynd gjörsamlega. Það er dapurleg niðurstaða ef upplifun af veitingastað litast svo af því sem illa er gert að það sem virkilega er vandað fer forgörðum. Útilokað er fyrir mig að meta að fullu verðlag staðarins þar sem ég fékk ekki að panta nema þessa tvo aðalrétti en miðað við vonbrigðin af heimsókninni í heild þá var þetta dýru verði keypt. Eins og víða annarstaðar, er álagning á vín hér einnig í talsverðu óhófi. Miðlungi gott vín sem kostar 1.600 krónur í Ríkinu er selt á 5.620 krónur og skyldi engan undra að maður vilji fá lágmarks þjónustu fyrir rúmlega þrefalt verð.
Salt hefur nær allt til að bera til að slá rækilega í gegn, maturinn er góður, umhverfið aðlaðandi og afar smekklegt og staðsetningin einstök. Þjónustan er þeirra Akkilesarhæll og nú er tímabært að veitingahúsaeigendur hætti þessum asnaskap í mannaráðningum. Menntaðir þjónar eru kannski ögn dýrari á fóðrum en það hlýtur að skila sér, þegar upp er staðið, í hagnaði, sérstaklega ef viðskiptavinirnir eru hættir að sækja staðina vegna einhverra krakka sem ekkert kunna til verka. Ég gef staðnum tvær stjörnur fyrir matinn og umhverfið og er tilbúinn að bæta tveimur við þegar þeir hreinsa til í staffinu.

Saturday, July 01, 2006

Allir voða sárir !!!

Í pistlum mínum undanfarið hafa sumir greint gremju yfir ástandi mála og óánægju mína með þjónustuþátt veitingabransans. Svo ömurlegt er ástandið víða að frábær matur nær engan veginn að bæta fyrir viðvaningsháttinn og klúðrið á meðan á máltíðinni stendur. Ekki svo að skilja að það sé ekki hægt að fara út að borða og njóta þess þrátt fyrir kunnáttuleysi og vangetu starfsmanna sem ráðnir hafa verið til að ganga um beina, nei svo er sem betur fer ekki í mörgum tilfellum en það er hundfúlt að vera látinn borga fyrir eitthvað sem maður fær svo alls ekki. Ef ég kaupi bíl og í honum á að vera tilgreindur búnaður sem greitt er fyrir sérstaklega, verður enginn hissa þegar mér gremst að finna ekki viðkomandi búnað en þegar ég er rukkaður umtalsverðar upphæðir, álagningu vegna þjónustu, og geri athugasemd vegna þess að engin þjónusta var veitt eða í sumum tilfellum, kvöldið hreinlega eyðilagt fyrir mér með hroka og fruntagangi þá er eins og ekki megi gagnrýna, allir verða voða sárir.