Saturday, January 28, 2006

Á þjóðvegi númer eitt

Skrapp í helgarfrí aðra helgina í janúar og keyrði norður í land. Þjóðvegur númer eitt er einn af mínum uppáhaldsvegum og ég nýt þess að fara hann. Ætla mér rúman tíma svo ég þurfi ekki að aka í hendingskasti og geti stoppað á völdum stöðum á leiðinni til að borða. Því miður fer þeim fækkandi stöðunum við þennan veg sem enn geta talist boðlegir og sumir eru dottnir svo út af sakramentinu að það hvarflar ekki að manni að koma þar við, ekki einu sinni í neyð. Einkagöngin undir Hvalfjörðinn gerðu út um Botnsskála og Ferstiklu og ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins einu sinni farið fjörðinn eftir að þau voru opnuð. Þá gekk ég upp með Glym, alveg uppá topp, í mestu rigningu sem ég hef upplifað og var með nesti. Það reyndi því ekki á þjóðvegasjoppuskortinn í það sinn.
En nú var semsagt ákveðið að stoppa í Borgarnesi og borða kvöldmat.
Hyrnan varð fyrir valinu því þar höfum við borðað áður. Mér er hinsvegar til efs að við munum borða þar aftur eftir þessa máltíð og móttökurnar sem okkar litla fjölskylda fékk. Þrátt fyrir fámenni í salnum virtist allt vera í stresskasti og steik innan við afgreiðsluborðið og eftir að börnin höfðu lagt fram óskir sínar vildi ég spyrja frúna hvor kjúklingurinn í hitakassanum væri réttur dagsins og hvor væri hinn grillaði af matseðlinum því alls ekki var hægt að sjá það af útliti þeirra. “Bíddu” var svarið og ég vona að maddaman hafi haldið að ég væri næsti kúnni í röðinni og ekki í fylgd með þeim sem hún var að afgreiða þá stundina. Hún virtist átta sig og eftir að kjúllavafinn var leystur fengu allir afgreiðslu. Samlokurnar sem börnin vonuðust til að fá voru hinsvegar ekkert líkar þeim snifsum sem bornar voru á borð. Frosið brauð þarf að rista til að fela upprunann og svo má gjarnan vera eitthvað á milli sneiðanna til að þær standist inntökupróf í samlokuherdeildina. Annars er bara um að ræða tvær brauðsneiðar, aðra oná hinni. Um frönsku kartöflurnar ætla ég, kurteisinnar vegna, ekki að fjölyrða en það er ekki svona flókið mál að hita feiti og dýfa einhverju í hana svo vel fari. Sá kjúllinn sem kallaður var réttur dagsins var svosem ekkert óæti en ósköp var hann óspennandi greyið og sveppasósan/súpan sem drekkti öllu öðru á diskinum kom í veg fyrir að hægt væri að mynda sér skoðun á því. Við vorum ekki södd þegar við lögðum í ferðina aftur en nokkrum þúsundköllunum léttari. Baula datt út í fyrra, með svipaða falleinkunn og Hyrnan nú, svo við fórum þar hjá án frekari tafa. Framundan var dalurinn endalausi og enginn áningarstaður fyrr en í Hrútafirði því ég hef ekki séð lífsmark í Hreðavatnsskála síðan Sálin spilaði þar síðast.
Á Brú var í nokkur ár hægt að fá íslenska kjötsúpu sem aðeins átti sinn líka í kjötsúpunni á Möðruvöllum. Á báðum þessum stöðum var skylda að stoppa og borða súpuna góðu. Nú standa Möðruvellir einir eftir sem framverðir íslensku kjötsúpunnar því bragðlausa skolvatnið með kjöt tuttlunum sem í boði er innst í Hrútafirðinum stendur ekki lengur undir þeirri sæmdarnafngift. Svo er algerlega ólíðandi að þreytulegt og pirrað afgreiðslufólkið segi við þá fjóra sem bíða í röðinni að nú sé því miður búið að loka og þeir fái því ekki afgreiðslu. Staðurinn lokar auðvitað á áður tilgreindum tíma en þeir sem þegar eru komnir inn, og búnir að velja það af matseðlinum sem þeir treysta sér í, hljóta að eiga einhvern rétt á lágmarks kurteisi. Þar fækkaði stoppustöðunum um einn og ég er nokkuð viss um að þeir sem þarna voru reknir út koma aldrei aftur inn.
Það kvöldaði og því var ákveðið að prufa Staðarskála frekar á heimleiðinni að þessu sinni.
Ég veit ekki hvort það var hungrið eða hálkan sem olli óhappinu en á krossgötum Heggstaðarnes-afleggjarans misstum við stjórn á bílnum, þeyttumst 80 metra út af þjóðveginum og vorum aðeins hársbreidd frá banaslysi ofaní skurði. Hvorugur flutningabílstjóranna sem aðilar voru að atvikinu stoppaði til að athuga með þennan bíl sem svo skyndilega hlýtur að hafa horfið þeim sjónum. Hestamenn á vígalegum Nissan Pickup gerðu það hinsvegar og þakka ég þeim hér með aftur fyrir þá hjálpsemi. Ég keyri sjálfur aldrei framhjá óhappi eða slysi nema gefa því gaum og kanna hvort hjálpar sé þörf.
Eftir þessar hremmingar hlakkaði okkur sannarlega til að komast á Blönduós og fá hressingu í hinum nýja og vel auglýsta Esso-skála, Blöndu-skálinn sem er sunnan brúar er sennilega hættur starfsemi, allavega sjaldan hreifingu þar að sjá. Esso-skálinn nýi og flotti lokar klukkan 10 á kvöldin sama hvort er virkur dagur eða helgi. Vonbrigði! Og það í bæjarfélagi sem stendur á því fastar en fótunum að eiga allt sitt undir þjónustu við gest og gangandi. Ef þetta er til marks um hina ríku þjónustulund Blönduósinga þá verð ég ekki hissa þegar þeir færa þjóðveginn upp að Svínavatni og umferð um bæinn leggst af með öllu. Þá fá Blönduósingar kannski frið til að hvíla sig, blessaðir. Fyrir nokkrum árum var enn hægt að fá að borða á hótelinu gengt bakaríinu í gamla bænum. Það, eins og svo margt annað á Blönduósi, er liðin tíð.
Helgin leið hratt og þjóðvegur númer eitt laðaði og lokkaði með sínum blindhæðum og einbreiðu brúm. Já vel á minnst, einbreiðar brýr!!! Hvað er málið með þær? Er virkilega svona dýrt og tæknilega flókið að útrýma þeim? Hafa göng gegnum hóla í afskekktum, fámennum byggðarlögum virkilega forgang framyfir fjölfarnasta þjóðveg landsins? Eða er hann útundan af því hann á sér engan héraðstalsmann á þinginu sem lobbíar fyrir hans hönd?
Staðarskáli á leiðinni heim og enginn gestur í salnum. Frábært, þá getur kokkurinn virkilega gefið sér tíma, vandað sig og náð að rétta svolítið hlut dreifbýlisins í þessari óformlegu veitingastaðakönnun helgarinnar.
Við drenginn sem þarna stóð vaktina vil ég bara segja eitt eftirá; ef það er svona svakalega leiðinlegt í vinnunni þá átt þú að fara að gera eitthvað annað við sjálfan þig, vinur, og sama gildir um stelpuna sem ráfaði um gólfið og þóttist vera að þjóna til borðs. Staðarskáli er óhreinn, óaðlaðandi og illa skipulagður subbustaður og hlandstækjan sem leggur upp stigann úr kjallaranum, er það fyrsta sem tekur á móti manni við innganginn. Þarna vinna krakkar sem hafa engan áhuga á neinu sem viðkemur matseld eða þjónustu. Maturinn á þessum stað er virkilega vondur, jafnvel allt að því ógeðslegur og salurinn sem manni er ætlað að sitja í á meðan maður reynir að blekkja ofan í sig viðbjóðinn hefur ekki verið ryksugaður eða þrifinn með öðrum hætti síðan áður en “number one” var lagður bundnu slitlagi. Ætli skyldustopp langferðabíla nái ekki að halda ósmekklegheitunum á lífi enn um sinn en aðrir ferðamenn, sérstaklega þeir svöngu, ættu að hraða sér framhjá.
Á heildina litið er metnaðarleysi og fákeppni það sem einkennir matarholurnar við þjóðveg númer eitt, vesturlandsveg. Engu skiptir í mínum huga hvaða árstími er þegar þjónusta og matur er annarsvegar, ég borga sama uppsprengda verðið í janúar og júlí og geri kröfu um sömu gæði að vetri og sumri. Ef menn ætla hinsvegar að lifa á því að blekkja fávísa túrista á sumrin og segja svo við landsmenn að þeir geti étið það sem úti frýs hina níu mánuðina mega þeir mín vegna fara á hausinn. Ég mun framvegis smyrja mér nesti til að taka með í ferðina þegar ég ek þennan tiltekna hluta míns ástsæla þjóðvegar númer eitt.

Rossopomodoro

Fyrstu kynni gera oft út um frekara samband og því ber að vanda sig þegar maður hittir ókunnuga eða ef maður er ókunnugur sjálfur. Þegar við komum inn á Rossopomodoro við Laugaveg renndum við blint í sjóinn, vissum bara að hér var ítalskt veitingahús og að þetta var í húsinu sem brann. Einstaklega vel hefur tekist til með lagfæringu á rýminu og salurinn er bjartur og aðlaðandi. Snaggaralegur töffari (með mynd af bílnum í vasanum?) fylgdi okkur innst í salinn og benti svo á stað, þremur borðum frá; “er þetta ekki fínt”, beið ekki á meðan við settumst og bauð okkur ekki fordrykk. Sá yrti ekki á okkur aftur þetta kvöld. Við færðum okkur skömmu síðar því þó staðurinn væri tómur var óþægilegur erill þarna innst, af starfsfólki sem greinilega var búið með vaktina sína og var að taka á móti vinum og ættingum. Þegar stelpan kom svo loks til að sinna okkur voru liðnar um tuttugu mínutur frá því við komum inn og fordrykkurinn því ekki lengur á dagskrá, best að vinda sér beint í matinn. Hún vissi lítið sem ekkert um réttina á seðlinum og forrétturinn, sem var að hennar sögn djúpsteiktir ostar, reyndist vera djúpsteikt pizzadeig af ýmsum sortum. Reyndar fann ég svo mozzarellastangir þarna innanum en þær voru alveg eins og þessar sem maður kaupir í Nóatúni og hitar sjálfur. Tómatmaukið sem klínt var ofaná deigbollurnar var lítið krydduð púrra og megnaði ekki að gera úr þessu sæmilegan forrétt. Kokkurinn á frívaktinni stóð reyndar upp frá gestum sínum til að færa okkur Parmesan ost og til að útskýra fyrir okkur hvað það var sem við vorum að borða. Eins og vitneskjan um að bollurnar væru týpískar fyrir suður Ítalíu myndu gera þær betri í okkar munni. Hann kom reyndar aftur skömmu síðar til að taka leifarnar af borðinu því ekki voru þjónarnir að sinna okkur. Pizza Vesuvio, “eldfjall sem bragð er að”, og pasta með úrvali sjávarrétta skyldu vera aðalrétturinn. Það fyrrnefnda er hveitipönnukökusamloka með salami og osti, eingöngu, tómatarnir fjarverandi, og hið síðarnefnda er hrúga af einskonar breiðu tagliatelli með nokkrum sjávarskordýrum, tómatana fann ég ekki heldur þar. Báðir réttirnir voru bragðlausir og einstaklega óspennandi, en voru valdir í samráði við stelpuna sem lýsandi fyrir eldhúsið á staðnum. Ekki ristir það djúpt. Vinur minn sem dvaldi langdvölum á Ítalíu, m.a. í Napólí, kannast ekki við þessa matargerð sem suður-Ítalska. Vínseðilinn er sannarlega Ítalskur og Cabernet Sauvignon/Negroamaro blandan sem varð fyrir valinu er sérlega gott vín. Kaffi og “meðví” í innri sal hefði hugsanlega dottið inn ef staffið, og sá sólbekkjabrúni, hefði ekki líka verið búið að hreiðra um sig þar. Fengum að vita á leiðinni út hann væri eigandinn og fannst okkur það með ólíkindum. Umhverfi Rossopomodoro er huggulegt, maturinn ekki góður, eiginlega hvorki “fugl né fiskur” og ef þjónustan væri yfirhöfuð til staðar myndi hún hafa fengið umsögn hér.
Ég gef staðnum eina stjörnu.


Þessi rýni birtist í Mannlífi febrúar ´06

Austur India Fjelagið

Einn er sá veitingastaður sem ber höfuð og herðar yfir aðra hér í höfuðborginni. Á Austur Indía-fjelaginu við Hverfisgötu eru menn ekkert að þykjast. Þar er ekki íburðarmikil og ofhlaðin innrétting sem stelur athyglinni frá matnum. Þar er ekki hávær og pirrandi tónlist sem truflar upplifunina. Þar eru ekki ágengir og klaufalegir þjónar sem bera með sér að hafa ekki hlotið tilsögn. Nei, þar er ekkert af framantöldu sem þó prýðir svo marga klassaveitingastaði í Reykjavík. Á Austur Indía-fjelaginu er einföld, látlaus innrétting sem ber framandi menningarheimi fagurt vitni. Þar er lágstemmd seiðandi tónlist sem greinilega er ekki vestur-evrópsk. Og þar starfar besti þjónn á íslandi í dag, Manoj að nafni. Maturinn sem boðið er uppá er indverskur með stóru i-i, og það er nákvæmlega sama hvað pantað er af seðlinum. Hver einasti réttur, eins ólíkir og þeir eru, er eftirminnilegt ferðalag um bragðlaukaheima.
Þeir sem koma í fyrsta sinn á þennan stað ættu ef til vill að láta Manoj velja fyrir sig, eftir samtal, hann er naskur á þarfir og væntingar og vill ráðleggja fólki til að heimsóknin heppnist sem best. Hægt er að fá matinn kryddaðan eftir smekk, frá “mild “og til “ a la cusine” sem er þó ekki nema fyrir innvígða með reynslu af sterkum mat. En ekki er allt fengið með því að hafa matinn of sterkan. Fyrir allmörgum árum síðan varð ég vitni að því er Íslendingur með gorgeir ætlaði að gera sig breiðan á indverskum veitingastað í London. Hann pantaði Vindaloo og heimtaði að það yrði ekki einhver túrista afgreiðsla á þeirri matseld. Hann var svo borinn út af sjúkraliðum, blóðugur um kjaftinn bæð’og trýn og ég held hann hafi skammast sín...
Kryddin á Austur Indía-fjelaginu eru látin spila saman í karríhljómsveitinni. Það getur verið milt kammerverk fyrir smærri hljómsveit eða kraftmikil hetjusinfónía fyrir stórsveit sem borin er fram á sjóðheitu, snarkandi laukbeði beint úr Tandoori ofninum. Kjúklingur, lamb og svín er hráefnið í grunninn, nautakjötið víðs fjarri af eðlilegum ástæðum, en svo eru líka grænmetisréttir fyrir þá sem ekki vilja kjöt. Eingöngu eru notaðar kjúklingabringur, nema í Tandoori kjúllann sem er að venju borinn fram hálfur með beinunum, og lambið er ávallt fillet. Meðlæti er valið af hverjum og einum en þó fylgja öllum réttunum hvít grjón. Nan-brauð er hægt að fá “plain”, með hvítlauk, kókos, koriander eða masala kulcha sem er næstum eins og lítil pizza með smjöri og lauk. Brauðið og Raita jógúrtsósan er nauðsynlegt með þessum mat. Svo er úrval chutney sulta, sæt mangó sulta fer t.d.vel með mörgum réttanna og coriander chutney á vel við lambið. Matseðlinum var nýlega breytt, einstaka réttir af gamla seðlinum hafa vikið og aðrir komið í staðinn. Vinsælustu réttirnir sem hafa skapað húsinu nafn eru þó enn á sínum stað, ástæðulaust að breyta því sem virkar, og nýir spennandi réttir virka freistandi. Við fengum að prufa kjúkling lababdar og lamb kalimirch og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Reyndar hefur það aldrei gerst á þessum stað. Austur India-fjelagið er ekki óhóflega dýr staður, tveir réttir með meðlæti og bjór kosta 10 til 12.000. Maturinn, umhverfið og þjónustan er með því besta sem í boði er á Íslandi í dag og þó víðar væri leitað. Á Austur Indía-fjelagið fer ég aftur, og aftur, og aftur.

Þessi rýni birtist í Mannlífi janúar ´06

Lækjarbrekka

Einu sinni var....
Ævintýri byrja oft á “einu sinni var...”. Einhver hluti ævintýrsins “einu sinni var veitingahús sem hét Lækjarbrekka” hefur endað og erfitt að átta sig á hvað lifir eftir. Matreiðslumenn virðast allavega hafa snúið baki við þessum skáldskap því enginn lærður kokkur myndi voga sér að senda fram það sem borið var á borð fyrir okkur kvöldið sem við kíktum á Lækjarbrekku. Ekki er óþægilegt að ganga inn á staðinn, dálítið gamaldags en afslappað andrúm og svolítið ömmulegt. Og móttökur hlýlegar. Matseðillinn sem var lesinn á efri hæðinni þar sem er smá afdrep, leit vel út. Þó er áberandi hve mjög allt virðist gírað inná túrista. Og verðlagningin eftir því. Allstaðar eru styttur og myndir frá fyrri tíð, allt í takt nema Marylin Monroe-lampinn sem var eins og álfur út úr hól. Forréttir eru ýmiskonar og úrval af fjórum þótti freistandi. Þar til þeir voru smakkaðir. Ef þetta átti að vera einhver lókal brandari þá fullvissa ég aðstandendur veitingahússins um að mér þótti hann ekki fyndinn. Þetta var svosem ekki ólaglegt á að líta en það var alveg sama hvað maður setti upp í sig, það var sama ullarbragðið af öllu, nema humarsúpunni, sem borin var fram í litlu staupi, hún slapp fyrir horn. Restin, og þar með talin staka risarækjan stóðst ekki væntingar og greinilegt að frystirinn er besti vinur kokkanna á Lækjarbrekku. Aðalrétturinn var framundan og ekki ástæða til að örvænta svo snemma kvölds. En drottinn minn dýri, hvað fer eiginlega fram í eldhúsinu? Þegar beðið er um medium rare nautasteik, er ekki sanngjarnt að lufsan sem felur sig undir piparþrennunni sé svo grásteikt að gangstéttarhella lítur betur út. Og hvað var þetta með eina; “eina”, forsoðna kartöflu sem dansaði sóló við hliðina á ekki fersku, teningsskornu, beint úr frosti, grænmetinu sem var að leika meðlæti? Og svo átti að gera gott úr öllu saman með því að segjast ætla að skamma kokkinn. Ekki beint það sem verið var að kaupa. Lambakjöt og humar saman í kór, er kallað “Fjall og flói”, rammíslenskt nafn, og lambakjötið var sannarlega “rammíslenskt”. En ekki veit ég hvar og hvenær þeir létu lífið, humrarnir tveir sem fylgdu með, þeir voru í það minnsta ekki ferskir.
Eftir þessar hörmungar langaði okkur að yfirgefa staðinn en kurteis þjónn bauð okkur að setjast upp og þiggja eftirrétt í boði hússins. Og loksins tóks að gera eitthvað vel. Ís með kanil og volgar plómur var góð samsetning og hindberja og Tonka pot-de-créme (??) með vanillukexi var sömuleiðis gott. Réttirnir sem í boði eru á matseðlinum heita flottum nöfnum þar sem slegið er um sig á útlensku. Á ágætri heimasíðu veitingahússins má sjá myndir af sumum þessara rétta, en hafa ber í huga, að þú færð ekki endilega það sem sést á myndinni. Maturinn þetta kvöld var ekki boðlegur og engan vegin í samræmi við verðið sem er vel í hærri kantinum. Þjónarnir voru allir af vilja gerðir og vel meinandi en það dugar ekki til ef eldhúsið er komið framyfir síðasta söludag. Kannski ef þjónarnir væru klæddir upp í þjóðbúninga, peysuföt og sauðskinnskó, myndi þessi túrista fílingur skila sér betur og þá væri hægt að keyra ævintýrið eitthvað áfram. Stjörnugjöfin miðast við að ekkert veitingahús fá enga stjörnu. Lækjarbrekka fær eina stjörnu fyrir leikmynd og leikmuni og fyrir grafna lambið sem ég smakkaði á jólahlaðborðinu í fyrra.

Þessi rýni birtist í Mannlífi desember ´05

Argentína Steikhús

Það var með nokkrum kvíða að ég ákvað að Argentína Steikhús yrði fyrsta veitingahúsið sem ég gagnrýni í þessum nýja dálki sem nú er hleypt af stokkunum. Ég verð að rifja upp í stuttu máli hryllinginn sem var í gangi í síðustu heimsókn minni á þennan stað og óhjákvæmilega bera hann saman við þessa heimsókn. Þá var ég varaður við í anddyrinu, að von væri á stórum hópum fólks en hefði mig grunað hvað í vændum var hefði ég snarlega hætt við. Dauðadrukkið fólk með háreysti og tillitsleysi er ekki forskriftin að rómantísku kvöldi út að borða. Svo varð ég að þola það að fyrri þjónninn móðgaðist þegar ég bað hann að láta ekki líða fullan hálftíma á milli þessa sem hann sinnti mér og sást hann ekki meir það kvöld. Sá síðari sagði tæpitungulaust “ég má ekki vera að þessu, ég verð að drífa mig” þegar ég vildi panta vín. Þannig gekk þetta fyrir sig, ég bíðandi eftir að einhver sæi ástæðu til að sinna mér og svo við hjónin kallandi á hvert annað yfir borðið að reyna að heyra okkar eigið samtal fyrir fylliríissöngli og hrópum í árshátíðarhópunum sem voru greinilega ekki komnir á staðinn til að njóta matar og þjónustu.
Ég var því við öllu búinn. Og ekki byrjaði það vel, við stóðum dágóða stund í anddyrinu áður en nokkur kom til að taka á móti okkur. Salurinn var stappaður og augnablik þyrmdi yfir mig, var þetta þá alltaf svona hér á Argentínu, stórir hópar fólks afgreiddir á færibandi eins og í meðalmötuneyti í frystihúsi út á landi og skjótfenginn gróði tekinn framyfir orðstí eins virtasta veitingahúss borgarinnar. Ótti minn var ástæðulaus því í salnum voru útlendingar sem, ólíkt Íslendingum, geta farið margir saman út að borða án þess að það sé endilega ávísun á hörmungar. Vissulega heyrðist í þessu fólki en það voru ánægjuraddir og gleðin skein úr andlitum. Ég andaði léttar. Þjónninn sem tók á móti okkur kunni sitt fag og það átti eftir að sýna sig þegar leið á kvöldið að þar var á ferðinni einhver albesti þjónn sem við höfum fengið. Hann var alltaf tiltækur en aldrei áberandi, tilbúinn að ráðleggja glaður í bragði en blandaði sér aldrei í samtöl, var augljóslega skólagenginn og hafði metnað, þvílíkur munur. Á undan forréttunum kom hann með nautakarpachio í boði hússins, svona smá apperative, smart. Þrír forréttir voru smakkaðir, allir góðir, humarsúpan flauelismjúk og risarækjur á spjóti stinnar og alls ekki ofeldaðar. Parmaskinka með mozzarellaosti var sérlega vel heppnuð á nýbökuðum brauðbotni. Tónnin lagður strax mjög ákveðið af meisturunum í eldhúsinu, þar sem hjarta veitingahússins slær. Með þessu var drukkið hvítvín frá Chile, Torres Santa Digna Sauvignon Blanc, milt og bragðgott. Að sjálfsögðu var nautasteik aðalrétturinn. Ólíkur smekkur ákvarðaði steikinguna, frá rare til medium og í nautinu eru kokkar Argentínu sannarlega á heimavelli, hárrétt og vönduð vinnubrögð. Lundin var borin fram með bakaðri kartöflu og á borðinu voru sósur hússins. Ég var langt komin með steikina þegar ég áttaði mig á því að ég hafði ekki smakkað sósurnar. Kjötið var svo meirt og safaríkt að þær voru óþarfar. Og bragðið, maður lifandi, þvílíkt sælgæti. Með þessu var drukkið rauðvín frá Montes og það var með nokkru stolti sem þjónninn kynnti flöskuna. Þessi tiltekna Cabarnet/Carmanére blanda er sérstaklega átöppuð fyrir Argentína Steikhús. Gott vín sem passar vel við nautið.
Smá pása í koníakstofu og svo súkkulaðikaka. Hún var, eins og annað sem borið var á borð þetta kvöld, frábær. Bökuð að utan en með linu súkkulaðimauki í miðju, hvar var þessi kaka þegar maður átti afmælin hér forðum. Kaffi og meðví í lokin og niðurstaðan í heild; Argentína Steikhús hefur lengi verið eitt af virtustu veitingahúsum borgarinnar og ekki að ástæðulausu. Umhverfi og þjónusta með ágætum og maturinn algjört ævintýr. Vínlistinn áhugaverður og úrvalið af vindlum og koníaki til fyrirmyndar. Verðið er í hærri kantinum. Þess vegna gerir maður þá kröfu að hlutirnir séu alltaf í lagi, líka þegar hópar drukkinna Íslendinga ríða húsum og lemja hælum. En þetta kvöld var einstaklega vel heppnað og mun, þegar frá líður, geymast í minningunni löngu eftir að hið fyrra verður gleymt.

Þessi rýni birtist í Mannlífi nóvember ´05