Thursday, June 05, 2008

Jörðin skelfur - meir og meir




Árið 1961 mældist enginn jarðskjálfti nokkurstaðar á plánetunni yfir 5 stig á Richter, ekki einn einasti. Árið 1979 varð 1 slíkur jarðskjálfti.

Frá því á sunnudaginn síðasta, 1. júní 2008, og til dagsins þegar þessar línur eru skrifaðar hafa orðið 35 jarðskjálftar víðsvegar um veröldina sem mældust frá 5 og uppí 6,8 stig á Richter.

Á heilli öld, frá aldamótum 18-1900 og til ársins 1999 urðu 295 stórskjálftar í heiminum. Frá árinu 2000 til dagsins í dag hafa orðið 315 slíkir skjálftar. 12 á einum sólarhring síðastliðinn sunnudag.

Hvað er að gerast ?

Tuesday, June 03, 2008

Ísbjarnarblús !


Æ hvað við getum stundum verið lítilla sanda og sæva. Ég var barn þegar ísbjörn var síðast drepinn á Íslandi og það þóttu slík tíðindi að meir að segja áramótaskaupið var með skets um drápið; "Er'ann dauður ??? já ég held það.... nei annars ...hann er ekki dauður !!!" einhverjir muna kannski eftir þessu innslagi. Þá var mál manna að drepa þurfti dýrið vegna þess að enginn kunni að deyfa, handsama eða flytja skepnuna. En allir voru sammála um að það þyrfti að gera betur næst þegar við fengjum óboðinn gest sem þennan.

Við sóuðum tugum milljóna í skrípaleikinn kringum hið grimma rándýr Keikó og urðum aðhlátursefni umheimsins fyrir kjánaskapinn. Svo hengdu nokkrir fávísir sjóarar ísbjörn sem var á sundi og ekki að gera neinum neitt. Reyndar uppskáru þeir skömm fyrir þó ákæra og dómur hefði átt betur við því hvítabirnir eru friðaðir í sjó og á ís.

En ekki á landi!

Nú villist hingað björn og ranglar um svangur og ráðalaus því hann þekkir hvorki umhverfið né lyktina. Hann sér hóp manna, sem örugglega hafa ekki farið hljótt, og það blikka ljós á löggubílum og hvaðeina. Dýrið verður hrætt en hungrið verður hræðslunni yfirsterkari, hann rennir í átt að mönnunum sem bíða ekki boðanna og drepa hann án tafar með stimpil og undirskrift frá konunni sem vermir stólinn í umhverfisráðuneytinu um þessar mundir.

Og svo er mál manna að þetta hafi verið nauðsynlegt þar sem engin deyfilyf séu til og engin þekking til að bregðast við aðstæðum sem þessum. En allir eru sammála um að næst þurfi að gera betur.

Stundum getum við verið svo óendanlega miklir asnar að það er ekki einu sinni hlægilegt.

Það er svo efni í annan pistil hvernig fjölmiðlum tekst iðullega að klæmast á Íslenskunni.



Ég taldi sex villur í þessari stuttu frásögn, prófið sjálf..