Tuesday, October 31, 2006

Vegna fréttar í Fréttablaðinu

Umræðan um brottrekstur minn frá Rás 2 þyrfti að snúast um annað en mína persónu og einhvern slappan, súran brandara sem mislukkaðist í lok þáttar okkar Magnúsar Einarssonar.

Skoða þarf málið í heild og í hinu stóra samhengi allra hluta.

Það, að þessi tiltekni þáttur verður ekki á dagskrá í vetur í því formi sem við M. hefðum kosið er ekki upphaf og endir alls. Maður kemur í manns stað og eflaust verður úr hin ágætasta dagskrá.

Ekki koma allir dagar í einu og vonandi eigum við félagarnir eftir að stýra einhverjum öðrum þætti saman, þó síðar verði.

Og svo er líka hægt að skoða málið með þessum gleraugum: http://www.baggalutur.is

Sunday, October 29, 2006

Bara eitt enn

Fólk fer að halda að ég hafi ekkert annað að gera en að hanga inná youtube, en svo er ekki.

Ég má hinsvegar til með að deila einu myndskeiði enn með ykkur, ef þið hafið þá ekki þegar séð það.

Slóðin er:http://www.youtube.com/watch?v=1kbU8L041r8&NR

Glöggt er gests augað....

Takið ykkur 5 - og skoðið .

Goootttt !!!!

Friday, October 27, 2006

Trúðurinn

Og fyrst við erum farin að skoða Gáfumannfélagið í Washington þá er hér smá vísbending: http://youtube.com/watch?v=NmX23l0ouo8

Ég minni á link hér á síðunni undir " George W. Bush talinn niður". Við skulum ekki horfa fram hjá þeirri staðreynd að mikið tjón getur enn hlotist af þessum trúð, þá daga sem hann hengslast enn í valdamesta embætti veraldar.

Árásir á Fox

Drulluháleistinn Rush Limbaugh rakkaði nýlega niður Michael J. Fox vegna þáttöku þess síðarnefnda í kynningarauglýsingu fyrir þingmann frá Missoura. Rush tekur stórt upp í sig og ásakar Fox um að hafa hætt á lyfjum þeim sem hann þarf að taka vegna Parkonsson veikinnar sem herjar á hann eða hreinlega að vera að leika og gera sér upp einkenni. Margt rætið og ljótt hefur hyskið hans Bush látið frá sér í gegnum tíðina en þessi drullusokkur Rush Limbaugh tekur skítapakkið í Washington niður á alveg nýjar lægðir. Að voga sér að níða persónulega, mann sem allir vita að er fársjúkur og gengur það eitt til að vilja rannsóknir sem gætu leitt til lækningar, er Ad Hominem aðferðin sem Kristilega hægra hyskið beitir gjarnan þegar koma þarf óorði á eitthvert málefni. "Kúkum á manninn þá er von til þess að almenningur gleymi málstaðnum". Kannast einhver við þessa strategíu úr pólitíkinni hér ?

Ég kvet ykkur til að kynna ykkur málið t.d. með því að fara á:
http://youtube.com/watch?v=a9WB_PXjTBo og einnig http://www.youtube.com/watch?v=7dn9odS3efE&NR og mynda ykkur svo ykkar eigin skoðun á skítakarakterum eins og Rush Limbaugh og því pakki sem heldur um strengina sem hann dansar í.

Sunday, October 15, 2006

Mér er misboðið


Margt er það sem fer í taugarnar á mér og misbýður réttlætiskennd minni og sumt svo gróflega að ég finn mig knúinn til að segja frá því.

Álagning smásala á hinar ýmsu vörutegundir er oft með ólíkindum og hafa margir tjáð sig um hana í ræðu og riti undanfarið, sérstaklega í ljósi kosningarbrellu saumaklúbbsins í stjórnarráðinu með virðisaukann. En enginn hefur enn sagt orð um þá hrikalegu staðreynd að ef maður kaupir sér vínflösku með mat á veitingahúsi getur maður hæglega gert ráð fyrir 200% álagningu á það verð sem viðkomandi vín kostar í ríkinu og er þá búið að smyrja vel á innkaupsverðið. Vínflaska (í þessu dæmi Malbec frá Argentínu) kostar kr.1,390 í einokunarsjoppunni en er seld á kr.4,190 á ágætu veitingahúsi í Reykjavík. Lái mér hver sem vill að ég sé fúll yfir þessu en þarna er um þreföldun á verðinu (1390 x 3 = 4170) að ræða. Hvaða monkey business er þetta ?

Ég er ekkert að hafa á móti því að menn fái eitthvað fyrir snúð sinn, að veitingamenn sjái gróða af starfseminni, en þreföldun á verði vínflösku kallar á einhverjar útskýringar. Hvert fara þessir peningar, þ.e.a.s. eftir að "eðlileg" álagning veitingamannsins hefur verið dregin frá ? Er það virkilega svo að mönnum finnist þeir ekki "græða" neitt á þessu nema þeir nái inn tvöföldum útlögðum kostnaði á hverri einustu sölu ?

Ef ekki eru til á þessu okri einhverjar skýringar, sem hægt er að kyngja sem eðlilegum, skora ég hér með á veitingamenn að lækka verð á vínum þeim sem þeir bjóða til sölu í sínum húsum. Það skilar sér örugglega fljótt í aukinni traffík á staðina þeirra og aukinni sölu, sem aftur þýðir meiri veltu og betri afkomu fyrir viðkomandi. Og betri þjónustu fyrir viðskiptavininn þannig að allir "græða".

Og er það ekki markmið í sjálfu sér ?

Friday, October 13, 2006

DV

Úbbs! Var ekki búinn að lesa hið ástsæla DV þegar ég reit pistilinn hér að neðan. Fullt af jákvæðni og bjartsýni þar að vanda.

Ákvarðanataka !

Kolbrún Bergþórs skrifar ágætan pistil í það annars slaka blað, Blaðið, í dag. Enn falla vígin og nú er það sjálfur Háskólinn sem gerist sekur um ambögur. Nú taka menn ekki lengur ákvarðanir heldur gera ákvarðanatökur eftir ákvarðanatökuferlum með teknu tilliti til ákvarðanatökugildra, eins og Kolbrún hefur eftir vini sínum. Síðan skammar hún skólann og fjölmiðla fyrir að halda ekki vöku sinni og standa vörð um tunguna.
Íslenskan er fallegasta og merkilegasta tungumál veraldar og það er þjóðinni sem talar og skrifar þetta stórbrotna samskiptatæki til minnkunar að hún skuli ekki ala á væntumþykju og virðingu í garð þess sem framar öllu gerir okkur að þjóð.
Ég fagna skrifum Kolbrúnar, Davíðs Þórs og allra þeirra sem láta sig íslenskuna einhverju varða og trúi því staðfastlega að á meðan til er fólk sem elskar málið mun það ekki verða tískustraumum og hentistefnu að bráð.

Og það hlýtur að vera fleira í fréttum en nauðganir, nýbúavandi, vopnaskak og milljarðagróði jakkafatafyrirbura. Gerist í alvöru ekkert jákvætt og uppbyggjandi lengur eða þykir það bara ekki athyglisvert.
Er það öldrunareinkenni að láta neikvæðni og niðurrif fara í taugarnar á sér ?

Wednesday, October 04, 2006

Það og því - þessi og þessum

Maður sem klæddur er köflóttu vesti og situr við borð að spá í spil er sannarlega að spá "í því", þ.e. vestinu. Hann er hinsvegar að spá "í það" sem blasir við í spilunum.
Þegar krakkarnir segja "ég er að spá í því" eru þau í flestum tilfellum að meina "ég er að spá í það". Maður nefnilega spáir í "það" en pælir í "því". Megas sagði: "spáðu i MIG þá mun ég spá í ÞIG". Hann sagði ekki. "spáðu í MÉR þá mun ég spá í ÞÉR" !!!

Látum ekki "þróun" verða "hnignun". Vöndum okkur þegar við tölum fallegasta tungumál veraldar.
Ég var svona bara að spá í "ÞESSI" mál.

Gúrka

Misjafnt fréttamat fjölmiðla birtist okkur stundum í líki gúrkunnar frægu. Þó ýmislegt hafi átt sér stað undanfarna daga sem full ástæða er til að segja frá, getur fréttanef viðkomandi miðils verið svo stíflað af kvefi að engin fréttaþefur finnist. Þannig hefur Blaðið birst mér nú um nokkurt skeið.

Blogg er, eðli málsins samkvæmt, vettvangur hugsana viðkomandi bloggara. Þar geta menn skrifað sig frá áleitnum þönkum og komið skoðunum sínum á framfæri án ritskoðunar. Margir blogga um sitt daglega líf, einskonar dagbókarfærslur "svo kom Binna til mín og hún og Gummi eru að spá í að hætta saman ....o.s.fr.". En svo eru sumir sem nota þetta fyrirbæri sem gagnabanka fyrir greinaskrif. Í þeim hópi er Davíð Þór sem, eftir talsverðan þrýsting frá velvildarmönnum, setti loks upp bloggsvæði. Þar birtir hann greinar sínar allar á einum stað og skráir að auki hugsanir um lífið og tilveruna eftir föngum. Blogg Davíðs er nú orðið eins árs og ber að fagna því.

Blaðið í dag gerir hinsvegar blogg Sigmars Kastljóssmanns að frétt og engri smá. Sigmar mun hafa keypt sér reiðhjól og forláta hjálm og greindi hann frá því, í dagbókarstíl, á bloggsvæði sínu. Einhver blýantsnagarinn á Blaðinu hélt að hér væri stórskúbb á ferðinni og er lögð rúm hálf síða undir þessa frétt á bls. 28 og þessi merkisatburður í sögu lands og þjóðar ítrekaður í grein á bls. 38, þar sem venjulega er umfjöllun um dagskrá sjónvarpanna.

Sigmar er mætur maður og blogg hans eru skemmtileg, þó í dagbókarstíl séu. En er ekki full lítið við að vera hjá blaðamönnum Blaðsins ef stór hluti þess er lagður undir frásögn af hjálmakaupum sjónvarpsmannsins, sem þegar hefur sagt öllum sínum vinum og vandamönnum frá atburðinum á þeim vettvangi sem líklegast er að áhugasamir lesi fyrst?

Ef skrifarar Blaðsins hafa svo lítið að gera að þeir geta hangið inná bloggum manna daginn út og inn er virkilega þörf á sparki í rassinn. Það er nefnilega fullt að gerast í samfélaginu sem vert er að segja frá.
Og það er ekki allt GÚRKA !

Tuesday, October 03, 2006

Batnandi mönnum...

Það sem ég get endalaust pirrað mig á fólki sem kann ekki Íslensku. Þegar á virkilega að slá um sig notar þetta fólk, sem ég læt fara svona í taugarnar á mér, málshætti og orðatiltæki. Þá fyrst tekur steininn úr.

Að segja að "batnandi mönnum sé best að lifa" er útúrsnúningur af lakasta tagi, svona Bibbu-á-Brávallagötu heilkenni. Það er nefnilega fleirum en þeim sem eru "batnandi" best að lifa.

Ég hef oft gert að umræðu hér á síðunni hve mikilvægt það sé að tungumálið okkar sé "rétt" notað, að maður segi það sem maður meinar og meini það sem maður segir. Ég hef ekkert á móti skemmtilegum slettum og undarlegum tilvísunum frekar en ég hef á móti tilraunakenndri notkun krydds í framsækinni matargerð. Og alltaf gladdi mig að eiga samtal við vin minn, Pétur heitinn Kristjánsson poppara, og njóta þeirrar sköpunargleði sem einkenndi hans málnotkun alla.

Þegar ég rekst ítrekað á setninguna "batnandi mönnum er best að lifa" fæ ég á tilfinninguna að ég hafi misst af einhverju "djóki" sem allir hinir eru að hlæja að. Hverjir eru þeir, þessir "batnandi menn"? Og er þetta þá sagt um menn frekar en um lífið sem þeir lifa? Leitt að uppgötva að maður tilheyrir ekki hópnum "batnandi menn", dálítið einsog að upplifa sig útskúfaðan og ósamþykktan. En þó maður sé ekki í söfnuði þeirra sem stöðugt er að "batna" getur maður gert ýmislegt til að auðvelda sér og samfylgdarmönnum sínum tilveruna hér á jörðinni.
Ég held það hljóti nefnilega að vera markmið allra þenkjandi manna að lifa sínu lífi stöðugt batnandi fremur en versnandi.
Því hlýtur þetta máltæki að vera;

"Batnandi ER mönnum best að lifa"

fremur en; "batnandi MÖNNUM er best að lifa"!!!

Og hana nú !

Monday, October 02, 2006

1961 árgangurinn

Má til með að vekja athygli á bloggi 1961 árgangsins í Hafnarfirði (linkur hér til hægri).
Þessi merkilegi árgangur ætlar að hittast fljótlega sér til skemmtunar og rétt að hvetja alla sem fæddir eru '61 í Firðinum (og líka hina sem komu í heiminn annarstaðar og fluttu svo í Fjörðinn) að kíkja á síðuna og skrá sig á bloggið.

Sunday, October 01, 2006

Formúlan

Nokkur gullkorn úr síðustu tuttugu hringjunum í formúlunni:

Báðir þurfa þeir að sýna sjálfum sér þolinmæði !
Fisicella er kominn í rass ... ja .. afturendann á Alonso !
Eina sem hann þarf að gera er að koma á undan í mark ! (en ekki hvað?)
...nema hann sé að skekja hita í dekkin !

og svo endrum og sinnum; "búnað vera !"

"búnað vera miklar sviptingar"
"búnað vera að þorna"
"búnað vera dropar á brautinni"

Kommon gæs - jú kan dú better ðan ðat !!!