Friday, March 28, 2008

Skipulögð mótmæli ?

Ef mótmæli eru skipulögð í samráði við lögreglu.... heitir það þá ekki „Skrúðganga“ ?


Lesið þetta

Tuesday, March 25, 2008

Má aldrei gleymast !

Líkt og Ameríkumenn hafa sitt Kennedymorð og samsæri Bush'anna 11.september'01 burðumst við með óupplýst réttarmorð sem framið var á áttunda áratugnum og ekki virðist mega fjalla um hvað þá að leiða til lykta.
Nýlega hefur hópur áhugamanna um þennan glæp, sem stjórnvöld frömdu gegn nokkrum einstaklingum, opnað upplýsingavef þar sem nálgast má nær allt sem ritað hefur verið um þetta ljóta mál og tengist réttarkerfinu. Á vefnum má lesa dómsorð, lögfræðiálit, synjanir á endurupptöku, lýsingar á meðferð hinna ákærðu á meðan á "rannsókn" málsins stóð og sitthvað fleira.

Það er mér bæði ljúft og sannarlega skylt sem Íslendingi að vekja athygli ykkar, sem lesið þennan vef minn, á síðunni "mál214" og ég hef bætt við hlekkjasafnið hér til hægri.

Skoðið endilega þennan merka vef og myndið ykkur eigin skoðun á einum svartasta blett íslenskrar samtímasögu.

Saturday, March 22, 2008

Skreppur !

Skrapp norður í land, smá bíltúr í góða veðrinu, með stefnu á Blönduós. Mætti ekki einum einasta lögreglubíl á þjóðvegi 1 og sá engan á rúntinum í bænum þegar norður var komið. Stoppaði allt of stutt en náði þó að kíkja í Byggjó (sem er skylda því þar er alltaf eitthvað að finna sem mann vantar "nauðsynlega" að bæta í safnið) og í kaupfélagið, sem heitir reyndar Samkaup núna. Nýlegar breytingar þar innan dyra eru eflaust til bóta, nýir kælar og flottar hillur, en einhver notalegur sjarmi sem var yfir fata-og dótadeildinni gömlu hefur horfið við þessar endurbætur. En lífið heldur áfram.

Mættum einum löggubíl á leiðinni heim og sá stóðst ekki freystinguna að "skjóta" radarbylgju á okkur tvo sem þarna vorum samferða suður. Sluppum báðir því "auðvitað" vorum við á löglegum hraða.
(Sá greinilega á radarvaranum mínum góða, sem var keyptur í Byggjó í þar-síðustu heimsókn, nákvæmlega hvenær yfirvaldið kveikti á tækinu sínu og hvenær hann skaut svo á okkur... ha ha ha ... better luck next time, Copper".)

En ökumenn á þjóðvegi eitt, ég má til með að spyrja ykkur; er um að kenna einhverri "víkinga-arfleifð" þegar þið getið með engu móti hleypt öðrum ökumönnum framúr ykkur? Verðið þið að vera fremstir og númer eitt til að finnast þið vera aðal?

Þegar einhver er að reyna að fara framúr ykkur og þið báðir sjáið á sömu stundu að bíll nálgast úr hinni áttinni er hreint ekki göfugmannlegt að hægja ferðina og stilla sér þannig af að sá sem ætlaði framúr, en hætti við þegar hann sá umferð á móti, komist heldur ekki aftur inná akreinina fyrir aftan ykkur. Ekki nóg með að framkoma eins og sú sem hér er lýst sé rakinn dónaskapur og frekja heldur er svona hegðun ekkert minna en morðtilraun !!!

En sjálfsagt er borin von að ætla að kenna rúmlega þúsaldar gömlum hundi að sitja.

Thursday, March 20, 2008

Tónlistarverðlaunin ?




Nýafstaðin verðlaunahátíð íslenskra tónlistarmanna var hin glæsilegasta í alla staði. Þótt ekki hafi verið þétt setinn bekkurinn í Borgarleikhúsinu er ég viss um að einhver hópur fólks fylgdist með útsendingunni frá afhendingu stytt(n)anna góðu. Áberandi var hve illa flestum kynnunum gekk að stauta sig fram úr textanum sem þeim var ætlaður og var undantekning ef þeim tókst að mæla mál sitt fram hnökralaust. Klaufalegt og kauðslegt að í jafn mikilvægt hlutverk á hátíð sem þessari skuli ekki veljast fólk sem kann og talar Íslensku sæmilega óbrenglaða. Þar var aðalkynnir kvöldsins engin undantekning og mætti hann gjarnan reyna að finna aftur það fumleysi og þá einlægni sem skóp honum vinsældir á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Flumbrugangurinn nú er ekki til þess fallinn að auka hróður hans mikið. Hvað átti það til dæmis að þýða að segja við verðlaunahafa, um leið og honum var afhend viðurkenning fyrir fádæma góða plötusölu, að hann (kynnirinn) "nennti ekki" að standa í því "megaveseni" að sjá á eftir viðkomandi listamanni niður í sal til þess eins að kalla hann aftur upp á svið skömmu síðar. Í stað þess að athyglin beyndist að verðlaununum var hún öll á fussumsveijinu í kynninum.
Jakob Frímann og Eiríkur Fjalar hafa þó alltaf munninn fyrir neðan nefið og kunna að orða hlutina svo vel fari.. "þetta letur er svo smátt að maður þarf að vera dvergur til að lesa það"...
Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að "jaðar"tónlist er farin að vera fulláberandi í öllum flokkum, jafnt sínum eigin sem öðrum. Fyrir ári síðan keyrði gjörsamlega um þverbak í vitleysunni þegar "lag ársins" var einhver tilraun með Ghostdigital, lag sem fáir höfðu heyrt og enginn kannaðist við. Þó tókst aðstandendum þess lags, sjálfsagt með fulltingi útgáfunnar sinnar, að fá þennan bút valinn sem lag ársins. Minnti dálítið á þegar Sveppi lét félagana hringja inn atkvæði og velja sig sem sjónvarpsmann ársins öllum algerlega í opna skjöldu.
Enn skrítnara að þessu sinni var val á plötuumslagi ársins. Þar dúkkaði upp, enn og aftur, hinn vestfirski Mugison nú með látlaust og snyrtilegt leðurlíki sem á er prentað nafn plötunnar. Ekkert út á það að setja svosem en ég minnist þess ekki að Todmobile hafi fengið sérstaka viðurkenningu fyrir umslag sitt þegar þau gáfu út sína sjöttu plötu "Ópus 6" eftir tíu ára hlé á útgáfu. Þó eru þessu tvö umslög meira en lítið lík, þau eru næstum nákvæmlega eins... ef frá er talið morgunblaðsletrið....
En hverjum er svosem ekki sama... Björk og Megast mættu allavega ekki á staðinn...