Tuesday, November 28, 2006

Latibær

Mér þótti fróðlegt að lesa krítík á Latabæ og svo svarið við svarinu.
Að ætla að dæma konsept og sjónvarpsefni fyrir börn, þar sem hreyfing og hollusta eru í fyrirrúmi, eftir spjallrásarausi internetsjúkra burger-unglinga í Ameríku, er svona álíka gáfulegt eins og að ætla að meta þáttaröð um mat og veitingahús af internetþrugli anorexíusjúklinga.

Og fyrst við erum komin út í þetta: Magnús, ég óska þér innilega til hamingju með Bafta verðlaunin, hinn breska Oscar, þau voru fyllilega verðskulduð.

Friday, November 24, 2006

Silfur, Hótel Borg

Eðlilega eru ekki allir á sama máli um ágæti breytinganna á veitingasalnum í Hótel Borg, en mér finnst þetta svolítið töff. Er reyndar enn á báðum áttum með betrekkið í Jóhannesarstofu en arininn þar er sannarlega “showpiece”. Og svo er hann opinn að aftan bæði og fram. Stærra eldrými er á þeirri hliðinni sem snýr inn í veitingasalinn og þar logaði bíómyndalegur “special effects” eldur úr gasi. Frekar flott. Hvorki eru myndir né annað skraut á veggjunum en ljósakrónurnar og sagaður steinninn á arninum og súlunum bæta þann skort fyllilega, jafnvel þó einhverjir mæri Indiana Jones propsið sem hafði hangið þarna áratugum saman og safnað ryki. Frétti reyndar að til stæði að koma því dóti öllu saman fyrir í lobbíi hótelsins, svo ekki fer það langt. Betrekkið og steinninn eru síðan snilldarlega bergmáluð í borðhaldinu sem smádúkur undir köldum réttum og hnefastór platti undir heitum. Hipp og kúl.
Það var fjölmennt á Silfrinu þetta föstudagskvöld og ég skrifa kauðslegar móttökurnar við dyrnar á það. Ef þjóninn hinsvegar lætur alla hanga frammi á gangi í aulalegri bið í byrjun kvölds þá skora ég á Silfursmenn að laga þann þátt. Kannski væri ráð að hafa “butler” í anddyrinu til að taka á móti gestum. Það væri flott. Ef til vill komum við bara inn um bakdyrnar án þess að átta okkur á því, en þarna var samt áður gengið inn í hinn fornfræga Gyllta sal og síðar, til að komast á Skuggabarinn sáluga. Þangað inneftir var förinni þó ekki heitið að þessu sinni.
Á matseðlinum er gesturinn varaður við því að allir réttirnir séu “í forréttastíl” og sá varnagli er ekki sleginn að ástæðulausu. Ókunnugur gæti fornermerast þegar á borðið fara að streyma skammtar sem varla eru uppí nös á ketti og sumum gæti þótt verðlagið eftir því vera heldur í hærri kantinum. En þá er líka bara hálf sagan sögð. Eftir yfirlestur og samtal við þjón var ákveðið að fylgja meðmælunum á matseðlinum og fara í einskonar óvissuferð. Kokkarnir velja matinn, ég hef alltaf verið til í smá áhættu! Annar þjónn kom og bauð okkur að velja vín en spurði svo hvort við vildum treysta sér fyrir þeirri ákvörðun. Ég var efins en sló til, hafði enda enga ástæðu til að vantreysta þessum þjóni. Og vísast myndi hann vera miklu nær um hvað færi vel saman, matur og vín, í þessu ferðalagi sem til stóð. Svolítið varð ég hissa þegar hann birtist svo með kampavínsflösku, þær veigar skyldu fara saman með fyrstu forréttunum. En maður mótmælir ekki settum kúrs, skipstjórinn ræður. Heldur stóð þó tæpt að fyrsti rétturinn næði í restina á freiðinu, smá lögg var eftir svo það rétt slapp. Reyndar fannst mér pínulítið óþægilegt hve margir þjónar skiptust á að þjóna okkur, maður nær mikli minni contact við sinn. En þjónustan á Silfrinu er góð. Maturinn raðaðist á borðið og það fer ekki á milli mála að það er gaman í eldhúsinu. Ég hef sagt að fátt gleðji mig eins og þegar sést að einhver hefur vandað sig. Hver einasti réttur sem borinn var á borð þetta kvöld, og þeir voru margir, var listaverk. Allt spilaði saman hreinan hljóm, útlit, framsetning og bragð. Alltof langt mál væri að telja upp og meta hvern rétt fyrir sig svo ég læt nægja að segja; allir réttirnir voru frábærir, hver á sinn hátt og þeir voru allir skemmtilegir sem er ekki svo lítið afrek. Dúfan var sigurvegari kvöldsins í keppninni “besti rétturinn”. Vínin, hvítur þjóðverji í fyrri hálfleik og rauður fransmaður í þeim síðari, pössuðu alveg ótrúlega vel við hinn fjölbreytta matseðil. Velti samt fyrir mér, af og til, þessu kampavíni - var ekki alveg að fatta það. Tónlistin, sem heyrðist ágætlega úr nýja hátalarkerfinu, var undarleg og nett stressandi en átti líklega að vera það. “Plötusnúður”, þið vitið, allir halda að það sé flott. “Live” klassa “act” hefði verið miklu meira kúl hér.

Silfrið heppnaðist og meir að segja frekar vel. Fullt hús stiga hefði steinlegið ef ekki hefði borið einn skugga á. Traust er dýrmætt og vandmeðfarið og mér þótti mitt örlítið misnotað að þessu sinni. Þótt tilefni borðhaldsins hafi verið að fagna áfanga efast ég um að við hefðum pantað 9000 króna kampavínsflösku með forréttunum hefðum við sjálf valið vínin. Þarna sætti þjónn lagi en hefði að sjálfsögðu átt að nefna við okkur að freiðið væri tvöfalt dýrara en venjuleg vínflaska. Þetta kom okkur í opna skjöldu þarna í restina og setti örlítið leiðan blett á annars fullkomna matarupplifun. Þó ég vilji halda að þetta hafi átt að vera liður í “special treatment”, sem ég reyndar borga svo sjálfur fyrir.
Silfrið verðskuldar háa einkunn, jafnvel fimm stjörnur en fær fjórar. Ég held einni eftir í pant fyrir flöskuna dýru. En kvöldið var vel heppnað.

Monday, November 20, 2006

Tony Cook

Um þessar mundir er staddur á Íslandi upptökumeistarinn Sir Anthony Malcolm Cook, betur þekktur sem Tony Cook. Fáir, ef nokkrir, hafa haft jafn afgerandi áhrif á hljóðupptökutækni hér á landi sem Sir Anthony. Hann var upptökumeistari Hljóðrita sáluga í Hafnarfirði á árunum 1975 til 82 og á þeim miklu umbrotatímum kom hann að upptökum á flestum þeim hljómplötum sem gerðar voru.
Sir Anthony vann náið með þeim tónlistarmönnum sem hann hljóðritaði, nánast sem co-producer, og hafði sem slíkur mikil áhrif á stefnur og strauma jafnframt því að innleiða nýja hugsun í stúdíóvinnu allri. Þeyr, Eik og Bo eru meðal fjölmargra sem Sir Anthony lagði lið. Fram að komu hans til landsins höfðu hljómplötur flestar verið unnar við afar frumstæð skilyrði og af takmarkaðri þekkingu og reynslu. Sir Anthony kenndi heilli kynslóð tónlistarmanna rétt vinnubrögð og nýja tækni fjölrásanna. Ekki er að efa að sú kynslóð sem nú tekur upp tónlist í þvottahúsum og bakherbergjum um allan bæ á margt að þakka þessum brautryðjanda, þó fæstir þeir yngri þekki nafn hans.
Upptökumeistarar íslenskir, sem síðar urðu nafntogaðir sumir, lærðu fræðin hjá Tony svo áhrifanna gætir enn í íslenskri tónlist.
Eitt af síðustu verkum Sir Anthony með íslenskum tónlistarmönnum var langur og strangur túr um Sovétríkin sálugu í boði commissar Leonyds. Fram að þeirri tónleikaferð höfðu engir vestrænir popptónlistarmenn fengið að ferðast um ráðstjórnarríkin, reyndar afar fáir almennir ferðmenn yfir höfuð, svo enn var Tony þátttakandi í brautruðningi. Hinn rómaði spennusagnahöfundur Arnaldur Indriðason var einnig með í för sem skrásetjari atburða svo ekki er öll von úti að einhverntíma birtist ferðasagan á prenti.
Sir Anthony vann hljóð í myndirnar Punktur punktur komma strik (árið 1980) og Atómstöðina (1984) og hefur ekki setið auðum höndum síðan. Hér má sjá má lista yfir kvikmyndir sem hann hefur unnið að eftir að hann snéri heim til Englands en þar eru meðal annarra Trainspotting, Shallow grave og The Crying game.
Sir Anthony Malcolm Cook gerir stuttan stans á Íslandi að þessu sinni en unnið er að því að næsta heimsókn hans verði lengri.

Monday, November 13, 2006

Tapasbarinn, taka þrjú

Mér vitanlega er Tapasbarinn með opið eldhús lengst frameftir af veitingahúsum borgarinnar. Má vera að einhverjir hafi opið jafnlengi eða lengur og þigg ég ábendingar um þá staði, en þangað til ég veit betur hefur Tapasbarinn vinninginn. Afgreitt er eftir matseðli og full þjónusta er veitt þó komið sé fast að miðnætti. Hentar vel svona B fólki eins og mér. (A fólk fer í gang fyrir allar aldir og er komið í ró fljótlega eftir fréttir sjónvarpsins, B fólk sefur frameftir en er í stuði langt fram á kvöld).
Heimsóknin að þessu sinni var ekki síðri en sú næsta á undan, jafnvel betur heppnuð. Sami þjónn sinnti okkur mestanpart og hann sýndi enn að honum leiðist ekki í vinnunni. Stúlkurnar eru ekki eins ákveðnar en eru staðnum til sóma og prýði. Sú sem kom með fyrsta réttinn á borðið, kengúrukjöt, hefði þó að ósekju mátt presentera það af meiri spennu, eins framandi og það er. Þess í stað smellti hún diskunum á borðið og sagði lágt, um leið og hún snérist á hæl; "kengúra" ! Og þegar ég kváði sagði hún aðeins hærra "KENGÚRA" ! Ekki orð um eldunaraðferð eða meðlæti. Engin mystík.
Þetta var eina atriði kvöldsins sem hægt er að gagnrýna með þykkju, allt annað var frábært og þjónninn góði kom strax oní kengúruna með annan rétt sem hann fylgdi úr hlaði með lýsingum sem gerðu hann freistandi og spennandi (þ.e. réttinn). Sama vín var drukkið og í síðustu heimsókn og fer það vel með fjölbreyttum réttunum. Við völdum samsettan seðil þar sem ákveðnir eru tveir réttir en kokkarnir ráða þremur. Allir réttirnir voru bragðgóðir og vandaðir og við fengum að vita um innihald og aðferðir. Kengúran, sem kom fyrst, var frábær og eins var humarinn góður. Sístur var nýr hörpudisksréttur en trúlega var hráefninu um að kenna því sultaðir tómatarnir sem fiskurinn hvíldi á voru bragðgóðir.

Fyrir utan opnunartímann þá hefur tapasbarinn margt annað sem freistar endurkomu. Góður, fjölbreyttur matur, hlýleg og persónuleg þjónusta og skemmtilega "útlenskt" umhverfi, svolítið hávært og greinilega gaman á öllum borðum.

Enn um rýni

Einhver sem kallar sig "nemi" spyr, á freisting.is, hve oft ég hafi farið á Indian Mango áður en ég ritaði rýni um þann stað. Einfaldasta svar við þeirri spurningu er: lestu pistilinn (hann er að finna hér neðar á síðunni) og þá muntu sjá að ég gerði fjórar árangurslausar tilraunir og þegar mér loks tókst að komast þarna inn tók ég fólk með mér svo fá mætti betri yfirsýn yfir fjölbreytileikann. Pistillinn er ritaður eftir þennan dinner og aldrei er gefið í skyn að um heildar úttekt á veitinghúsinu sé að ræða. Aðeins er fjallað um upplifunina af þessari einu heimsókn (vonbrigðin væri kannski réttara) og bera skrifin það glögglega með sér. Svo er í greininni spurt hvort þessi staður taki það vel á móti manni að mann langi að koma aftur. Niðurstaðan er að svo var ekki, í mínu tilfelli, og reyni ég að draga fram hvað það er helst sem veldur því.
Nokkrir staðir hafa, því miður, haft viðlíka áhrif á mig og mitt föruneyti, þ.e. okkur hefur einfaldlega ekki langað að koma aftur. Það er ekki gleðileg niðurstaða, hvorki fyrir mig né viðkomandi veitingastað.
Það, að ég kem ekki nokkrum sinnum og skrifa síðan tæmandi úttekt, segir meira um staðinn en mig. Ef hlutirnir eru ekki í betra lagi en svo að kúnnann langar ekki í aðra heimsókn þarf að líta í eigin barm, ekki skamma sendiboðann.

Saturday, November 11, 2006

Af hverju ekki ?


Ef sonur minn hefði verið drepinn í árás á landið okkar myndi ég ekki vilja að sendiherra árásarþjóðarinnar yrði boðinn velkominn í kurteisisheimsókn nokkrum dögum eftir morðið.
Af hverju getum við ekki séð að árás á eina þjóð er í raun árás á allar ? Af hverju slítum við ekki stjórnmálasambandi við Ísrael til að undirstrika viðbjóð okkar á barnamorðunum sem framin voru í bænum Beit Hanoun á Gaza ?
Er það svo að barnamorð snertir okkur ekki ef það er framið hinumegin á hnettinum ?
Nú þurfa Íslendingar að skoða hug sinn alvarlega.

Thursday, November 09, 2006

Flottur kokkur

Á Freisting.is er að finna stutt myndband af japönskum meistarakokki. Vert að skoða.

Fagmaðurinn og sérfræðingurinn

Enn ritar fagmaðurinn og sérfræðingurinn Stefán Guðjónsson um veitingarýni. Hann vill að allir þeir sem voga sér að gagnrýna veitingahús, bíómyndir, tónlist og hvaðeina séu sérfræðingar í viðkomandi fagi og helst með margra ára reynslu. Enginn, aðeins með áhuga á umfjöllunarefninu, ætti að leyfa sér að gagnrýna þar sem fjöldi manns getur átt afkomu sína undir því að skrifað sé af fagmennsku um það. Svo mörg voru þau orð.

Stefán þessi hunsar tvær mikilvægar staðreyndir í greinarskrifum sínum. Í fyrsta lagi þá staðreynd að langflestir veitingahúsagestir eru hvorki fagmenn né sérfræðingar í matreiðslu, framreiðslu eða veitingahúsarekstri. Þessir gestir eru þeir sömu og lesa veitingarýni og ábyggilega vilja velflestir þeirra lesa rýni sem skrifuð er á mannamáli af fólki sem sjálft er neytendur án sérfræðiþekkingar. Það að viðkomandi rýnir er tónlistarmaður eða blaðamaður kemur málinu hreint ekkert við. Hvernig rýnirinn upplifði staðinn, sem neytandi, og hvernig hann skrifar um hann hlýtur að vera það sem skilur á milli hverra greinar eru lesnar og mark tekið á og hverra greinar vekja ekki athygli. Bókmenntafræðingur skrifar ekki endilega bestu skáldsöguna og framreiðslu-eða matreiðslumaður skrifar ekki endilega bestu veitingarýnina, dæmin sanna það. Hinsvegar getur maður sem ekki spilar á hljóðfæri og er ekki músikant skrifað hinar ágætustu greinar um tónlist og tónlistarmenn, enda skrifar viðkomandi þá sem neytandi. Tvö dæmi um frábæra slíka penna eru Vernharður Linnet og Jónatan Garðarson.

Í annan stað hunsar Stefán algerlega verðgildi reynslu þess sem ekki hefur stundað nám í viðkomandi fagi. Þar til fyrir skemmstu gátu iðnaðarmenn fengið svokölluð ráðherrabréf, til faggildingar, útá reynslu. Mér skilst að það sé ekki lengur hægt og má vera að afstaða ráðuneytisins, og Stefáns, sé til marks um ákveðna þróun til hins verra, að reynsla sé ekki lengur metin sem fyrr. Það hlýtur þó að vera reynsla sem skilur að þá sem kunna og þá sem bara vita. Nám er til flestra hluta gagnlegt en nám án reynslu er gagnslaust. Skrif þess sem hefur keypt þjónustu áratugum saman eru kannski, að því leiti, marktækari en skrif "fagmannsins með sérfræðiþekkinguna" að sá með reynsluna hefur allan samanburðinn og þróun veitingageirans í þrjá áratugi í farteskinu. Það ætti að gera viðkomandi færan um að gagnrýna veitingar og þjónustu.

Að rakka niður reynslu manna og greinarskrif þeirra með orðum eins og "hlægileg", "fáránleg" og "dapurleg" og að halda því fram að viðkomandi séu að skrifa um "hluti sem þau þekkja lítið sem ekkert" er ekki gagnrýni heldur hroki þess sem lítur stórt á sig vegna menntunar sinnar og skírteina. Að ætla að gera lítið úr viðkomandi fyrir "að segjast vera að vernda hagsmuni almúgans" og bíta svo höfuðið af skömminni með því að gera mönnum upp þá skoðun að þeir "haldi að almúginn sé svo vitlaus að gleypa allt sem sagt er" gjaldfellir endanlega skrif Stefáns Guðjónssonar.

Að lokum þetta: "þeir sem gagnrýna verða að vera tilbúnir að taka sjálfir gagnrýni", er einhver mesta rökvilla sem gagnrýnandi þarf að standa frammi fyrir. Það getur ekki verið skilyrði fyrir skoðunum og umfjöllun að viðkomandi lendi sjálfur undir smásjá fyrir orð sín. Þegar gagnrýnandinn bendir á tunglið eru það bara asnarnir sem horfa á puttann, hinir horfa á tunglið og skoða það útfrá gagnrýninni.

Ég gæti sagt miklu meira um þetta mál og mun trúlega gera það á næstu dögum og vikum.

Wednesday, November 08, 2006

Orð eru til alls fyrst

Ég má til með að benda á grein sem mér var bent á. Smellið hér.

Þar sem ég er óbeint nefndur í upphafi pistilsins vil ég koma eftirfarandi að:

Að halda því fram að ég dæmi veitingahús af einni heimsókn er í besta falli kjánalegt og í versta falli atvinnurógur. Ég skrifaði til að mynda dóm um Austur Indiafjelagið eftir að hafa verið gestur þar einu sinni til tvisvar í mánuði í hartnær fimm ár. Ég hef smakkað hvern einasta rétt á seðlinum oft og mörgum sinnum og hlýt að teljast fyllilega dómbær af þeim sökum.

Að halda því fram að skrif mín séu ekki marktæk af því ég er tónlistarmaður eða blaðamaður og þekki þ.a.l. ekki það sem ég er að skrifa um er "fáránlegt" svo notað sé orð úr téðri grein. Ekki er það svo að nauðsynlegt sé að vera sérfræðingur í viðkomandi máli til að geta rýnt í það til gagns ? Má ekki ætla að það sé frekar til trafala að vera of involveraður, eins og pistlahöfundurinn virðist vera. Þó viðkomandi hafi heyrt óperutónlist treystir hann sér ekki til að skrifa um hana og leggur að jöfnu að tónlistarmaður geti þ.a.l. ekki skrifað um veitingar og þjónustu ! Hann tekur ekki tillit til þeirrar staðreyndar að veitingarýnirinn er kominn á miðjan aldur og hefur, frá barnsaldri, snætt á veitingahúsum um allan heim. Þegar einhver hefur hlustað á óperur í 35 ár samfleytt er viðkomandi orðinn dómbær á flest það sem viðkemur þeirri tónlist, hvort sem hann hefur menntað sig sérstaklega eða ekki. Sama hlýtur að gilda um veitingahús. Svo má geta þess að sem tónlistarmaður hef ég einnig starfað á veitingahúsum svo "back-stage-ið" er mér ekki alveg ókunnugt.

Pistlahöfundur nefnir svo Led Zeppelin og Ac/Dc. Ég vil að sá sem skrifar um tónlist þekki fleira en tvær rokksveitir. Ég geri sömu kröfu til þeirra sem skrifa um veitingahús, að þeir hafi étið fleira en samlokur og pizzur á skyndibitastöðum.
Sjálfur hlusta ég fordómalaust á alla tónlist frá Peter Gabriel og Sting til Marilyn Manson og Gus Gus, frá götutónlist Suður Afríku til raga og sutra frá Indlandi.

Ég skrifa um veitingahús sem neytandi, ekki sem matreiðslu- eða framreiðslumaður.

Tuesday, November 07, 2006

Dæmi

Ég sló fram spurningu í pistli um þann góða dreng Fox hér um daginn og hef verið beðinn að nefna dæmi máli mínu til stuðnings, hér kemur það.

Í Kastljósi 06.11 beitti félagsmálaráðherra afbrigði af Argumentum Ad Hominem röksemdarfærslu þegar hann, í umræðu um taumlaust flæði erlends vinnuafls til landsins og ófremdarástands sem blasir við eða er þegar farið að gera vart við sig, sagði stanslaust; nei nei nei Magnús minn þú mátt ekki segja þetta og þú mátt ekki segja hitt, þú ert ómálefnalegur og ég ætla að biðja þig að tala ekki í þessum upphrópunarstíl og þú og þú og þú og þú ..... í stað þess að ræða af einhverri alvöru það grafalvarlega mál sem Magnús Þór hafði kjark til að vekja athygli á. (Ráðherrann fórnaði meir að segja höndum þegar Magnús sagði að þeir þingmenn og ráðherrar sem samþykktu opnun gáttarinnar ættu að skammast sín).

Við þurfum ekki að leita langt útfyrir okkar nánasta umhverfi til að sjá verstu afleiðingar þess þegar fólk af gjörólíkum uppruna og frá framandi menningarsvæðum streymir í massavís inn í lítil samfélög sem ekki eru undir slíkt búin (í okkar tilfelli yfir 5000 manns frá því gáttin var opnuð). Frændur okkar í Skandinavíu eru enn að bíta úr nálinni fyrir linkind í svipuðum málum fyrir tveimur til þremur áratugum síðan. Þeim til afsökunar má reyndar segja að margt af því fólki sem streymdi til þeirra var að flýja stríð og ofsóknir en ekki atvinnuleysi og skort eins og margir af "okkar" útlendingum.

En það stakk mjög að sjálfur ráðherrann skyldi ekki einu sinni reyna að ræða "málið" heldur nota nær allan spjalltímann til að reyna að gera persónu Magnúsar Þórs minni og ótruverðuga.
Það tóks honum ekki og Magnús Þór er maður að meiri fyrir að halda sig við málefnið.

Ræðum málin - ekki mennina sem vekja umræðuna !

Monday, November 06, 2006

Saddam kallinn

Merkilegt að fylgjast með viðbrögðum ráðamanna vestan hafs við dauðadómnum yfir Saddam kallinum Hussein. Sá Orwellíski hrollur sem fór um mig þegar ég áttaði mig á hve nánir bandamenn þeir höfðu verið á árum áður, Saddam og útverðir frelsis og lýðræðis í heiminum, varð að verulegum ónotum þegar taflinu var snúið við og fyrrum vinir voru allt í einu orðnir óalandi og óverjandi hyski. Ekki svo að skilja að ég mæli bót illverkum þeim sem unnin voru á valdatíma Saddams, þvert á móti, ég legg þau alfarið að jöfnu við ill verk annarra geðtæpra einræðisherra hvar sem er í heiminum. En að það skuli í alvöru vera hægt að tala lýðinn svo til að hann trúi blint að þessi eða hinn sé góður bandamaður í dag en réttdræpur harðstjóri á morgun þykir mér með miklum ólíkindum.
Orwell sagði fyrir um þessa hegðun ráðamanna og lýðs í sinni framsýnu bók 1984 og ég hélt ekki að ég myndi lifa að sjá þetta gerast í reynd.
"I was wrong, it's really happening - right before our eyes"....

Friday, November 03, 2006

En ekki hvað ?

Það hljómar alltaf undarlega í mínum eyrum þegar sagt er að símtölum verði svarað í "réttri röð" eða í "þeirri röð sem þau berast". En ekki hvað ? Má maður eiga von á því að einhverntíma verði sagt "símtölum verður svarað hipsum-haps, eftir geðþótta !" Selvfölgeligheder ætti að vera óþarft að tíunda.

Ég þurfti að ná í BT í morgun og símtalið hófst einmitt á "þú ert kominn í samband við BT, símtölum verður svarað í réttri röð". Og ég sem hélt að símtalinu hefði þegar verið svarað. Svo hófst biðin, eflaust hafa einhverjir verið framar í hinni réttu röð. Nokkrum sinnum heyrðist rödd, önnur en sú sem hafði svarað fyrst, segja "því miður eru þjónustufulltrúar okkar enn uppteknir, en við vonumst til að geta afgreitt þig eins fljótt og auðið er". Hvaða nýútskrifaði markaðsfræðingur samdi þennan texta ? Þjónustufulltrúar !! Er BT orðið banki eða stofnun ? Er þetta ekki bara verslun ? Heitir starfið ekki ennþá afgreiðsla og fólkið sem vinnur það, afgreiðslufólk ? Og svo þetta "vonumst til" - "eins fljótt og auðið er" ? Er ekki víst að hægt verði að "þjónusta" mig ? Og þá kannski ekki fyrr en seint og um síðir. Hvaða skrúðmælgi er þetta eiginlega ?

Dugar ekki að segja á Íslensku; "þú hefur náð sambandi við BT, við erum upptekin við afgreiðslu en munum sinna þér strax og við getum". Nei, kannski hljómar það ekki nógu sannfærandi. "Þjónustufulltrúar enn uppteknir" hljómar auðvitað miklu meira "important" og "busy". Og "vonumst til, - eins fljótt og auðið er" gefur til kynna að mannskapurinn sé hreinlega upp um alla veggi og súlur að reyna að hespa af þá kúnna sem tróðust fram fyrir í röðinni svo hægt verði að þjónusta mig.

Reyndar sagði stúlkan, sem loks kom í símann eftir drykklanga stund, "bíddu andartak" eftir að ég hafði stunið upp erindinu. "Andartak !!" Einmitt það. En það voru þegar liðnar um 10 mínútur frá því ég valdi númerið á takkaborðinu, ansi mörg andartök það.
Svo kom hún aftur í símann smástund síðar til að segja mér að verslunin tiltekna, í Smáralind, opnaði ekki fyrr en klukkan ellefu.

Takk kærlega fyrir mig.

Thursday, November 02, 2006

Ísafold

Út er komið hið nýja tímarit Ísafold. Full ástæða er til að vekja athygli á þessu rúmlega 200 blaðsíðna glanstímariti og hvetja ykkur til að næla ykkur í eintak. Reyndar er fyrsta upplag uppselt hjá forlaginu en annað eins er í prentun og verður komið í verslanir fyrr en varir.

Fjölda læsilegra greina er að finna í blaðinu auk fróðleiks og kynninga á ýmsu sem nútímamaðurinn getur tæplega verið án. Viðtöl, menning, pólitík, verslun og viðskipti, allt í einu og sama blaðinu.

Enjoy !

Wednesday, November 01, 2006

Meðalhóf og lagning bifreiða

Ég leyfi mér, að gefnu tilefni, að birta aftur brot úr pistli sem ég skrifaði fyrir nokkru síðan.

Umræðan snérist um meðalhófsreglu þá sem löggæslumenn gjarna bera fyrir sig þegar störf þeirra sæta gagnrýni.

"Sýslumaðurinn í minni sýslu gætir meðalhófs, reyndar svo vandlega að erfitt getur reynst að fá viðbrögð hans við tilkynningum um afbrot. Í mínu hverfi eru einstefnugötur og eru skýrar reglur, boð og bönn, um að bílum skuli ekki lagt vinstra megin við þær. Sé það gert þrengir mjög að eðlilegri umferð um hverfið og neyðarbílar eiga erfitt um vik. Dæmi eru um sjúkraflutningabíla sem komust ekki að húsi í tvígang með skömmu millibili vegna ólöglega staðsettra bíla. Í öðru tilfellinu var um að ræða bráða lífshættu vegna veikinda.

Ítrekaðar tilkynningar til lögreglu hafa engan árangur borið þrátt fyrir að um augljós umferðarlagarbrot sé að ræða. Til samanburðar mætti benda á að ef menn leggja við brunahana eða þannig að skyggir á umferðarmerki við gatnamót eru þeir umsvifalaust áminntir eða sektaðir. En á meðan sýslumaður, sem yfirmaður lögreglunnar, kýs að setja kíkinn fyrir blinda augað halda menn uppteknum hætti og leggja báðum megin gatnanna. Spurningunni um hvort ekki eigi alltaf, í öllum tilvikum , að fara eftir reglunum er svarað með umræðu um skort á bílastæðum í íbúðarhverfum.

Þegar einhver brennur inni vegna þess að slökkviliðið komst ekki inn götuna kemst væntanlega hreyfing á málið. Heilahimnubólga tveggja ára barns nægði ekki til að hrista slenið af mönnum. Þarna er meðalhófið kannski komið í einhverjar ógöngur."

Enn leggja menn bílum sínum ólöglega og þannig að truflar eðlilega umferð um hverfið þar sem ég bý.

Vegna fréttar á "orðið á götunni"

Ég finn mig knúinn til að leiðrétta lítillega það sem sagt er í annars ágætri frétt á ordid.is.

Ég var staddur í Nóatúni við Reykjavíkurveg, ekki í Fjarðarkaupum. Þangað inn fer ég afar sjaldan og æ sjaldnar í seinni tíð. Nóatúnsverslunin fyrrnefnda batnar hinsvegar stöðugt og afgreiðslufólk þar er kurteist og vingjarnlegt.

Í annan stað er svo ekki alveg rétt að ég taki málið ekki nærri mér. Mér þykir miður að okkar ágæti þáttur (Magnúsar og míns) verði ekki á dagskrá í vetur eins og til stóð.