Tuesday, June 06, 2006

Skrumskælingin

Er ekki mál að linni? Hvers vegna spyr enginn spurningarinnar sem brennur á vörum allra lýðræðislega sinnaðra borgara; er ekki komið að því, í alvöru, að ríkisstjórn sem rúin er trausti landsmanna segi af sér, rjúfi þing og efni til kosninga? Þessar leifar af stjórn, sem við sitjum uppi með, hafa runnið sitt skeið og það sjá allir nema ráðherrarnir sem límdir eru við stólana sína. Vald getur af sér spillingu og algert vald getur af sér algera spillingu. Einstaklingar sem hafa ekki gert annað áratugum saman en stjórna hljóta að vera orðnir viðskila við tilgang og markmið embættanna sem þeir sölsa undir sig ár eftir ár. Ekki hafa þeir umboð þjóðarinnar til þess arna svo mikið er víst. Það er gróf skrumskæling lýðræðisins að flokksnefna sem hefur glatað nánast öllu fylgi skuli hafa farið með valdamesta embætti þjóðarinnar og það er hinum fráfarandi formanni til ævilangrar minnkunnar og háðungar að hann skyldi selja sjálfan sig, sannfæringu sína og flokksbræður alla í þann hórdóm sem seta þeirra í ríkisstjórn Davíðs Oddsonar reyndist vera þegar upp var staðið. Það er að segja ef þessir þrælar hafa þá manndóm í sér til að standa upp. Hitt er líklegra að spillingin hafi gegnsýrt hjörtu þeirra og huga og þeir muni meta meir setu í valdastóli, vitandi sem er að þeir sitji þar umboðslausir en við völd að nafninu til. Valdið kemur til þeirra að ofan og þar erum við, ríkisborgarar þessa lands. Mér er til efs að fólkið í landinu, kjósendurnir, muni sætta sig við valdagræðgi þessara manna stundinni lengur. Foringjarnir, sem plottuðu samsærið og frömdu svikin, eru báðir flúnir af hólmi og eftir ráfa, í reiðileysi og rugli, smápeð sem enginn kaus til verkanna. Hvaðan kemur þeim hrokinn til að segja við okkur að þau ætli víst að sitja áfram, það er einfaldlega ekki þeirra ákvörðun. Ríkistjórn með enga forystu og ekkert fylgi á að segja sig frá völdum og láta okkur eftir að velja nýja og það eins fljótt og heimilt er lögum samkvæmt. Fordæmi eru fyrir byltingu hjá þjóðum sem hafa upplifað valdarán eins og það sem við erum þolendur í nú.

Monday, June 05, 2006

Hereford Steikhouse Laugavegi

Ég fjalla helst ekki um þau veitingahús sem ekki verðskulda allavega eina stjörnu en mér var svo misboðið á dögunum að ég má til að segja frá því. Hereford Steikhús við Laugaveg gekk fram af mér og sumt var hreinlega svo grátlega lélegt að ég var viss um að við værum í falinni myndavél. Ekkert veitingahús sem ég hef snætt á tekur eins illa á móti gestum og þetta. Í fyrstu heimsókn minni gafst ég upp og fór án þess að mér væri sinnt en nú var okkur boðið á barinn því það þurfti að dekka upp fyrir okkur. Biðin þar, án drykkja, var fáránlega löng og þegar þjóninn loks kom var það til að spjalla við kunningja sína sem voru að yfirgefa húsið, ekki til að afgreiða okkur sem hann þó tók á móti réttum hálftíma fyrr. Á Hereford eru ekki teknar pantanir heldur fyllir hver gestur út einskonar krossapróf þar sem réttur viðkomandi er x-aður, hvernig hann skuli matreiddur, meðlæti og sósa. Sá sem hefur setið í bíl og gargað pöntun sína í járnkassa á drive-in þekkir tilfinninguna. Fyndið, ef maður er að fara út að borða til að þjóna sér sjálfur, en þá ætti verðlagningin líka að vera í samræmi við þjónustustigið. Svo er sannarlega ekki á Hereford. Við byrjuðum á nauta Tataki sem reyndist, þegar upp var staðið, vera skársti rétturinn þetta kvöld ásamt Hereford-salatinu sem kom með aðalréttunum. Einnig prufuðum við gæsalifrar múss með súkkulaðisósu og ég held að þar sé kominn versti forréttur sem ég hef smakkað. Hverjum datt þessi samtíningur af pískaðri bragðlausri kæfu og súkkulaði eiginlega í hug? Hver krossaseðill er merktur nafni viðkomandi gests en þrátt fyrir það tókst stelpunni að rugla öllum aðalréttadiskunum og það í tvígang. Kjötið var bragðlaust, mismikið steikt eftir diskum en nákvæmlega jafn óspennandi á þeim öllum. Salt og pipar hafði nær engin áhrif á þetta annars ágæta hráefni, hér var metnaðarleysi í eldhúsinu um að kenna. Bakaða kartaflan hefur verið bökuð í kæli því ekki bráðnaði smjörklípan oní hana eins og maður á að venjast og hýðið var líkast húðinni sem handritin voru skrifuð á. Pipar- og bernaise sósurnar sem fylgdu voru greinilega hitaðar upp í sama kæli og með sama árangri. Ekki gekk heldur vel að opna vínflöskuna dýru við borðið því stelpan hreinlega kunni það ekki og þegar það loks tókst hellti hún jafnmiklu á borðið og í glasið sem átti að smakka úr. Við þorðum ekki í desertakrossaprófið en ákváðum þess í stað að skoða betur flöskusafn sem vakið hafði athygli okkar meðan við biðum í upphafi kvölds. Og þetta safn ætti skilið stjörnuna sem veitingahúsið sjálft verðskuldar ekki. Þarna eru árgangar af Armagnaki og Whiskíi allt aftur til áranna fyrir heimstyrjöld og þjónninn, sem byrjaði kvöldið með hroka og stælum, kom nú sterkur inn í kynningu sinni á guðaveigunum. Þó var það eins og síðasti lélegi brandarinn á þessu kvöldi að akkúrat þegar við dreypum á fyrsta sopanum hlammar sér niður, við hliðina á okkur, hópur drukkinna manna sem þurfti að ræða af ástríðu kosti, galla og möguleika sinna uppáhaldsliða í fótbolta. Og þvílíkur hávaði, hróp og köll og hlátrasköll. Við yfirgáfum staðinn og ætlum aldrei að koma aftur, þetta veitingahús er ekki heimsóknarinnar virði. Þjónusta, ef hægt er að nota það orð, er ekki til staðar og það hlýtur að varða við einhver lög að láta algerlega óhæfa unglinga sinna þessum verkþætti og rukka fullt gjald fyrir. Hereford er rándýrt veitingahús og álagningin á borðvínunum er með ólíkindum. Umhverfi er snyrtilegt þó innkoman á staðinn sé algert klúður. Leikskólaleikurinn með krossaspjöldin er kauðskur og ekki til þess fallinn að skapa stemmningu í upphafi kvöldverðar þó það sé eflaust tilgangurinn. Forsvarsmenn alþjóðlegu veitingakeðjunnar Hereford Steakhouse ættu að skella sér í dinner á Laugaveginn og láta svo loka staðnum í beinu framhaldi.

Þessi rýni birtist í Mannlífi júní ´06

Friday, June 02, 2006

VIÐVÖRUN

Framvegis mun ég merkja með hauskúpu þá veitingastaði sem mér þykir sérstök ástæða til að vara við. Staðir sem misbjóða viðskiptavinum með slæmri þjónustu, vondum mat og háu verði fá , eðli málsins samkvæmt, enga stjörnu af þeim fimm sem hægt er að skreyta sig með en til þessa hefur mér ekki heldur þótt ástæða til að fjalla sértaklega um þá. Hin sorglega staðreynd er að afspyrnulélegir og fáránlega dýrir veitingastaðir eru því miður allt of margir og ef sneiða ætti hjá þeim og fjalla bara um þá sem eru þolanlegir eða betri er hætt við að umfjöllunin yrði ansi einhliða og gagnrýnishlutverki hennar ekki fullnægt. Það er því til hagræðingar fyrir þá fjölmörgu sem nýta sér þessi skrif þegar velja á veitingastað til að borða á sem ég mun framvegis merkja skussana sérstaklega.

Thursday, June 01, 2006

Sælkerabarinn Nóatúni, Smáralind

Nú þarf ekki lengur að þvælast um allan bæ í leit að sælkeravörum eins og ostafylltum jalapenjo, alvöru pestó og perlulauk í balsamic. Í Nóatúnsbúðinni í Smáralind er kominn sælkerabar með allskonar ótrúlega góðum “gúrme” varningi. Antipasta og ólívur, nýbökuð Baguett brauð og samlokur smurðar af sælkerakokkum. Þvílíkur unaður. Og það sem kemur þægilega á óvart er að verðið er sanngjarnt. Enginn ætti að láta hjá líða að prófa eitthvað sem er í uppáhaldi eða eitthvað nýtt og framandi, allt sem í boði er er frábært ...

Ég smakkaði þrennskonar pesto, rautt sælkera pesto, grænt með olívum og svo “neon”grænt, en þar er á ferðinni tilraun yfirsælkerans með rucola salat, mjög sérstakt. Einnig prufaði ég nýsmurðar langlokur og þær eru keppnis. Mörg lög af áleggi og grænmeti á volgu brauði, toppað með sósu sælkerans, sannkallað delicatessen eins og “erlendis”...

Red Chilli Pósthússtræti

Í Pósthússtræti 13, á horninu aftan við dómkirkjuna, hafa margir reynt fyrir sér með veitingarekstur með misjöfnun árangri. Þar er nú kominn veitingastaður sem á alla möguleika á að slá í gegn. Red Chili býður mat með mexikósku ívafi, fajitas, quesadillas, enchiladas og burritos. Steikur, salöt og pasta auk hamborgara, hefðbundinna og óvenjulegra.

Ég tengdi staðinn ekki í huganum við Red Chili í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg því sá hreif mig ekkert sértaklega. Þessi gerði það hinsvegar og eftir að hafa prófað nokkrum sinnum í hádegi langar mig mjög að upplifa staðinn að kvöldlagi. Maturinn er góður, þjónustan fagmannleg og staðsetningin frábær. Nú þyrfti bara að fjölga bílastæðum...

Kebab húsið Lækjargötu

Besta kebab sem ég hef fengið um ævina borðaði ég í Köben, á lítilli hliðargötu við Strikið, skammt frá sívalí turninum. Allir kebabar í mínu lífi hér eftir þurfa að þola samanburð við þann Danska. Á horni Austurstrætis og Lækjargötu er Kebab Húsið og þar er seldur kebab sem því miður stenst ekki prófið. Kjötið er bragðlaust og sósan er lapþunnt gutl. Engu líkara en að gleymst hafi að krydda og bragðbæta. Svo er allt vandlega falið í allt of miklu rifnu káli svo úr verður einhverskonar stökkbreitt subway samloka í pítubrauði. Hér þarf að gera miklu betur ...

Ef bara maturinn hefði verið slæmur hefði ég látið þar við sitja en staðurinn er svo sóðalegur og sjúskaður að á það verður að minnast. Hraðbanki skagar langt inn í rýmið og maður verður að skáskjóta sér fram með honum til að komast inn. Bak við hann safnast allskonar rusl og þó plaköt, svartur ruslapoki og notaðar umbúðir hafi verið fjarlægt á meðan við vorum að borða, blasti við að ekki hefur verið skúrað í horninu í mjög langan tíma. Ámálaður plastmúrsteinn hefur verið límdur á veggina í veikburða tilraun til að fegra herbergið en það hefur misheppnast skelfilega, alls ekki í takt við þetta fallega gamla hús á þessum frábæra stað í borginni. Afgreiðsuparið sem var á vakt hafði lítinn áhuga á gestunum, matnum eða nokkru öðru en því að vera að spjalla og hlægja dátt að fyndni hvors annars. Eins og mér þykir kebab fínn skyndibiti efast ég um að ég borði nokkurntíma aftur í hinu þreytulega, sjúskaða og bragðdaufa Kebab Húsi ...

A Hansen Hafnarfirði

Húsið sem kennt er við A Hansen í Hafnarfirði hefur gengið í gegnum mörg og ólík tímabil á langri ævi sinni, en það var byggt árið 1880. Ef timbrið gæti talað yrði frásögnin án efa býsna skrautleg. Í húsinu hefur ýmislegt verið brallað; bólstrun, sjoppa, leiktækjasalur, æfingaaðstaða fyrir hljómsveit og hljóðstúdíó, svo eitthvað sé talið af þeirri starfsemi sem átt hefur athvarf í þessu fornfræga húsi í gegnum tíðina. En síðustu 20 árin eða svo hefur þarna verið veitingahús á neðri hæð og pöbb á þeirri efri. Sá er reyndar alræmdur. Restaurantinn niðri hefur hins vegar haldið sínu í gegnum tíðina og þótt hann hafi ekki alltaf trónað á toppi vinsældarlistanna hefur maturinn jafnan þótt ágætur og sannarlega er þetta eini veitingastaðurinn í bænum sem stendur undir nafni. Svo hefur “limousine” verið til taks hin seinni ár og margir eiga ljúfar minningar frá rúntinum á leið í matinn. Ég ákvað að skella mér í steikarferð á þriðjudagskvöldi, vegna þess að ég hafði ekki komið lengi og líka vegna þess að ég hafði heyrt að enn hefðu orðið eigendaskipti með nýjum kokkum og öllu tilheyrandi.
Ekki hefur verið ráðist í neinar meiri háttar breytingar á húsnæðinu eða innréttingum og skrauti, enda kannski ekki ástæða til. Þó ber að fagna því að hinn kauðslegi sófi, sem tók á móti manni áður, er horfinn og í hans stað komin borð og stólar. Það sem það gat verið pínlegt að sitja í leðrinu og sötra fordrykk yfir matseðli meðan beðið var eftir borði, 80 sentimetra frá parinu sem var að klára eftirréttinn sinn. Nú er gestum, sem þurfa að hinkra, boðið upp á efri hæðina og þar í setukrók fjarri matargestum, eins og vera ber. Og svo er þessi fáránlega bensínstöð sem dómineraði allt útsýni horfin yfir móðuna miklu og nú er virkilega hægt að njóta þess að horfa út yfir miðbæinn og höfnina. En við vorum komin til að borða. Við smökkuðum nauta-carpatio í forrétt, snyrtilegt á diskinum en dálítið bragðdauft og óspennandi. Fyrsta bragð kvöldsins ætti að hrífa og auka á eftirvæntinguna en þetta naut gerði það tæplega. Þá tók við næstum klukkutíma löng bið sem var orðin undir það síðasta dálítið dularfull því við vorum einu gestirnir í salnum. En góðir hlutir gerast hægt. Plankasteikin hefur lengi verið tromp staðarins og svo er enn, að því er virðist. Nauta og lamba tvenna var frábær. Kjötið eldað af virðingu og meðlætið ferskt og örlítið svissað á pönnu. Sósan var alveg sérlega vel heppnuð og að sjálfsögðu var bökuð kartafla með þessu. Eikarplankinn gefur þessu öllu keim þótt ekki væri nema fyrir ilminn af honum og það hve sérstakt það er að borða mat af spýtu. Piparsteikin var ekki eins mögnuð en kannski var ég bara óheppinn með bita. Piparblandan á kjötinu var bragðgóð og piparsósan líka en einhverjar sinar voru að pirra mig í lundinni. Ef við hefðum ekki þurft að bíða svona lengi eftir aðalréttinum hefði ég beðið um nýja sneið. Meðlætið með þessari steik var einnig gott. Með þessu var drukkið ástralskt Rosemount Shiraz. Santa Digna Cabarnet Sauvignon frá Chile hafði þó verið pantað en reyndist ekki tiltækt. Alltaf þykir mér betra ef mér er sagt strax hvað af seðlinum er ófáanlegt svo ég sé ekki að láta mig langa í það sem ekki er til. Reyndar er tímabært fyrir staðinn að endurskoða bæði mat- og vínseðilinn. Þjónustan þetta kvöld var látlaus og allt umhverfi staðarins er þægilegt. Gamlar ljósmyndir af húsunum í bænum eru fallegar á veggjunum og undirstrika vel anda liðins tíma sem svífur dálítið yfir öllu á þessum snyrtilega veitingastað. Ef ég ætti að tína til kvörtunarspörð þá væri það helst að stöðugur umgangur fólks á pöbbinn illræmda á efri hæðinni er mjög truflandi fyrir þá ró sem ríkir í salnum niðri. Kannski væri hægt að breyta inngangi þannig að þessar tvær rekstrareiningar gætu þrifist í svona mikilli nálægð hvor við aðra. Ég gef staðnum 2 stjörnur.


Þessi rýni birtist í Mannlífi maí ´06