Friday, May 25, 2007

Skyldan kallar !














Oft hef ég verið spurður hvaða veitingastað menn eigi helst sækja heim á ferðum sínum til London. Ég ákvað því að taka saman umfjöllun um þá staði sem ég hef heimsótt og gert hafa vel við mig í stórborginni.

Ekki verður um að ræða tæmandi gagnrýni á þessa staði heldur skrif meira í ætt við "tour-guide" fyrir svanga ferðalanga sem þó vilja gera vel við sig í mat og drykk. Engir skyndibitastaðir verða með á listanum af skiljanlegum ástæðum og flestir staðirnir eru staðsettir í miðhluta borgarinnar, Soho og svæðunum þar um kring.

Listinn mun birtast hér innan fárra sólarhringa og vonandi hafa sem flestir gagn og gaman af uppátækinu.

Friday, May 18, 2007

Sárabót fyrir okkur minnipokamenn.

STJÓRNIN ER FALLIN.....!!!!!


og það þrátt fyrir að atkvæði okkar þéttbýlinga mættu sín lítils gegn útnárakjósendum.

Framsóknarflokkurinn hélt í alvöru að hægt væri að hanga á spenanum gegn loforði um álver hér og álver þar. (Virkaði reyndar á austfirðingableiðurnar sem héldu Dóra við völd gegn loforði um álverið á Reyðafirði, sem kom svo loksins eftir dúk og disk - Dóra sé lof og dýrð).

En nú hefur norðmaðurinn loks séð ljósið og hrist af sér þessar blóðsugur.

Og boðið kvennalistakonunni upp í dans...

Það held ég sjóði á gráhærða kónginum í seðlabankanum....



Farinn til London.

Meira síðar..

Tuesday, May 15, 2007

Iceland Express og "truth in advertising" !










Misvísandi upplýsingar hjá lágjaldaflugfélaginu; "börn fljúga á barnafargjaldi ef þau eru í fylgd með fullorðnum", alveg er látið ósagt að sá "fullorðni" þarf að bóka sig með barninu þ.e. vera "tengdur" því að heiman með einhverjum hætti. Ef viðkomandi barn er að fara eitt milli landa þarf, eðli málsins samkvæmt að greiða fyrir "fylgd" því ekki gengur að senda þessi grey alein út í óvissuna. Þrjúsþúsundkall kostar fylgdin pr. ferð. Þá skyldi maður ætla að skilyrðinu "í fylgd með fullorðnum" væri fullnægt en svo er aldeilis ekki. Til viðbótar við 6ooo kallinn greiðir sendandinn fullt fullorðins fargjald fyrir barnið af því að sá fullorðni er á vegum félagsins en ekki barnsins.

Já einmitt.... en þá ber að breyta orðalagi auglýstra fargjalda svo venjulegt fólk láti ekki glepjast og sendi börnin sín sem fullorðin væru, að viðbættu sérstöku fylgdargjaldi.

Iceland Express hefur um nokkra hríð gefið hugtakinu "express" alveg nýja merkingu með síendurteknum töfum á flugi. Nú hafa þeir gert atlögu að hugtökunum "lággjaldaflugfélag" og "barnafargjald" svo um munar.

Hvað er aftur síminn hjá Icelandair ???

Monday, May 14, 2007

Minnipokamaðurinn ég !

Af því ég kýs að eiga heimili í þéttbýlinu Hafnarfirði en ekki í einhverjum útnára eins og Trékyllisvík eða Raufarhöfn þarf ég að kyngja því að x-ið mitt hefur minna vægi en þeirra sem, vegna átthagafjötra eða annara ástæðna, neyðast til að hokra í hundsrassi.

Hin mannfjandsamlega ofríkistjórn sem hefur fótum troðið allt fagurt og gott í meir en áratug hefði kolfallið ef atkvæði mitt væri jafngilt þeirra sem byggja hinar dreifðari byggðir landsins.

En líklega er þess langt að bíða að mannréttindi, eins og jafnt vægi atkvæða í kosningum, verði virt í bananalýðveldinu.


Frétt á vísi.is

Wednesday, May 09, 2007

Litil frétt ?

Smáklausa í fríblaði vakti athygli mína. Bandaríski ál-risinn Alcoa, sem við þekkjum mætavel hér á Íslandi, ætlar í "fjandsamlega yfirtöku" á Kanadíska ál-fryrirtækinu Alcan sem m.a. rekur ál-verið í Straumsvík. Svo fylgja í klausunni sundurliðanir á verðmati og gengi og skoðanir "greinenda" á m-ál-inu. Alcoa og Alcan hafa átt í viðræðum í tvö ár en þær hafa engum árangri skilað. Því afréð Alcoa að fara út í yfirtökuna. Tilboðið kom Alcan víst alveg í opna skjöldu og munu þeir ekki tjá sig um það fyrr en það liggur formlega fyrir.

Svo mörg voru þau orð.

Það sem fær mig til að hugsa er ekki hvort einhverjir veruleikafyrrtir milljarða-mafíósar út í hinum stóra heima eru að bítast um kompaníin sín eins og smástrákar í sandkassa, það kemur mér ekkert við, heldur hitt að attaníossar og strengjabrúður þeirra hér á landi, sem hafa makkað í þeirra umboði undanfarna áratugi, skuli hafa skipað m-ál-um svo að þessi gjörningur mafíósanna geti hugsanlega haft stórkostleg áhrif á land mitt og þjóð.

í yfir 600 ár máttum við kyngja því að aðrir réðu okkar m-ál-um. Svo var stoltum og djörfum mönnum fyrir að þakka að við fengum ákvörðunarréttinn í eigin hendur og fullt sjálfstæði skömmu síðar. Nú blasir við að siðblindir og gróðasjúkir smámenn hafa með yfirgangi og frekju komið öllum eggjum okkar í eina risastóra ál-körfu. Það átti svo að slá ryki í augu okkar með því að ál-bræðslurnar væru ekki í allar í eigu sama aðila og því væri áhættunni dreyft!

En hvað þá ef einn og sami aðili sölsar undir sig þær ál-bræðslur sem þegar eru hér? Hvað ef einn og sami aðili á og rekur nær alla stóryðju á landinu? Hvar erum við stödd ef sá gróðapungur fer í fílu og hypjar sig burt einn góðan veðurdag?

Kannski var þessi litla frétt ekki svo lítil þegar grannt er skoðað.