Monday, June 25, 2007

Dauðabeygjan ....!

(þessi færsla ætti kannski betur heima á Crime-watch síðunni, en ég stenst bara ekki freistinguna.)

Ímyndið ykkur að þið sitjið í bíl sem ekið er á löglegum hraða (30km) inní gömlu og grónu íbúðarhverfi. Það er áliðið kvölds, klukkan rétt um miðnætti og fáir á ferli. Allar götur sem ekið er um eru einstefnugötur og bæði hefðir og lög segja til um að bílum sé, og skuli, lagt hægra megin miðað við akstursstefnu. Ykkur þykir þægilegt að aka um þetta fallega gamla hverfi, húsunum er vel við haldið, flestum, og það eru mörg og há tré í snyrtilegum görðunum. EN BANG !!! þá gerist það.... Þið akið niður brekku og ætlið að beygja til hægri, inn götuna sem liggur þvert á brekkuna og á bláhorninu er kyrrstæður bíll sem lagt er þannig að afturendi hans er hálfur út á gatnamótin. Og til að gera vondan hlut verri er annar kyrrstæður bíll, ólöglega lagður líka, vinstra megin við aksturstefnuna inn götuna. Sá stendur örlítið innar þannig að saman mynda þessir tveir bílar þrönga klemmu sem enginn bílstjóri getur ekið gegnum nema stöðva sinn bíl fyrst alveg og kynna sér aðstæður. Í ímyndunarferðalaginu eru engir slíkir lúxusar og þó 30km á klukkustund sé ekki mikill hraði er lítill tími til umþóttunar þar sem þessir ólöglega lögðu bílar birtast svo skyndilega og óvænt.
Og ef þið klessið á þá eruð þið í órétti því ekki má keyra á neitt það sem fyrir verður, þótt það standi út á miðri götu í gömlu, grónu íbúðarhverfi um miðja nótt.

En hverjum er ekki svosem sama um hvort íbúar hverfisins komist heim til sín fyrir yfirgangi og frekju nokkurra lítiðsigldra einstaklinga, þetta var allt ímyndun - munið'i...!



































































Og sjá; það eru bremsuför á götunni - eftir raunverulega bíla sem voru næstum lentir í árekstri...

London ressarnir !

Því miður og sem betur fer hefur ritstjóri Ísafoldar ákveðið að birta hina lauslegu, og allsendis ófullkomnu, samantekt mína á veitingastöðum þeim í London sem ég heimsótti í síðustu ferð minni til borgarinnar.

Lesendur síðunnar hafa nokkra kosti í stöðunni. Þeir geta: A) hlaupið á sloppnum útí búð og keypt nýjasta tölublað Ísafoldar, B) gerst áskrifendur að blaðinu annaðhvort í gegnum síma eða á netinu og fengið það sent heim, C) beðið þar til þetta tiltekna tölublað víkur fyrir því næsta og greinin birtist í heild sinni hér á síðunni, D) látið sér fátt um finnast og átt bara ósköp venjulegan (og vonandi ánægjulegan) dag.

En svona er lífið, uppfullt af skemmtilegum ákvarðanatökum...

Thursday, June 14, 2007

Heygarðshornið


GeheimerStatsPolitzei, sú knáa lögregla, á ekki sjéns í kollega sína á Blönduósi. Afdalamennskan og útkjálkaeinangrunarfirringin er gjörsamlega að bera þessa ágætu herramenn ofurliði. Venjulegir borgarar hljóta að spyrja;"hvað halda þessir menn eiginlega að þeir séu?" Svo mikið er víst að þeir sitja EKKI við hægri hönd Guðs almáttugs og munu því EKKI ekki þaðan koma að dæma lifendur og dauða, þó það sé örugglega og augljóslega það sem þá þyrstir mest í.
Dreifbýlis-sériffar með stórmennskubrjálæði !

Wednesday, June 06, 2007

Vonbrigði, enn og aftur !

Nýkominn heim frá London með þjónustulund þarlendra í fersku minni hef ég að gamni borið saman framkomu veitingamanna hér á landi og þar. Samanburðurinn er í mörgum tilfellum ekki svo óhagstæður Íslendingunum með tveimur leiðum undantekningum þó.
Við Laugaveginn standa tvö veitingahús gengt hvort öðru og hafa þau bæði verið vinsæl frá opnun. Báðir staðirnir eru reknir af upprunalegu eigendunum, í.þ.m. að hluta og á báðum stöðunum vinnur fólk sem tengist eigendunum eða fjölskyldum þeirra. Á Asíu er nær alltaf ófaglært fólk í framreiðslu en kemur e.t.v. minna að sök á þeim stað þar sem flestir gestirnir eru að skjótast í súpu í hádeginu eða þá að verið er að færibandaafgreiða stóra túristahópa með sameiginlegan matseðil. Helst er að maður finni fyrir sauðshættinum í sjálfri móttökunni sem oft er áhugalaus og klaufsk.

En það er handan við götuna, á veitingastaðnum Ítalíu, sem maður kemst virkilega í návígi við þjónustu sem er svo slæm að það sætir furðu að fólk skuli yfirhöfuð sækja þennan stað heim aftur og aftur. Undirritaður var fastagestur á Ítalíu árum saman en hætti að eiga viðskipti við staðinn þegar ráðinn var strákhvolpur sem yfirþjónn, svo ruddalegur og góður með sig að engin leið var að eiga við hann samtal. Þegar hann hafði látið 6 manna fjölskyldu sitja á strætóbekk utandyra í bið eftir borði frekar en að leyfa fólkinu að setjast í 20 mínútur í setukrók á efri hæð þótti mér nóg komið í bili. Nokkru seinna fréttist að hrokagikkurinn hafði verið látinn fara og því var farið að sækja staðinn á ný. Einn faglærður framreiðslumaður er á hverri vakt að jafnaði en fyllt uppí með ómenntuðum stelpum sem margar eru ágætar og sinna sínu starfi af alúð og einlægni, eins og reyndar flestir á þessum veitingastað. Glaðlegt viðmót og þjónustulund getur tryggt vel heppnaða heimsókn á veitingastað ekkert síður en yfirspennt fagmennska og fjöldi prófskírteina. En Adam var ekki lengi í Paradís og nú hefur enn verið ráðinn til starfa strákur sem heldur að hroki og ruddalegt viðmót við gestina sé vænlegast til árangurs. Það er alveg magnað hvað einn asni getur eyðilagt mikið fyrir öðrum. Setningar eins og; “ég hef ekki tíma til að tala um þetta við þig, ég er að vinna hérna” og “eigandinn vill ekkert láta trufla sig í sínu fríi, þú verður bara að hringja í hann á morgun” eru ekki til þess fallnar að láta manni finnast maður skipta máli sem kúnni. Miklu frekar að maður hafi á tilfinningunni að maður eigi bara að éta það sem úti frýs. Stundum gerist það sjálfsagt þegar ungir menn eru að reyna að sanna sig fyrir yfirmönnum sínum að þeir fari offari og segi hluti sem betur hefðu verið ósagðir. En að þeir haldi ruddaskapnum áfram þegar þeir hafa verið áminntir og farið fram á það að þeir sýni almenna kurteisi er ófyrirgefanlegt og veitingamaður með slíkan mann í vinnu þarf virkilega að hugsa sig um.
Tvær ungar stúlkur héldu uppá afmæli þeirrar eldri nú á vordögum og fengu leyfi foreldranna til að “fara út að borða”. Haft var samband við Ítalíu, gengið frá bókun og móttökum. Allt gekk þetta vel og ánægjan með heimsóknina slík að þegar sú yngri átti afmæli var ákveðið að endurtaka leikinn. Hvorki þær né foreldrarnir vissu að í millitíðinni hafði nýr hrokagikkur með útsprungið egó verið ráðinn til starfa á staðnum og engu tauti við hann komandi að taka frá borð fyrir stúlkurnar hvað þá að hleypa þeim inná staðinn yfirhöfuð. “Það er reyndar bannað með lögum að afgreiða 14 ára börn á stöðum með vínveitingaleifi, án þess að vera í fylgd með fullorðnum!!!” Nú ! Og ég sem hef alltaf haldið að það mætti bara ekki selja þeim vín. Undarlegt þá að þessar sömu ungu dömur skyldu fá þessa fínu afgreiðslu í fyrri heimsókninni, ekki hafa lögin breyst á þeim 6 vikum sem liðnar eru síðan. Nei það eina sem gerst hefur í millitíðinni er að eigendur Ítalíu hafa enn og aftur gert þau reginmistök að ráða bjána í vinnu og halda að með því séu þau að spara einhverja þá peninga sem kostar að ráða alvöru fagmann. Þau spara allavega peningana sem geymdir eru í mínu veski því á Ítalíu fer ég ekki aftur og enginn úr minni fjölskyldu fyrr en ráðið hefur verið starfsfólk, til að ganga um beina, sem kann almenna kurteisi. Stúlkurnar halda svo bara uppá afmælið á Caruso, þar sem þær eru velkomnar, og veskin þeirra líka.

Saturday, June 02, 2007

Afþreying

Svona á meðan beðið er....

http://www.youtube.com/watch?v=GuMMfgWhm3g


úlpu og dvergagrín ... alltaf fyndið !

Já !

Já, ég veit að ég er latur að skrifa, þessa dagana.

Já, ég veit að sumir eru að bíða eftir London greiningunni.

Já, ég er að vinna í málinu.

Takið lyfin ykkar og ástundið umburðarlyndi og þolinmæði...