Sunday, December 30, 2007

Siðlaust - siðlegt - siðblint !

í Fréttablaðinu í dag (30. des 2007) er stutt frétt um flugeldasölu og samkeppni á flugeldamarkaði. Þar tjá sig Jón Ingi Sigvaldason, hjá slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Guðný Guðmundsdóttir, verslunarmaður hjá Gullborg Flugeldum og Einar Ólafson, annar eigenda Alvöru-gæðaflugelda. Fróðlegt er að lesa þetta stutta innlegg í umræðuna um flugeldasölu og fjáröflun björgunarsveitanna.
Jón Ingi dregur fram mikilvægi flugeldasölunnar og bendir á að sumar björgunarsveitir fái allt að 90% af sínu rekstrarfé með flugeldasölu. Hann segir líka frá þeirri ósvinnu að sumir einkaaðilar reyna að líkja eftir flugeldasölum björgunarsveitanna með eins skiltum. (Reyndar gengu sumir svo langt fyrir ári síðan að vera með bíla og blikkljós fyrir utan sölustaðina , eins og björgunarsveitirnar, og klæddu afgreiðslufólkið í rauðar flíspeysur sem líktust björgunarsveitarpeysunum. Þetta var afhjúpað af fjölmiðlum og vakti hvarvetna reiði og ímugust.)
Guðný telur að björgunarsveitirnar séu að herma eftir þeim hjá Gullborg og ekki öfugt og bendir á að þau hafi nefnt sprengjur eftir íslenskum fjöllum áður en björgunarsveitirnar nefndu sínar tertur eftir fornköppunum.
Það er hinsvegar hinn ofurtrúaði krossfari Einar "áttavillti" Ólafsson sem gengur lengst í sjálfsblekkingu og afneitun þegar hann svarar spurningunni um hvort siðferðilega réttlætanlegt sé að taka spón úr aski björgunarsveitanna með því að selja flugelda í einkasölu. Hann svarar, að hætti bókstafstrúaðra, ekki spurningunni sem hann var spurður heldur þvaðrar eitthvað um úrskurð samkeppnisstofnunar sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að allir ættu að sitja við sama borð. Siðblindinginn heldur svo áfram og segir "það siðferðilega rétt að kúnninn fái góða vöru á góðu verði eins og gerist þegar samkeppni fær að þrífast"!
Ég hvet alla sem ætla að kaupa flugelda núna og í framtíðinni að kynna sér þann einstakling sem svarar spurningu um siðferði með þessum hætti. Einnig væri vert að kynna sér í leiðinni þau ofstækisfullu sértrúarsamtök sem viðkomandi er skálkaskjól fyrir, því pústverkstæðið er fráleitt aflögufært um þá tugi milljóna sem þarf til að leysa út heilu gámana af flugeldum, þar hljóta önnur og dýpri veski að hafa verið opnuð. Og svo væri vert að fá að vita hvert gróðinn af flugeldasölunni rennur þegar upp verður staðið því ekki berst barnastjarnan fyrrverandi mikið á, hvorki í klæðaburði né veraldlegum eignum.
EKKI LÁTA BLEKKJAST AF SIÐBLINDU RUGLI OFSATRÚARMANNA - KAUPIÐ FLUGELDANA HJÁ BJÖRGUNARSVEITUNUM OG HVERGI ANNARSSTAÐAR.
Þannig getum við látið "samkeppnina" ráða og ýtt krossförunum til hliðar.

Friday, December 28, 2007

Gleðilega hátíð - í "alvöru" !

Ég fór að kaupa jólatré nokkrum dögum fyrir jól og þar sem ég stóð inná gólfi hjá hjálparsveitinni áttaði ég mig á því að tvöþúsundkallinn sem ég var að fara að borga meira fyrir tréð hjá þeim myndi hugsanlega bjarga mannslífi.

Ég fann að ég hafði breytt rétt, að hlaupa ekki á eftir tilboðum hingað og þangað um bæinn heldur að versla ögn dýrara tré hjá aðilum sem munu ekki telja eftir sér að yfirgefa fjölskyldur sínar og halda út í óvissuna í brjáluðu veðri þegar og ef ég þarf á því að halda.

Blómaval er ágætt fyrirtæki en ég á ekki von á því að tyggjójaplandi, letilegi unglingurinn, sem afgreiddi mig síðast þegar ég átti erindi þangað, rjúki út á sloppnum næst þegar ég lendi í lífsháska.


Um leið og ég þakka öllum sem kíkt hafa á þessa síðu undanfarið ár vil ég biðja ykkur að hafa í huga og minnast þeirra sem ávallt eru boðnir og búnir að koma öðrum til hjálpar, oft leggjandi sjálfa sig í mikla hættu, og kaupa ALLS EKKI UNDIR NEINUM KRINGUMSTÆÐUM flugelda af öðrum en viðurkenndum björgunarsveitum.

Ekki búast við því að "sprengjumeistarinn" Örn Árnason taki sér frí frá Spaugstofunni og æði á fjöll til að bjarga fólki.

Og stýrið, í Guðs almáttugs bænum, hjá fólki sem villir á sér heimildir og reynir að blekkja almenning til að versla hjá sér, kallandi sína flugelda "alvöru-flugelda", eins og aðrir séu þá "plat". Allt of margir "áttavilltir" menn eru að rýra tekjumöguleika hjálparsveitanna með dollaramerki í augunum og biblíuna í hendi.

Eina "alvöru-platið" í flugeldaheiminum er þegar bókstafsblindaðir sértrúarsöfnuðir misnota lítiðsiglda og jafnvel fárveika einstaklinga sem skálkaskjól fyrir eigið brask.

Slíkra er ekki Guðsríki.


Ég óska ykkur öllum friðar og velgengni á komandi ári.

Saturday, December 22, 2007

Fiskimarkaðurinn


Í heimsóknum mínum á einn nýjasta veitingastað borgarinnar, Fiskimarkaðinn við Aðalstræti, rifjaðist upp gamalt grín úr mínum vinahópi. Ef stemmning datt niður eitt augnablik hjá okkur félögunum eða eitthvert skens var að klikka var gjarnan sagt “nú er leiðinlegt”. Brást þá ekki að hlátur setti að mönnum við frasann og þá var einatt fylgt fast á eftir með því að segja: “nú er aftur gaman”. Og þá var hlegið enn meir. Árum síðar er enn hægt að hlægja að þessum einföldu frösum þegar menn hitta á rétta augnablikið. Meðan ég naut matarins og þjónustunnar á Fiskimarkaðnum, og reyndar lengi eftir að máltíðunum var lokið og ég kominn heim til mín var ég enn að hugsa “já, nú er aftur gaman!”

Fiskimarkaðurinn er í húsinu að Aðalstræti 12. Á efri hæð er móttaka gesta og “koníaksstofa” með fallegum innréttingum en aðalmatsalurinn er á neðrihæð. Þar geta gestir ennfremur setið við matarbar að austurlenskum sið og fylgst með kokkunum að störfum því opið er inn í eldhúsið. Þægilegt andrúmsloft tekur á móti manni þegar niður er komið og þó rýmið sé ekki íkja stórt er rúmt um hvert borð. í fyrri heimsókn okkar varð “Tasting menu”, úrval af því besta, fyrir valinu og ég mæli óhræddur með þeirri rússíbanaferð, einkum ef nokkrir eru saman að njóta. Þvílíkt og annað eins! Menn mega vera ansi matvandir og heimaaldir ef þeir geta ekki haft ánægju af því að láta spila á skilningarvitin eins og gert er með þessum samsetta matseðli á Fiskimarkaðnum. Réttirnir eru bornir fram, hver á fætur öðrum, en þó ekki örar en svo að sérkenni hvers þeirra fá að njóta sín. Eldamennskan og framsetningin “leitar í austur”, eins og sagt er á smekklegum matseðlinum, og áberandi er hve mikil natni er lögð í öll smáatriði. Maður gat næstum séð fyrir sér Japanska geishuna vökvandi lótusblómin ástúðlega svo öruggt væri að þau væru fullkomin í fegurð sinni á diskinum. Útlit, ekki síður en ylmur og bragð skiptir greinilega miklu máli á þessum stað enda byrjar kvöldverðurinn á hinu sjónræna. Fátt veldur mér vonbrigðum eins og þegar matnum hefur verið skellt á diskinn minn og hrúgunni svo drekkt í sósu eins og því miður kemur ennþá fyrir sumsstaðar. Slík hryðjuverk þyrfti að uppræta með öllu. Matur, sem færður er upp eins fallega og sá sem borinn er fram á Fiskimarkaðnum beinlínis kveikir hjá manni löngunina til að upplifa og njóta. Síðan spillir ekki fyrir að eldamennskan er hér í hæsta gæðaflokki.

Fyrri heimsóknin kallaði á aðra og þá var rýnt í matseðilinn. Forréttir úr eldhúsi eru fjórir í boði og humarmisósúpan freistaði. Hún kom þægilega á óvart og var frábær. Af “Raw” barnum völdum við blöndu af hráfiski; nigiri, maki og sashimi, sem var svakalega flott og afar listaukandi. Lax Teryaki, marineraður svartþorskur frá Víet-Nam og djúpsteiktur skötuselur og skötuselskinnar með geitaosti voru aðalréttir kvöldsins. Laxinn var mildur og naut fiskbragðið sín vel með basil og balsamic. Þorskurinn svarti er ekki okkar guli eftir litameðferð, eins og ég hélt, heldur allt annar fiskur, sömu ættar, virkilega bragðgóður. Skötuselsrétturinn var eini réttur hússins sem ekki sló fullkomlega í gegn hjá okkur en líklega er um að kenna misjöfnum smekk manna fyrir kinnum og geitaosti. Framandi réttir eins og þessi eru spennandi og geta fallið vel inn í samsetta matseðla þó þeir, í sumum tilvikum, séu full sérstakir til að bera einir uppi heila máltíð. Eftirréttasimfónían “Fish market premium” er með þeim kræsilegri sem sést hefur lengi og þó maður hafi, þegar hér var komið við sögu, verið orðinn mettur vel hvarf sú værð eins og dögg fyrir sólu frammi fyrir glæsileika og fjölbreytni þess sem boðið var uppá sem niðurlag máltíðarinnar. Þjónustan á Fiskimarkaðinum er í sama gæðaflokki og matseldin. Kurteisin og fagmennskan í fyrirrúmi en þægileg viðvera og fumlaus vinnubrögð hvers og eins geislandi af öryggi þess sem veldur verki sínu. Vínþekking þjónanna og þekking á réttum hússins lýsir einlægum áhuga þeirra og miklum metnaði. Verðlagning á Fiskimarkaðnum er á líkum nótum og á öðrum “betri” veitingahúsum borgarinnar og staðurinn stendur fyllilega undir því.
Ég gef Fiskimarkaðnum við Aðalstræti verðskuldað fimm stjörnur.

Saturday, December 15, 2007

Pumba þarf að fá nýtt heimili !











Pumba er blandaður Íslendingur og Border Collie, svakalega fallegur og skapgóður. Örmerktur og bólusettur, fæddur á Páskadag 2007.

Vill ekki einhver bjarga þessum yndislega hundi og taka hann að sér?

Endilega hafið samband í síma 822-6169 eða e-mail: howser@internet.is.

Einnig væri vel þegið ef þið létuð þetta berast til vina og vandamanna í þeirri von að finna heimili fyrir þetta fallega og góða dýr.