Wednesday, August 30, 2006

Tapas barinn, taka tvö

Skrapp á Tapas barinn í gærkvöldi. Var seint á ferð og flestir staðir búnir að loka eldhúsum sínum, en ekki þessi. Síðast þegar ég datt inn þarna prufaði ég 7 rétta óvissuferð og var sáttur en ekki meira en svo. Eftir gott samtal við ungan þjón, sem tók yfir afgreiðsluna sem stúlka heldur áhugalaus um þessa gesti sem voru að mæta á staðinn svona seint hafði byrjað á, var ákveðið að láta kokkinn ráða 5 smáréttum. Þjónnin var vel kunnugur vínseðli hússins og gaf álit og góð ráð. Fyrir valinu varð Sonoma, Pinot Noir frá Napa dalnum í sunny California, gott vín með þessum mat, bragðmikið en létt og alls ekki frekt. Réttirnir voru skemmtilega ólíkir hver öðrum en allir ágætir. Sístur var saltfiskur í bragðgóðri, tómatlagaðri sósu með ætiþistlum en sennilega hefur hráefnið ekki verið eins gott og það gerist best. Ætla að prófa þennan rétt aftur síðar og vona að fiskurinn sjálfur verði betri þá því sósan smakkaðist vel. Beikonvafðar döðlur og hörpuskel á spjóti er ágætur réttur og einnig nautakjöt í teriyaki marineringu. Kjúklingur á salati með Alioli var mjög góður en bestur var humarinn. Þeir Tapasmenn rista honum blóðörn og því er auðvelt að borða hann, enginn hvítlauks og olíu subbuskapur, bara stinga honum í munninn og njóta. Frábær réttur.
Umhverfi Tapas barsins er þægilegt, innréttað og skreytt í spönskum/miðjarðarhafs stíl og langur barinn setur sterkan svip á innkomuna. Innri salur er í boði og þar hef ég setið með hópi fólks á árshátíð sem var vel heppnuð. Þjónninn þetta kvöld var kurteis og lipur og vel heima í því sem er í boði, þægilega öruggur á sínum heimavelli. Maturinn var góður og verðið sanngjarnt. Það var gaman að detta þarna inn seint á þriðjudagskvöldi.

Tuesday, August 29, 2006

Orð

Rakst á ágætan pistil um merkingu orða. Orð sem við notum daglega sem hluta af okkar máli en leiðum sjaldan hugann að raunverulegri merkingu. Bréfritari tiltók orðið "handklæði"! Af hverju í ósköpunum er þetta orð notað yfir tau-bleðilinn sem við þerrum okkur með, eftir þvott? Því er þetta ágæta orð ekki frekar notað yfir það sem við nefnum vettlinga? Er það fyrirbæri ekki miklu frekar hand-klæði? Þetta þótti mér fyndið.
En þetta skrítna orð "vett-lingur"! Er það eitthvað sem er minna en vöttur? Svona eins og jepp-lingur er minni en jeppi. Þessu til viðbótar eru svo orð eins og "sokk-apar" sem eru, í þessum orðum töluðum, í bráðri útrýmingarhættu. Ég sé að minnsta kosti aldrei nema staka einstaklinga af þessari tegund á mínu heimili. Og svo hið dásamlega orð "mysingur". Ætti ekki að stafsetja það "mis-syngur"? Og nota um þann sem skríplar falskt. Setningin væri þá; "nei, hann kemst aldrei í kórinn þessi, hann missyngur svo herfilega".

Sunday, August 27, 2006

Kindaspurningin

Af hverju hafa dýraverndarsamtök ekki haft neina skoðun á kindaspurningunni svokölluðu í bílprófi allra landsmanna? Rakst á skemmtilega kjallaragrein í Frbl. í morgun, hugleiðingu um kindur við og á number one. Bréfritari hefur víst aðeins einu sinni fallið á prófi og það var sjálft bílprófið. Spurningin sem stóð í viðkomandi er um rétt viðbrögð ef kind er á veginum þar sem maður er á ferð. Rétt svar er; maður lætur vaða á skepnuna og keyrir hana niður !?! Þarna varð ég hvumsa. Hingað til hef ég haldið að einfaldasta meginreglan í allri umferðarmenningu væri; þú keyrir ekki á neitt það sem fyrir verður. Eins skýrt og það getur frekast orðið, enginn hlutur, bílar, menn, brúarstólpar, ekkert sem fyrir verður og engin dýr heldur. Ekki hesta, beljur, hunda, ketti, skjaldbökur eða héra. Og engar kindur. Auðvitað geta aðstæður verið þannig að árekstur er óumflýjanlegur og þá lendir bíllinn á kindinni en að ökumaður fari viljandi og af ásetningi að keyra niður eitt af sköpunarverkum almættisins er þvert á allt siðferði og alla almenna skynsemi. Maður fórnar kannski ekki lífi og eignum til að afstýra árekstri við kind, en maður keyrir heldur ekki á hana ef nokkur möguleiki er að komast hjá því. Fjöldi samtaka lætur sig varða umgengni og framkomu manna við málleysingja og ég skora á þá einstaklinga sem hagsmuna eiga að gæta að skera upp herör gegn þessari grimmilegu spurningu í bílprófinu. Það hlýtur að vera hægt að komast að samkomulagi um þetta eins og flest annað.

Saturday, August 26, 2006

Þú ert of lítill, þú mátt ekki vera með...

Einelti er aldrei fallegt og þeir sem það stunda eru hrekkjusvín og yfirgangsseggir. Nú hefur hið alþjóðlega vísindasamfélag ákveðið að leggja plánetuna Plútó í einelti og afsökunin; "þú ert of lítill þú mátt ekki vera með". Þetta er svipað og ef HLH flokkurinn hefði sagt við Halla, "þú ert of lítill", og svo rekið hann úr hljómsveitinni. Og svo bíta þessir kallar höfuðið af skömminni og bæta við; "þarna eru fleiri svona litlir eins og þú, vertu bara með þeim". Þetta er nákvæmlega það sem það lítur út fyrir að vera, einelti, og það af lélégustu sort því Plútó getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og á sér fáa eða enga talsmenn sem þora að mótmæla meðferðinni. Við hin kóum vitleysuna með okkar samþykki, Ok, pláneturnar eru þá bara átta aftur, eins og þær voru meðan við héldum öll að jörðin væri flöt!
Hvað með það þó fundist hafi einhverjir grjóthnullungar þarna við ystu nöf, ekki voru þeir hangandi á húninum heimtandi aðild að samfélagi plánetna, eða hvað? Nei, við eigum ekki að láta þetta einelti átölulaust og við eigum ekki undir neinum kringumstæðum að kyngja því að klúbbur sérvitringa geti í fýlukasti ákveðið að svipta hina hógværu og lítillátu plánetu Plútó, sem aldrei hefur gert neinum neitt, titli sínum og æru.

Friday, August 25, 2006

Boð og bönn og meðalhóf

"...reglurnar og boð og bönn eru ekki til þess að brjóta heldur fara eftir þeim alltaf en ekki í meðalhófi eins og sumir vilja meina að sé í lagi."
Þessi vísu orð voru mér send sem svar við greinum mínum um löggæslu á vegum úti og mismunandi nálgun embættanna á laganna bókstaf. Ég hef bent á að í dreifðari byggðum landsins tíðkast tvenns konar vinnubrögð og viðhorf. Akureyrarlögreglan kýs að fara meðalhófsleiðina svokölluðu þar sem samskipti manna einkennast af kurteisi og gagnkvæmri virðingu, svona einskonar "þú ert nú manneskja þó þú hafir brotið umferðarlögin" viðhorf. Og svo er það "Blöndóslöggan" sem kýs að fara offari í starfi og lítur alla sömu augum, óalandi og óferjandi afbrotalýður sem ætti helst að sleppa því að aka í gegnum umdæmið. (Þá gæfist þreyttum sheriffum í.þ.m. tækifæri til að klára eins og eina skák eða stuttan SvartaPétur).
Setningin góða, hér að ofan, vakti hjá mér hugsun um fyrirbærið reglur, hvernig við bregðumst við boðum og bönnum og hvað er eðlilegt meðalhóf í þessu sem öðru. Ég bý í Hafnarfirði (ef einhver skyldi ekki vita það nú þegar) og ann mínum heimabæ. Glæpir hafa, í gegnum tíðina, ekki verið stærra vandamál hjá okkur en gengur og gerist í sambærilegum samfélugum nema síður sé. Auðvitað fáum við okkar skerf af innbrotum og fíkniefnamálum og svo eru alltaf einhverjir rótlausir unglingar sem hanga í sjoppum eða verslanamiðstöðvum en þetta er svosem ekkert sem er ekki viðbúið. Í okkar bæ er í gildi lögreglusamþykkt sem er að flestu leiti orðin úrelt. Meiriháttar endurskoðun stendur yfir þessa dagana en þangað til sú nýja tekur gildi, gildir sú gamla enn. Hana er að finna á netinu (einhverjir borgarar skönnuðu plaggið og settu upp síðu) og er það merkileg lesning. Ef fara ætti eftir þessi plaggi uppá punkt og prik værum við stödd í sérkennilegu samfélagi, svona biblíulegu bókstafatrúar samfélagi, Amish og Orthodox-Gyðingar koma fyrst upp í hugann og grunar mig að fljótlega færu menn að hliðra til og tala um meðalhóf. Við hljótum að vera sammála um að í leik og starfi þurfi reglur, leiðarvísa sem menn geta horft til þegar upp kemur vafi. Og lög sem setji mönnum takmarkanir og tryggi rétt þeirra og annarra, því réttur minn nær aldrei lengra en að rétti þínum sbr. ef þú ræðst á mig má ég ekki verja mig með meira ofbeldi en árás þín gaf tilefni til. Hér áður fyrr í old days hét það; maður hefnir ekki tífalt. En svo eru sumar reglur, boð og bönn, með þeim hætti að allur þorri almennings er sammála um að séu úr takti við tímann. Þess vegna eru lög og reglur í stöðugri endurskoðun, til að þær þjóni tilgangi sínum sem best og endurspegli þarfir og kröfur borgaranna sem fara eiga eftir þeim. Án þess að ég sé að predika að lög skuli endalaust sveigja og laga að straumum og stefnum hljóta lög að þurfa að fylgja þróun samfélagsins og vera uppfærð reglulega.

Sýslumaðurinn í minni sýslu gætir meðalhófs, reyndar svo vandlega að erfitt getur reynst að fá viðbrögð hans við tilkynningum um afbrot. Í mínu hverfi eru einstefnugötur og eru skýrar reglur, boð og bönn, um að bílum skuli ekki lagt vinstra megin við þær. Sé það gert þrengir mjög að eðlilegri umferð um hverfið og neyðarbílar eiga erfitt um vik. Dæmi eru um sjúkraflutningabíla sem komust ekki að húsi í tvígang með skömmu millibili vegna ólöglega staðsettra bíla. Í öðru tilfellinu var um að ræða bráða lífshættu vegna veikinda. Ítrekaðar tilkynningar til lögreglu hafa engan árangur borið þrátt fyrir að um augljós umferðarlagarbrot sé að ræða. Til samanburðar mætti benda á að ef menn leggja við brunahana eða þannig að skyggir á umferðarmerki við gatnamót eru þeir umsvifalaust áminntir eða sektaðir. En á meðan sýslumaður, sem yfirmaður lögreglunnar, kýs að setja kíkinn fyrir blinda augað halda menn uppteknum hætti og leggja báðum megin gatnanna. Spurningunni um hvort ekki eigi alltaf, í öllum tilvikum , að fara eftir reglunum er svarað með umræðu um skort á bílastæðum í íbúðarhverfum. Þegar einhver brennur inni vegna þess að slökkviliðið komst ekki inn götuna kemst væntanlega hreyfing á málið. Heilahimnubólga tveggja ára barns nægði ekki til að hrista slenið af mönnum. Þarna er meðalhófið kannski komið í einhverjar ógöngur.

Hvaleyrarvatn og skóglendið þar í kring er útivistarparadís. Þangað uppeftir hjóluðum við krakkarnir í heilsdagsferðir með nesti á árum áður og þó vegalengdir hafi styst og vatnið og byggðin færst nær hvert öðru er þetta svæði enn ómetanlegt athvarf frá stressinu í bænum. Fyrir margt löngu voru settar reglur og gerðar samþykktir um umgengni við þessa perlu. Mönnum var ljóst að ef vernda ætti svæðið yrði að taka það frá sem formlegt útivistarsvæði fyrir fólk á fæti, þ.e. umferð vélknúinna ökutækja er einfaldlega bönnuð nema á þessum eina vegi sem liggur að vatninu og fram með því. Einnig er umferð hesta alfarið bönnuð á göngustígunum og út í vatninu. Það sér hver heilvita maður að börn sem eru að busla á ströndinni eru í stórhættu þegar hestamenn koma niður brekkuna á stökki, með tvo til reiðar, og skella sér beint út í vatnið til að þvo skítinn og svitann af skepnunum. Þó kýrskýrar reglur séu í gildi láta forsvarsmenn og meðlimir hestafélaganna í nágrenninu þær sem vind um eyru þjóta. Lögreglan gerir slíkt hið sama og embætti sýslumanns kannast ekki við lögsögu í málinu. Bærinn, með bæjarstjórann fremstan í flokki, hefur gefið út að svæðið sé ætlað fólki og ekki hestum eða mótórhjólum en allt kemur fyrir ekki. Yfirgangur og taumlaus frekja hestamanna viðgengst af því enginn fer "alltaf" eftir reglunum. Þeim finnst þeir ábyggilega eiga fullan rétt á að baða hrossin sín í vatninu þó börnin flýji skelfingu lostin í allar áttir og jafnvel sködduð fyrir lífstíð af ótta við þessar stóru skepnur (hestana, ekki hestamennina).

Það gengur auðvitað ekki að menn geti sjálfir valið hvenær og eftir hvaða reglum þeir ætla að fara hverju sinni. Hitt gengur ekki heldur, að reglur séu svo fáranlegar að nær ógerlegt sé að fara eftir þeim. Sé það uppi á teningnum þarf að kasta aftur. "...en með ólögum eyða" stóð einhverstaðar og eru orð að sönnu. Húseigendum á að vera skylt að leggja bílum sínum inn á lóðunum og ef ekki er stæði þar, þá að útbúa slíkt. Hestamenn eiga ekki að ríða göngustíga og ekki undir neinum kringumstæðum að baða hross þegar börn eru að leik, mannskepnan á að hafa forgang. Reglur um mál sem þessi tvö ættu að geta verið skýrar og auðvelt að fara eftir þeim.

Reglur um hámarkshraða eru hálfrar aldar gamlar og síðan þær voru settar hafa bæði vegir og bílar batnað. Það er tímabært að endurskoða lögin og gera þannig úr garði að mönnum þyki ekkert mál að fara eftir þeim, alltaf.
Eða eins og skrifað var í öðru svari til mín; "Væri ekki nær, áður en refsigleðin tekur yfir, að laga bjánalegar reglur sem ala á óvirðingu fyrir þeim lögum sem þó eiga rétt á sér?" !!!



Sá blái er ólöglegur, kerran fyrir aftan hann og sá grái líka, bannað er að leggja vinstra megin við einstefnugötu. Sá blái er reyndar einnig nær gatnamótunum en leyfilegt er.
Svarti pickuppinn fékk hinsvegar áminninguna af því hann skyggir á skiltið (biðskyldumerkið á ljósastaurnum).

Hvaleyrarvatn, hestlaust þennan tiltekna dag.

Wednesday, August 23, 2006

Loksins loksins loksins !!!

Í morgunblaðinu í dag, (og á mbl.is) mátti lesa eftirfarandi klausu:

Fær sekt fyrir að keyra of hægt

Það er ekki oft sem þarf að hafa afskipti af ökumönnum fyrir að keyra of hægt. Það gerðist þó hjá lögreglunni í Reykjavík í gær. Þá stöðvaði hún ökumann á Vesturlandsvegi en sá var með hjólhýsi í eftirdragi. Viðkomandi ók töluvert undir 50 km hraða og á eftir honum myndaðist löng röð bíla. Við þetta skapaðist hættuástand að mati lögreglunnar.

Að sögn lögreglunnar gerði ökumaðurinn með hjólhýsið jafnframt ekkert til að liðka fyrir umferðinni sem á eftir honum kom. Hann gaf hvorki öðrum bílum merki um að komast framhjá né ók til hliðar til að hleypa þeim framhjá. Á umræddum vegi er einmitt svigrúm til að gera slíkt.

Lögreglan segir að svona aksturslag geti kostað viðkomandi ökumann tíu þúsund krónur í sekt og tvo punkta í ökuferilsskrá.

.....

Ég verð að fagna því að loksins skuli lögreglan grípa inní þegar enn einn Combicamparinn setur sig í skipstjórasætið og heldur öllum öðrum ökumönnum fyrir aftan sig. Ég hef lengi haldið því fram að þeir sem aka hægar en "umferðarhraðinn" segir til um, og þá erum við hvorki að tala um löglegan hámarkshraða né meðalhófstilfinningu einstakra lögreglu-umdæma heldur þann hraða sem venjulegir ferðalangar stilla sig inná, valdi mun meiri hættu í umferðinni heldur en þessi eini og eini sem kýs að aka hraðar. Framúrakstur verður ekki aðkallandi nema að einhver taki sér þau völd að ætla að stjórna öllum hinum. Svona vegaruddar eru mun líklegri til að orsaka slys en hinir sem halda ferð sinni áfram á eðlilegum hraða og það var hárrétt og virðingarverð ákvörðun lögreglunnar að hafa afskipti af þessum kjána. Svona vegasóðar þvinga aðra til framúraksturs, þá er viðkomandi væntanlega í sumum tilfellum farinn yfir löglega hraðann, og glotta svo við tönn þegar menn eru "böstaðir" handan við næst beygju eða hæð. Engin leið er til að útskýra fyrir radarnum að maður hafi verið búinn að hanga fyrir aftan Camparann síðan í Mosfellsbæ og maður hafi einfaldlega verið búinn að fá nóg. Þessi aðgerð lögreglunnar er vonarneisti og ber vott um heilbrigða hugsun hjá viðkomandi lögregluþjóni. Hann á hrós skilið.

Friday, August 18, 2006

Umferðin

Enn berast sorgarfregnir úr umferðinni. Ungt fólk með allt lífið framundan, fólk á besta aldri hrifið burt frá mökum og börnum og eldri borgarar sem hefðu átt að njóta ævikvöldsins, enginn er óhultur. Aðferðir lögreglunnar, að liggja í leyni og nappa menn, hafa engan árangur borið. Í blöðunum er nær daglega sagt frá að svo og svo margir hafi verið teknir, metið að venju í umdæmi "Blöndóslöggunnar", 50 minnir mig að talan hafi verið sem þeir nýlegast hreyktu sér af. En samt virðist ekkert slá á hraðann. Varla er hægt að opna dagblað eða fréttaútsendingu án þess að enn og aftur hafi einhver látist í bílslysi. Skyldi maður kannast við þennan mann eða þekkja þessa konu. Varla erum við orðin svo mikil stórþjóð og fjölmenn að ekki komi lengur við okkur að sjá myndir og lesa nöfn þeirra sem síðast létust í umferðinni.
Hugarfarsbreytingar er þörf sem aldrei fyrr. Það er tímabært að við vegfarendur áttum okkur á að við erum umferðin. Það er ekki á valdi annarra en okkar sjálfra að breyta gangi mála. Engin boð og bönn munu duga ef ekki er vilji til úrbóta. Þetta þarf ekki að vera svona.

Thursday, August 17, 2006

Myndagallerý

Um leið og ég þakka þeim fjölmörgu sem kíkja reglulega á þennan vef langar mig að vekja athygli á myndagallerýi sem ég hef opnað hér til hliðar. Ég mun bæta þar inná myndum af landi og þjóð, eftir föngum, og býð ykkur að njóta þeirra með mér. Ef einhverjum skyldi hugnast að hala niður einhverja þessara mynda og nota t.d. sem skjámynd, er það velkomið. Hinsvegar bið ég hlutaðeigandi að virða höfundarréttinn og láta myndirnar ekki öðrum í té til birtingar.
Góða skemmtun.

Tuesday, August 15, 2006

Bautinn, Akureyri

Ekki hef ég tölu á því hve oft ég hef borðað á Bautanum á Akureyri í gegnum tíðina en á 30 árum eru skiptin ófá. Ég borðaði þar á 17. júni, hrefnukjöt, og félaginn fékk sér hamborgara. Reyndar engan venjulegan hamborgara því þeir eru eins fjölbreyttir og þeir eru margir á matseðlinum, háskólaborgarinn með beikoni og eggi, sá mexikóski með chilihjúp, franski borgarinn með camembert og texas BBQ sá sem pantaður var. Hann var stórfínn og hrefnukjötið mitt var algjört lostæti, sannarlega heimsóknarinnar virði. Villibráðarósan var blönduð gráðaosti og vínberjum og spilaði dásamlegan dúett með sjávarspendýrinu. Svo fylgdi þessu týttiberjasulta sem kórónaði máltíðina. Súpan á undan var rjómalöguð, bragðgóð og lystug og salatbarinn er flottur. Ég dáist að kokkum sem geta haldið ró sinni eins og Bautamenn gerðu þó biðröðin næði langt yfir á göngugötuna, ekkert óðagot hér og allir fengu góðan mat og þurftu ekki að bíða óeðlilega lengi eftir honum. Stúlkurnar sem framreiddu voru elskulegar og brosmildar, þeim leiddist ekki í vinnunni og þá leiðist kúnnanum ekki heldur ...

Monday, August 14, 2006

Við Tjörnina

Veitingastaðurinn Við Tjörnina lætur lítið yfir sér á annari hæð gamla hússins við Dómkirkjuna. Gengið er inn á staðinn á hliðinni sem snýr að Alþingishúsinu og staðsetningin verður vart þjóðlegri. Upp þröngan stiga sem brakar í og tekið á móti manni á skörinni. Ég var smástund að átta mig á umhverfinu, húsgögnunum og fjölbreyttum skrautmunum þegar við settumst í gamla sófann í barherberginu til að drekka fordrykk og skoða matseðilinn. Stemmningin svolítið eins og heima hjá gamalli frænku manns og mér fannst ég eiga að vera stilltur og prúður því hún hefði boðið til kvöldverðar. En þessi sérkennilegi stíll veitingahússins er einn af stærstu kostum þess, fyrir utan kokkana að sjálfsögðu. Stemmningin er heimilisleg og afar róandi og afslöppuð, manni líður strax vel þarna inni.
Þjónninn okkar þetta kvöld var eiginlega meira í ætt við breskan “butler” en hefðbundinn veitingahúsaþjón. Professional framkoma og hegðun í hvívetna. Og hann gerði allt rétt. Þarna var komin tilfinningin sem ég hef svo oft mært, að ég sé kóngur um stund og mínar þarfir og væntingar séu í aðalhlutverki. Tíminn, frá því ég kem inn og þar til ég stend aftur úti að lokinni máltíð, er minn tími. Þetta upprof frá raunveruleikanum er ef til vill helsta ástæða þess að ég fer út að borða. Að vera borinn í gullstól og borða mat sem er betri en sá sem maður eldar sjálfur heima.
Við völdum samsettan fimmrétta sælkeraseðil þar sem kokkarnir ráða för. Og svo hófst konsertinn. Fyrst kom á borðið rjómalöguð fiskisúpa og hún lagði strax grunninn að máltíðinni með lyktinni einni saman. Algjört lostæti og greinilega elduð af ástríðu og natni. Næst kom heitreyktur svartfugl með eplasalati og piparrjóma, góður forréttur og salatið kom skemmtilega á óvart. Innbökuð saltfiskkæfa með humri var frábær og fullkomnaði uppbygginguna að aðalréttinum, humarinn var stór, bragðgóður og rétt eldaður. Tvennskonar fiskur var í boði sem réttur dagsins, skötuselur og lúða, og kokkarnir völdu þá báða. Það er alltaf gaman þegar matreiðslumennirnir fylgja réttum sínum eftir og þeir komu báðir að færa okkur aðalréttinn og segja frá matseldinni. Skapar stemmningu og eftirvæntingu. Og þvílíkt ævintýr. Ég fer ekki oft að hlæja þegar ég smakka mat en það gerðist þarna, fiskurinn var svo bragðgóður og lystugur að ósjálfráð viðbrögð mín voru að hlæja upphátt í gleði minni. Það er langt síðan ég hef smakkað jafn góðan mat og þarna var borinn á borð og öll umgjörð þessarar máltíðar var eins og kafli í klassísku tónverki. Svona sinfóníur eru einfaldlega ekki leiknar víða í dag. Það er engin tilviljun að þegar gera á vel við erlenda gesti og stórmenni þá er oftar en ekki farið með viðkomandi á þennan veitingastað. Hann er einn af fáum sem hefur eigin stíl bæði í innréttingum og matseld og hér finnur maður það “commitment” sem vantar sárlega á suma staði í borginni. Hér var sannarlega ekki farin sú leið sem margir fara í dag, að mála veggina gráa og panta svo bara allan húsbúnað frá Ítalíu haldandi að það sé málið, vera bara nógu hipp og kúl og þá skipti matur og þjónusta ekki eins miklu máli. Nei, á veitingahúsinu Við Tjörnina er maturinn og þjónustan í öndvegi. Umhverfið er óður til gamla tímans þegar virðing og mannasiðir voru enn hluti af menningu okkar. Ég gef staðnum 5 stjörnur því hér er að finna eitt besta veitingahús landsins.


Rýni þessi birtist í Mannlífi, ágúst ´06

Sunday, August 13, 2006

Cafe Kidda Rót, Hveragerði. Part Two, eða “þetta kemur þegar það kemur”!!!

Kiddi minn, mér var sagt í þessari heimsókn, að þú værir alltaf á staðnum en það breyttist í “nema núna, hann er í fyrsta fríinu frá því opnað var”. Staðurinn þinn þolir alls ekki, a.m.k. ekki með þetta staff, að þú sért í fríi.

Ég hef á undanförnum mánuðum beint athygli neytenda í auknum mæli að því hörmungarástandi sem ríkir víða í veitingageiranum og varðar þjónustu eða öllu heldur skortinn á henni. Veitingastaðurinn Kaffi Kidda Rót fékk, fyrir margt löngu síðan, hina sæmilegustu umsögn hjá mér og birtist hún í Mannlífi og hér á þessari vefsíðu. Síðan þá hefur eitthvað gerst og breytingin er mjög til hins verra. Nú er tekið við pöntunum við barborðið, áður en maður sest, en bara ef unglingurinn má vera að því. Ekki svo að skilja að hún sé upptekin af því að hreinsa borðin eftir gesti sem hafa yfirgefið staðinn eða að afgreiða aðra sem eru líka að panta. Nei, borðin eru flest með óhreinum diskum og enginn annar var að bíða akkúrat þetta augnablik. Mér þóttu tilsvörin undarleg, vægast sagt, þegar ég vildi spyrja um réttina á seðlinum en hún svaraði reyndar öllu sem hún var spurð um, afar undarlega. Til að mynda þegar 35 mínútur voru liðnar frá pöntun án þess að á okkur væri yrt, lagt á borð eða hreinsað af næstu borðum matarleifar og óhreint leirtau og mér varð á að spyrja hvort ekki færi að styttast í hamborgarana okkar var svarið “þetta kemur þegar það kemur”. Ég var eiginlega mest hissa að hún skyldi ekki bara segja þegiðu og sestu og vert´ekki að rífa neinn kjaft. Og við beiðninni um hreinsun borða var svarið ”ég er að bíða eftir uppvöskuninni til að geta tekið meira” ?!?! Einmitt... og ég, viðskiptavinurinn sem er að fara að skilja peningana mína eftir hér, á að lykta af leifunum þangað til. Flottur apperatíf það. Svona starfsfólk fengi ekki vinnu á mínu veitingahúsi, það er nokk á hreinu.

Svo þarftu Kiddi minn að athuga, ef þú ætlar að hafa opið inn í eldhúsið, að kokkurinn má alls ekki sleikja puttana á sér milli þess sem hann setur hamborgarabrauðið á grillið, tekur ostsneiðarnar til eða flettir í sundur kálblöðum. Reyndar myndi ég biðja viðkomandi að sleikja helst aldrei á sér fingurna meðan matartilbúningur stendur yfir. Jafnvel athugandi að kaupa einnota latex hanska á mannskapinn, svona eins og bifvélavirkjar nota. Hreinlæti er oftast til marks um vandvirkni og þessi staður er ekki hreinlegur. Veitingamaður sagði mér einu sinni að hann lætur alla sem vinna hjá sér, alltaf, sama hvað þeim er ætlað að gera, grípa með sér óhreint tilbaka ef þeir eru á ferð um salinn. Með þeim vinnubrögðum eru meiri líkur en minni á að staðurinn sé alltaf hreinn. Og þar að auki virkar staffið þá eins og það eigi eitthvert erindi inni á staðnum í stað þess að rangla um verkefnalaust og illa til haft eins og það er hjá þér, og það á sunnudegi.

Því miður kem ég ekki aftur í heimsókn á Kaffi Kidda Rót með mína 6 manna fjölskyldu. Ég býð mínu fólki einfaldlega hvorki uppá svona dónalega afgreiðslu né svona sleiktan mat. Takk fyrir mig.

Saturday, August 12, 2006

Gay Pride

Til hamingju með daginn hommar og lesbíur, aðstandendur samkynhneigðra og allir þér sem erfiða og þunga eru hlaðnir. Borgin skrýðist skrúða í öllum regnbogans litum og allir brosa út að eyrum. Meir að segja Siggi Stormur brá út af venju og spáði rangt fyrir um veðrið. (Reyndar talaði hann um væntanlega hitabylgju fyrir verslunarmannhelgina en hún fór eitthvert annað svo vissulega var komið fordæmi). Tónlist hljómar allstaðar og stemmningin minnir á kjötkveðjuhátíð í Ríó. Eða hvað? Er virkilega svona flókið mál að ganga niður Laugaveg og suður Lækjargötu nokkurnvegin í takt? Af hverju er skrúðgangan ekki samhangandi heldur meira svona einn og einn vörubíll í einu með löngu millibili? Minnti um margt á illa útfærða flugeldasýningu björgunarsveitar í afskekktu dreifbýli, þið vitið, svona stakar bombur og óþörf bið á milli. En svo var aftur gaman þegar næsti bíll ("float") silaðist áfram og strákar í stelpufötum glenntu sig og skóku. Reyndar mættu skipuleggjendur gefa hljóðmönnum skýrari fyrirmæli þannig að gangan og sviðið séu hluti af sömu sýningu. Það er ekki fallega gert að puðra tónlist svo hátt í milljón vatta hljóðkerfinu að tónlistin á vögnunum á engan séns. Samspil búninga og dansspora fer algerlega forgörðum og margra vikna æfingar skila sér ekki til áhorfenda í kakófóníunni. Prufiði bara sjálf að setja eitt lag á fóninn og hækka um leið í öðru lagi í útvarpinu. Ekki flott. En þetta er sparðatíningur, aðfinnslur manns sem hefur lifað alltof lengi í fullkominni veröld. Eftir stendur að tugir þúsunda glöddust með samkynhneigðum í miðborginni og við sýnum enn og aftur að við erum fremst meðal þjóða í þessum efnum sem öðrum. Og Palli var frábær eins og alltaf.

Thursday, August 10, 2006

Bréf til mín

Mér barst póstur og ég vona að höfundi bréfsins sé ekki á móti skapi að ég birti innihald þess hér. (Reyndar er bréfið að finna hér á síðunni sem "comment" við grein mína um kurteisi og virðingu).

Sæll Hjörtur. Siggeir heiti ég og þekki þig svo sem ekki neitt en ég rakst inná síðuna þína í gegnum síðuna hans Simma (sem ég þekki heldur ekkert en les síðuna sökum þess hve mikill snilldar penni hann er). Ég sá mig hins vegar knúinn til að kommenta á þennan pistil því svo "skemmtilega" vill til að ég hef verið tekinn fyrir hraðakstur bæði af lögreglunni á Blönduósi og á Akureyri.

Á Blönduósi var ég einmitt tekinn á 107! Ég hélt fyrst að það væri verið að stoppa einhvern annan og hugsaði með mér þegar ég sá bláu ljósin: "Haha! Verið að stoppa einhvern óheppinn!" Það var ekki fyrr en lögreglan beygði í veg fyrir mig að ég áttaði mig á því að það væri verið að stoppa mig. Það er skemmst frá því að segja að lögreglumennirnir voru mjög dónalegir og hrokafullir og mér leið eins og ég væri í yfirheyrslu vegna þess að ég væri sakaður um morð eða eitthvað þaðan af verra.

Síðar var ég stöðvaður á Akureyri. Þá var ég á 158 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn var 50. Hefði mér þótt það fyllilega eðlilegt að lögreglan hefði sýnt mér hroka og dónaskap, og hefði ég sennilega ekki gert athugasemd við að vera færður í járn fyrir þennan asnaskap. Þeir voru hins vegar mjög rólegir og almennilegir allan tíman, töluðu við mig maður við mann og sem jafningja en ekki sem einhverjir hrottar og fautar á power trippi. Sá eini sem var eitthvað hranalegur var fulltrúi sýslumanns sem þurfti að ræsa út klukkan 3 að nóttu til að klippa á ökuskýrteinið mitt :)

Þessi litla dæmisaga ætti að sýna það vel á hversu miklum villigötum lögreglan á Blönduósi er. Lögreglan á Akureyri hefur sömuleiðis stoppað mig þegar ég var að keyra eilítið of hratt og spjallað við mig á léttu nótunum og bent mér á að hægja aðeins mér. Þannig á það líka að vera!

Monday, August 07, 2006

Blönduóslöggan; hugleiðing um kurteisi

Virðing er áunnin. Hana er ekki hægt að heimta og það gengur heldur ekki að krefjast hennar, þeir sem njóta virðingar gera það af því þeir verðskulda það. Sveitavargur með kaskeiti, í númeri of stórum búningi og ókurteis að auki, þarf ekki að reikna með því að fyrir honum sé borin nokkur virðing fyrr en hann hefur áunnið sér hana, þó svo að virðing fyrir löggæslumönnum sé, og eigi að vera, innprentuð í uppeldinu. Í einu héraði á landinu hafa laganna verðir þann háttinn á að leggja vegfarendur í einelti. Þeir sem þurfa, vegna legu “number one”, að fara um viðkomandi sýslu mega eiga von á að vera stöðvaðir af minnsta tilefni af mönnum sem hafa ákveðið að útfæra laganna bókstaf í minnstu smáatriðum og af slíkri heift að jafnvel firrtustu sértrúarsöfnuðir fölna í samanburði, og er þó ýmsu til jafnað. “Blöndóslöggan” líður engum að aka um sveitina á þeim hraða sem umferðin alla jafna rúllar á alls staðar annars staðar á landinu, nei, í þessu dreifbýli skal ekið á þeim hraða sem kontóristar í Reykjavík ákváðu fyrir margt löngu að væri hæfilegur og ekki eru heimiluð nein frávik. Meðalhófs kenningin um löggæslu hefur ekki enn verið rædd á þessari kaffistofu. 90 kílometrar á klukkustund skal það vera (80 fyrir Kombikamparana) og þeir sem voga sér að aka hraðar um einn einasta kílómeter á klukkustund eru gripnir hvar sem til þeirra næst og þeir meðhöndlaðir af hroka og fyrirlitningu eins og um ótínda glæpamenn sé að ræða. Og að sjálfsögðu eru afbrotamennirnir sektaðir. (Það hvarflaði að mér eitt augnablik að þeir væru með 107 töluna fasta í radargræjunni og séu oft hreinlega að ljúgja uppá menn þegar lítið er að gera í hraðaterrornum, en slíkt er náttúrulega bannað....er það ekki?) Það eitt og sér, að hafa virkt og vakandi eftirlit með umferðarhraða, er út af fyrir sig virðingarvert og er gert víða um landið, en þessir tilteknu aðilar hafa tekið þetta eftirlit á næsta “level”. Kollegar þeirra í sveitunum, sín hvoru megin, sinna þessu eftirlitshlutverki af ekki minni áhuga og elju. Sá stóri munur er á vinnubrögðunum að ef hlutaðeigandi fer svo framyfir siðleg (lesarinn athugi; siðleg, ekki lögboðin) mörk að ástæða þykir til að grípa inní, er það gert af fyllstu kurteisi. Stundum gerist það jafnvel að menn sleppa með áminningu ef sýnt þykir að aðstæður, umferðarþungi og annað það sem haft getur áhrif á getu manna til að stjórna ökutæki, er með þeim hætti að örlítið frávik frá lögboðna hámarkshraðanum skapar enga hættu, hvorki fyrir viðkomandi né aðra. Oft er nefnilega nóg að hnippa aðeins í menn, sem á góðviðrisdögum hafa gleymt sér augnablik og liðið áfram áhyggjulaust eftir okkar ástsæla hringvegi. Ekki er alltaf um að ræða ásetning og glannaskap. Valdníðsla og hroki rúmar ekki eðlileg mannleg samskipti, “þér ber skylda... bla bla bla” og allt það. Kurteisi og stutt samtal á rólegu nótunum skilur eftir sig ábyrgðartilfinningu og virðingu og er mun betra tæki til að halda niðri umferðarhraða en yfirgangur og fautaskapur. Lögreglan á Akureyri hefur tamið sér látlausa og kurteisa framkomu og þess eru dæmi að þeir hafi látið nægja að áminna menn sem þó voru komnir 5 til 10 yfir. Bókstafstrúarmennirnir á Blönduósi gangast hins vegar upp í því að stoppa alla sem voga sér yfir 90 og mætti halda að þeir hafi einhver launahvetjandi ákvæði í sínum samningum, slíkur er atgangurinn á stundum. Þeirra heimabyggð á í vök að verjast um þessar mundir og þó þeirra starfsstöð heyri ekki beint undir stjórn bæjarins skyldi maður ætla að þeir bæru tilfinningar til sinna heimahaga. Af framkomu þeirra við ferðamenn er þó ekki annað að sjá en að þeir vilji veg síns héraðs sem minnstan. Þeir sem “hafa lent í Blöndóslöggunni” (og líka flestir þeir sem hafa frétt tröllasögurnar af skæruhernaði valdbeitingarsinnanna) aka ekki um sveitina með hlýju og gleði í brjósti heldur beiskju og sárindi eftir síðustu samskipti (sinna eða annarra). Við erum nefnilega öll mannleg og það svíður undan að vera órétti beittur, jafnvel þó maður viti uppá sig skömmina að hafa ekið aðeins hraðar en má. Hinir ávinna sér með framkomu sinni og hugarfari, virðingu sem dugar enn, næst þegar maður á leið um. Þá hugsar maður um síðasta atvik og minnist með hlýhug þegar manni var virðing sýnd og maður minntur á sína eigin ábyrgð í umferðinni. Valdníðsla og gerræðislegir tilburðir eiga ekkert erindi inn í löggæslu á Íslandi. “Blöndóslöggan” þarf að þurrka af sér háðsglottið og fara að bera virðingu fyrir eigin starfi og þeirri miklu ábyrgð sem því fylgir. Þetta eiga þeir reyndar að vita hafi þeir lokið einhverju prófi til starfans. Allur þorri manna bregst illa við hroka og frekju og það er sammannlegt að vilja að manni sé sýnd kurteisi. Þeir sem það gera uppskera kurteisi og virðingu á móti og allir fara ósárir frá fundinum.