"
...reglurnar og boð og bönn eru ekki til þess að brjóta heldur fara eftir þeim alltaf en ekki í meðalhófi eins og sumir vilja meina að sé í lagi."
Þessi vísu orð voru mér send sem svar við greinum mínum um löggæslu á vegum úti og mismunandi nálgun embættanna á laganna bókstaf. Ég hef bent á að í dreifðari byggðum landsins tíðkast tvenns konar vinnubrögð og viðhorf. Akureyrarlögreglan kýs að fara meðalhófsleiðina svokölluðu þar sem samskipti manna einkennast af kurteisi og gagnkvæmri virðingu, svona einskonar "þú ert nú manneskja þó þú hafir brotið umferðarlögin" viðhorf. Og svo er það "Blöndóslöggan" sem kýs að fara offari í starfi og lítur alla sömu augum, óalandi og óferjandi afbrotalýður sem ætti helst að sleppa því að aka í gegnum umdæmið. (Þá gæfist þreyttum sheriffum í.þ.m. tækifæri til að klára eins og eina skák eða stuttan SvartaPétur).
Setningin góða, hér að ofan, vakti hjá mér hugsun um fyrirbærið reglur, hvernig við bregðumst við boðum og bönnum og hvað er eðlilegt meðalhóf í þessu sem öðru. Ég bý í Hafnarfirði (ef einhver skyldi ekki vita það nú þegar) og ann mínum heimabæ. Glæpir hafa, í gegnum tíðina, ekki verið stærra vandamál hjá okkur en gengur og gerist í sambærilegum samfélugum nema síður sé. Auðvitað fáum við okkar skerf af innbrotum og fíkniefnamálum og svo eru alltaf einhverjir rótlausir unglingar sem hanga í sjoppum eða verslanamiðstöðvum en þetta er svosem ekkert sem er ekki viðbúið. Í okkar bæ er í gildi lögreglusamþykkt sem er að flestu leiti orðin úrelt. Meiriháttar endurskoðun stendur yfir þessa dagana en þangað til sú nýja tekur gildi, gildir sú gamla enn. Hana er að finna á netinu (einhverjir borgarar skönnuðu plaggið og settu upp síðu) og er það merkileg lesning. Ef fara ætti eftir þessi plaggi uppá punkt og prik værum við stödd í sérkennilegu samfélagi, svona biblíulegu bókstafatrúar samfélagi, Amish og Orthodox-Gyðingar koma fyrst upp í hugann og grunar mig að fljótlega færu menn að hliðra til og tala um meðalhóf. Við hljótum að vera sammála um að í leik og starfi þurfi reglur, leiðarvísa sem menn geta horft til þegar upp kemur vafi. Og lög sem setji mönnum takmarkanir og tryggi rétt þeirra og annarra, því réttur minn nær aldrei lengra en að rétti þínum sbr. ef þú ræðst á mig má ég ekki verja mig með meira ofbeldi en árás þín gaf tilefni til. Hér áður fyrr í old days hét það; maður hefnir ekki tífalt. En svo eru sumar reglur, boð og bönn, með þeim hætti að allur þorri almennings er sammála um að séu úr takti við tímann. Þess vegna eru lög og reglur í stöðugri endurskoðun, til að þær þjóni tilgangi sínum sem best og endurspegli þarfir og kröfur borgaranna sem fara eiga eftir þeim. Án þess að ég sé að predika að lög skuli endalaust sveigja og laga að straumum og stefnum hljóta lög að þurfa að fylgja þróun samfélagsins og vera uppfærð reglulega.
Sýslumaðurinn í minni sýslu gætir meðalhófs, reyndar svo vandlega að erfitt getur reynst að fá viðbrögð hans við tilkynningum um afbrot. Í mínu hverfi eru einstefnugötur og eru skýrar reglur, boð og bönn, um að bílum skuli ekki lagt vinstra megin við þær. Sé það gert þrengir mjög að eðlilegri umferð um hverfið og neyðarbílar eiga erfitt um vik. Dæmi eru um sjúkraflutningabíla sem komust ekki að húsi í tvígang með skömmu millibili vegna ólöglega staðsettra bíla. Í öðru tilfellinu var um að ræða bráða lífshættu vegna veikinda. Ítrekaðar tilkynningar til lögreglu hafa engan árangur borið þrátt fyrir að um augljós umferðarlagarbrot sé að ræða. Til samanburðar mætti benda á að ef menn leggja við brunahana eða þannig að skyggir á umferðarmerki við gatnamót eru þeir umsvifalaust áminntir eða sektaðir. En á meðan sýslumaður, sem yfirmaður lögreglunnar, kýs að setja kíkinn fyrir blinda augað halda menn uppteknum hætti og leggja báðum megin gatnanna. Spurningunni um hvort ekki eigi alltaf, í öllum tilvikum , að fara eftir reglunum er svarað með umræðu um skort á bílastæðum í íbúðarhverfum. Þegar einhver brennur inni vegna þess að slökkviliðið komst ekki inn götuna kemst væntanlega hreyfing á málið. Heilahimnubólga tveggja ára barns nægði ekki til að hrista slenið af mönnum. Þarna er meðalhófið kannski komið í einhverjar ógöngur.
Hvaleyrarvatn og skóglendið þar í kring er útivistarparadís. Þangað uppeftir hjóluðum við krakkarnir í heilsdagsferðir með nesti á árum áður og þó vegalengdir hafi styst og vatnið og byggðin færst nær hvert öðru er þetta svæði enn ómetanlegt athvarf frá stressinu í bænum. Fyrir margt löngu voru settar reglur og gerðar samþykktir um umgengni við þessa perlu. Mönnum var ljóst að ef vernda ætti svæðið yrði að taka það frá sem formlegt útivistarsvæði fyrir fólk á fæti, þ.e. umferð vélknúinna ökutækja er einfaldlega bönnuð nema á þessum eina vegi sem liggur að vatninu og fram með því. Einnig er umferð hesta alfarið bönnuð á göngustígunum og út í vatninu. Það sér hver heilvita maður að börn sem eru að busla á ströndinni eru í stórhættu þegar hestamenn koma niður brekkuna á stökki, með tvo til reiðar, og skella sér beint út í vatnið til að þvo skítinn og svitann af skepnunum. Þó kýrskýrar reglur séu í gildi láta forsvarsmenn og meðlimir hestafélaganna í nágrenninu þær sem vind um eyru þjóta. Lögreglan gerir slíkt hið sama og embætti sýslumanns kannast ekki við lögsögu í málinu. Bærinn, með bæjarstjórann fremstan í flokki, hefur gefið út að svæðið sé ætlað fólki og ekki hestum eða mótórhjólum en allt kemur fyrir ekki. Yfirgangur og taumlaus frekja hestamanna viðgengst af því enginn fer "alltaf" eftir reglunum. Þeim finnst þeir ábyggilega eiga fullan rétt á að baða hrossin sín í vatninu þó börnin flýji skelfingu lostin í allar áttir og jafnvel sködduð fyrir lífstíð af ótta við þessar stóru skepnur (hestana, ekki hestamennina).
Það gengur auðvitað ekki að menn geti sjálfir valið hvenær og eftir hvaða reglum þeir ætla að fara hverju sinni. Hitt gengur ekki heldur, að reglur séu svo fáranlegar að nær ógerlegt sé að fara eftir þeim. Sé það uppi á teningnum þarf að kasta aftur. "...en með ólögum eyða" stóð einhverstaðar og eru orð að sönnu. Húseigendum á að vera skylt að leggja bílum sínum inn á lóðunum og ef ekki er stæði þar, þá að útbúa slíkt. Hestamenn eiga ekki að ríða göngustíga og ekki undir neinum kringumstæðum að baða hross þegar börn eru að leik, mannskepnan á að hafa forgang. Reglur um mál sem þessi tvö ættu að geta verið skýrar og auðvelt að fara eftir þeim.
Reglur um hámarkshraða eru hálfrar aldar gamlar og síðan þær voru settar hafa bæði vegir og bílar batnað. Það er tímabært að endurskoða lögin og gera þannig úr garði að mönnum þyki ekkert mál að fara eftir þeim, alltaf.
Eða eins og skrifað var í öðru svari til mín; "
Væri ekki nær, áður en refsigleðin tekur yfir, að laga bjánalegar reglur sem ala á óvirðingu fyrir þeim lögum sem þó eiga rétt á sér?" !!!
Sá blái er ólöglegur, kerran fyrir aftan hann og sá grái líka, bannað er að leggja vinstra megin við einstefnugötu. Sá blái er reyndar einnig nær gatnamótunum en leyfilegt er.
Svarti pickuppinn fékk hinsvegar áminninguna af því hann skyggir á skiltið (biðskyldumerkið á ljósastaurnum).
Hvaleyrarvatn, hestlaust þennan tiltekna dag.