Undanfarna daga hafa ýmsir tjáð sig um hugleiðingar Davíðs Þórs, um gagnrýni krakkanna sem skrifa í Reykjavík Grapevine. Mig langar að leggja orð í belg.
Í RGv hafa birst pistlar um veitingahús í borginni og ég hef borið mig eftir að lesa þá. Heldur hefur mér þótt rýnin jákvæð, stundum svo að jaðraði við oflof. En slíkt getur átt að vera háð. Lofrullur RGv gefa varla þá mynd af veitingahúsaflórunni sem hægt er að taka nokkurt mark á. Þessar greinar eru kallaðar gagnrýni en eru það í flestum tilfellum ekki. Frekar dettur manni í hug að þeir séu, með umfjöllunum sínum, að klappa auglýsendum á bakið. Ég minnist í fljótu bragði ekki að hafa lesið slæma krítik um nokkurn veitingastað í blaðinu þeirra. Annaðhvort eru allir ressar í borginni svona óaðfinnanlega frábærir; matur, þjónusta og umhverfi með slíkum ágætum að ekki sé hægt að finna að því, eða að einhverjar aðrar hvatir liggja að baki greinunum en rýni til gagns. Þarna er talsvert önnur ritsjórnarstefna á RGv en sú sem síar pistla og rýni um tónlist og tónlistarmenn, samt skyldi maður ætla að það hyski kaupi auglýsingar líka.
Þeir þrír staðir sem teknir eru fyrir í nýjasta blaði RGv fá einstaklega jákvæða og góða umsögn en fengu allir fremur lága einkunn í umfjöllun minni í tímaritinu Mannlífi, (og hér neðar á síðunni.)
Engin tengs eru milli mín og þeirra sem greiða fyrir auglýsingar í það blað og því er ég að öllu leyti óháður ritstýringu þar sem peningalegir hagsmunir gætu rekist á. (Þó þykist ég viss um að ég hafi ekki auðveldað auglýsingastjóra tímaritsins lífið með umfjöllunum mínum.) En mér hefur ekki verið uppálagt að hafa greinar mínar fullar af lofi og skjalli ef viðkomandi staður hefur trauðla átt slíkt skilið. Nokkrir staðir hafa fengið slæma umsögn hjá mér vegna óvandaðrar eða metnaðarlausrar þjónustu og einn reyndar fyrir framantalið og afspyrnu vondan mat í ofanálag. Einn og einn fær áminningu vegna einhverra smáatriða sem betur mega fara en flestir elda og bera fram góðan mat í snyrtilegu umhverfi, hafa vingjarnlegt og kurteist fólk á launaskránni og eru ekki að okra á kúnnanum.
Matreiðslumenn gera sjaldan eða aldrei útá það að gagnrýna kollegana, leikarar og kvikmyndagerðarmenn ekki heldur. Tónlistarmenn sem leggjast í krítik á aðra tónlistarmenn fá fljótlega að heyra að þeir séu bara svona glataðir sjálfir fyrst þeir þurfi að rakka aðra músikanta niður. Gagnrýnandi sem vogar sér að gagnrýna aðra gagnrýnendur er sjálfsagt, með framansagt í huga, kominn með allt gráa svæðið yfir línuna út á miðjan hála ísinn kastandi gleri úr skyrhúsi. En sá sem gagnrýnir er ekki bólusettur fyrir gagnrýni á sig sjálfan. Davíð Þór var kannski öðru fremur að benda á að til að gagnrýni sé
marktæk þarf sá sem hana skrifar að hafa minnst snefil af áhuga á viðfangsefninu. Hann má alls ekki skrifa undir hagsmunatengslapressunni sem auglýsingatekjur skapa útgefendum og það hjálpar mikið ef viðkomandi hatar ekki beinlínis þann eða þá sem hann ætlar að beina sínu kastljósi að hverju sinni.
Vernharður Linnet spilar, mér vitanlega, ekki á neitt hljóðfæri og það gerir Jónatan Garðarson ekki heldur, í það minnsta ekki opinberlega. Þessir tveir hafa þó skrifað meira um djass, síðustu tvo til þrjá áratugina, heldur en aðrir íslendingar samanlagt. Þeirra skrif eru marktæk öðru fremur af því þeir hafa einlægan og fölskvalausan áhuga á viðfangsefninu. Þeir hafa sem áhugamenn og hlustendur viðað að sér þekkingu á tónlistinni, tónlistarmönnunum og eiginlega flestöllu sem á nokkurn hátt tengist djassi. Þess vegna er að marka það sem þeir skrifa. Það þýðir ekki að maður sé alltaf sammála þeim í öllum atriðum og kannski aldrei.
Smekkur manna er misjafn og sumir þykjast jafnvel hafa smekk fyrir hlutum sem þeir þekkja harla lítið. Slíkum einstaklingum fer illa að gagnrýna. Ég er ekki kokkur en hef þó eldað mat frá því ég var 14 ára. Ég er heldur ekki þjónn en hef borðað á veitingastöðum út um allan hinn siðmenntaða heim og verið þar þjónað til borðs. Og mér finnst gaman að borða góðan mat og drekka góð vín. Veitingahúsgagnrýni sem ég skrifa er byggð á minni reynslu og upplifun undanfarin 30 ár. Og hún er hugsuð sem vettvangur upplýsinga fyrir aðra veitingahúsakúnna.
Þegar rýnir RGv hraunar yfir tónlistarmann af því hann fílar ekki viðkomandi, er það engum til gagns og gjaldfellir í raun öll greinarskrif um svipað efni í blaðinu framvegis. Ekki er nauðsynlegt að vera sérfróður um það sem á að gagnrýna en það hlýtur að vera til bóta að maður hafi áhuga á því sem maður ætlar að skrifa um. Að öðrum kosti ætti að fela öðrum blaðamanni að skrifa í umrætt sinn. Svona eins og þegar dómari í sakamáli víkur sæti af því hann hafði látið álit sitt í ljós áður en til formlegrar umfjöllunar kom. Fjölmiðill má ekki láta standa sig að því að hægt sé að sirka út hvernig krítik þessi eða hinn muni fá af því einu hver ritar umfjöllunina. Gott íslenskt orð yfir slíkt er “fordómar”, þar sem eitthvað er dæmt fyrirfram og það sem á eftir kemur litast af þeim dómi. Reykjavík Grapevine er fordómafullur fjölmiðill og þeir sem lesa snepilinn ættu að hafa það í huga. Þá má kannski hafa gaman af ýmsu sem þar er ritað.
Meira um sama efni:
http://deetheejay.blogspot.com/; Reykjavik Grape væl + comments
www.blog.central.is/jongunnar/; The Grapes of Wrath?
Og fyrir þá sem halda að munnræpa og gífuryrði séu mest hipp og kúl: sindrieldon.blogspot.com/