Saturday, September 30, 2006

Ár hinna glötuðu tækifæra

Enn og aftur rennur okkur úr greipum tækifæri til að gera okkur gildandi meðal þjóða.
Við klúðruðum málum þegar umboðslausir sérhagsmunaseggir seldu þjóðina í ánauð í stríðsrekstri í austurlöndum nær. Við misstum algerlega tökin á skrímslinu Landsvirkjun, ríkinu í ríkinu. Og nú, þegar við gátum komið með jákvætt innlegg í umræðuna, vakið athygli á landi og þjóð fyrir eitthvað skemmtilegt og gott, eyðilögðum við það algerlega af því einhverjir þrjóskupúkar vildu ekki "vera memm".

"Black-out" heillar höfuðborgar og nærliggjandi bæja og þorpa er allt að því óhugsandi nokkurstaðar í veröldinni annarstaðar en hér á Fróni. Myrkvunin hefði, og átti, að vekja athygli heimsins á okkur sem menningarþjóð. Þjóð sem getur, þrátt fyrir ágreining um flestöll mál, sameinast um jafn jákvætt og fyndið moment eins og að slökkva öll rafljós til að fagna opnun kvikmyndahátíðar.

Mikið var ég stoltur þegar ég gekk upp Áshlíðina, ofan kirkjugarðs, með börnunum til að þau gætu vitnað þennan merkilega atburð. Og þeim mun meiri voru vonbrigði mín þegar ég áttaði mig á því að myrkvuninni var gjörsamlega klúðrað af kjánum sem ekki gátu séð sér fært að slökkva í stigagöngum blokkanna sinna og snobbdýru útiljósin upp með hellulögðum heimreiðunum.

Ég er orðinn það gamall að ég man þegar, hver einustu jól í uppvextinum, að rafmagnið fór af rétt fyrir kl. 6 á aðfangadag. Ýmist vegna óveðurs, sem reyndar eru alveg hætt að ganga yfir landið, eða vegna "álags", en sú afsökun er löngu orðin ógild. Þá kom raunverulegt "black-out" og stjörnurnar lýstu eins og þær gerðu í fyrndinni.

Þessi tilraun nú var misheppnuð og engu um að kenna nema okkur sjálfum fyrir að þekkja ekki okkar vitjunartíma og stökkva ekki á einstakt tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt.

Á myndunum sést hve glöggt að munurinn fyrir og eftir slökk er nánast enginn.

Þvílík vonbrigði.


Thursday, September 28, 2006

Allir ?

Allt í einu ætla allir að verða ríkir á að gefa út glanstímarit.
Hvar var allt þetta fólk öll árin sem Fróði barðist í bökkum. En gaf samt út mörg athyglisverðustu tímarit samtímans þrátt fyrir lítinn hagnað.
Skyldi eitthvað hafa breyst og gleymst að segja okkur hinum frá því.
Eða hafa menn bara "breiðari" bök í dag?

Monday, September 25, 2006

Viðbót

Auðvitað rétt að það komi fram að 101 Hótel (þ.e. restaurantinn) verður skoðaður innan tíðar. Þá gefst þeim færi á að laga annan "Irish" og kannski leyfa gestunum að svolgra honum í sig svona rétt í lokin, áður en hinn samviskusami starfsmaður hendir öllum út.

Aðeins einu sinni áður hef ég lent í viðlíka ruddamennsku, þá áttu reyndar í hlut menn af íslensku bergi brotnir svo dónaskapurinn kom ekki alveg eins mikið á óvart. Reyndar kom margt fleira á óvart á þeim skrítna veitingastað, svo margt að verðskuldar upprifjun. En önnur rýni bíður birtingar áður en það verður.

Saturday, September 23, 2006

101 hótel

Þess er ekki langt að bíða að hér birtist rýni á Apótekið, en þangað til langar mig að fara nokkrum orðum um stað sem við heimsóttum eftir að máltíðinni lauk. Við kíktum inn á 101 hótel og ætluðum bara í einn "Irish", (fyrir svefninn)! Ekki málið "gjöriðisvovel" og allt það. Settumst við skemmtilegt útsýni innst í salnum (ég þurfti reyndar að standa aftur upp og fara á barinn til að panta). Eftir smástund komu drykkirnir og litu vel út í háum glösunum, þrjár kaffibaunir ofaná rjómanum. Lykta létt af og fá sér svo sopa... en viti menn... þá voru öll ljósin kveikt og rödd, með áberandi hreim, kallaði hátt og ákveðið: "nú'r búnn a loka!!!".

Ég á ekki orð.

Kannski hefði ég átt að hunskast til að hlýða þegar einn þjónninn skipaði mér að fara oní kjallara til að "klára" drykkinnn sem ég var ekki byrjaður á, en mér þótti það lítið spennandi.

Nei... ég fór bara út.

Á heimleiðinni fékk ég hinsvegar, góðan "Irish" eins og alltaf á Rósenberg .

Og fékk að klár'ann.......!

Friday, September 22, 2006

Ahh búhh !

En uppsagnir innan tilskilins fjölda að sjálfsögðu.

Wednesday, September 20, 2006

Galdrar !

Með fataskápinn upp í erminni ?

(smella á setninguna) Ha.

Tuesday, September 19, 2006

Hvað eru margar gæsir í hóp ?

Við félagarnir fórum á gæsaveiðar einu sinni. "-1-" sinni. Í þeim túr voru engar gæsir skotnar en þeim mun meira hlegið. Allt varð okkur að fyndni. Menn máttu ekki mismæla sig þá var hlegið að því í tuttugu mínútur og ekkert var heilagt. Nema mæður manna, þær voru að sjálfsögðu friðhelgar eins og góðir siðir mæla fyrir um.
Einn var nýkominn frá Evrópu, hafði dvalið nokkurn tíma þar og var ekki alveg búinn að finna taktinn í tungumálinu aftur. Það þótti fyndið. Hann spurði t.d., þegar hann vildi vita um gengi krónunnar gagnvart þýska markinu, "hvað eru margar krónur í hundraðkalli?". En fyndnast þótti þó þegar hann sá nokkrar gæsir fljúga í fjarska og vildi fá staðfestingu einhvers í hópnum á hve margar þær væru. Þá spurði hann hátt og snallt: "hvað eru margar gæsir í hóp?" og fékk svarið samstundis: "þær geta verið frá hundrað og niður í þrjár, ef þær eru færri en þrjár er það nefnilega ekki hópur!!!". Og enn var hlegið ...


Þessi ferð og skemmtun okkar félaga rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las í Fréttablaðinu heimskulegustu frétt sem ég hef lesið þar lengi. Jakkafatafóstrið Ari Edwald, forstjóri 365, hefur málað sig út í horn með yfirlýsingum sínum um sjónvarpsstöðina NFS og framtíð hennar. Nú lýsir hann því yfir að koma muni til uppsagna um næstu mánaðarmót en að ekki verði um hópuppsagnir að ræða. Sá hluti yfirlýsingarinnar er reyndar eignaður trúnaðarmanni starfsmanna en á varla sinn uppruna í þeim ranni.

Í beinu framhaldi hljóta menn að spyrja eins og "gæsaskyttan" forðum; hvað eru margir gæsir í hóp; hve mörgum starfsmönnum má segja upp á einu bretti án þess að um sé að ræða hópuppsagnir?

Samkvæmt svarinu sem skyttan fékk er allt yfir "3" hópur! Ef færri en þrír starfsmenn fá uppsagnarbréf þá er sannarlega ekki um að ræða hópuppsagnir. Ef fleiri en þrír fá bréf um mánaðarmótin breytir engu hvað fóstrið segir, þá er um "hópuppsagnir" að ræða.

Allt tal um annað er yfirklór og skrúðmælgi til þess eins ætlað að slá ryki í augu þeirra sem hafa af trúnaði og miklum metnaði unnið að því að gera, í fyrsta sinn í sjónvarpssögu þjóðarinnar, alvöru fréttasjónvarp. Eins og "erlendis".

Og hana nú!

Monday, September 18, 2006

MSG Frítt

MSG, monsodiumglutamate eða þriðja kryddið, er verksmiðjutilbúið bragðbætiefni sem allir hugsandi menn reyna að forðast. Þessi kemikalia veldur höfuðverk, jafnvel migreni, og í verstu tilfellum ógleði og beinverkjum. Hingað til hafa þeir sem framleiða matvöru og nota ekki þetta tiltekna óþarfa efni, verið stoltir af því og merkt sína framleiðslu til að gefa það til kynna. Ég hef séð slíkar merkingar á íslenskri framleiðslu og jafnan glaðst yfir áræðni framleiðendanna, að þora að sleppa þessu dufti og segja frá því. "Án MSG" er þá skýrt tekið fram einhverstaðar á pakkningunni.

Algjört nýmæli er að menn skuli láta MSG fylgja með í framleiðslunni án sérstaks aukagjalds, eða eins og kæfuframleiðandinn fyrir norðan merkir svo fallega vöru sína "MSG frítt". Eða er hann bara í svona fjári góðum duftsamböndum að hann þarf að monta sig af því að hann fái efnið frítt.... á meðan við hin þurfum að borga handlegg og fót fyrir.

Friday, September 15, 2006

Starfsheiti

Og af því við erum að velta vöngum yfir Íslenskunni; er "lay-outer" nógu gott starfsheiti?

Er það, sem sá gerir sem er "lay-outer", nokkuð annað en list? "Mynd-list"?
Svolítið hraðsoðin, oft unnin undir mikilli pressu, stundum pínulítið stæld og skrumskæld en mynd-list engu að síður.

Af því að "mynd-listamaður" er frátekið af þeirri elítu sem telur sig eiga á því rétt, gætum við þá ekki kallað hina; "hrað-listamenn"?

Miklu virðulegra og skiljanlegra en hið erlenda orðskrýpi.

Indian Mango (öll rýnin)

Loksins komst ég til að prófa þennan umtalaða stað eftir að hafa gert 4 tilraunir áður. Ég kom tvisvar að lokuðum dyrum, þarna er víst ekki opið á sunnudögum, og svo var lokað í lengri tíma í byrjun ársins af ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Tvisvar var svo fullt útúr dyrum að ekki var hægt að fá borð en í þetta sinn var aðeins setið við tvö borð. Gestum átti reyndar eftir að fjölga þegar leið á kvöldið. Niðurstaða heimsóknarinnar er í sem stystu máli; “I don´t get it !!”.

Maturinn sem við fengum var ekki það góður að hann standi undir orðsporinu, reyndar voru allir réttirnir fimm nánast eins útlítandi og keimlíkir á bragðið. Svona sósujukk er hægt að kaupa í flestum betri matvöruverslunum á landinu og bæta svo sjálfur kjötinu útí, fyrir miklu minni pening. Fátt sem minnir á hefðbundið Indverskt eldhús í matargerðinni enda var Goa portúgölsk nýlenda til lengri tíma og flest sem þaðan kemur undir sterkum áhrifum af fyrrum herraþjóðinni. Ágæt heimasíða ferðamálaráðs héraðsins, www.goatourism.org, er upplýsandi og fróðleg um menninguna og matinn eins og hann er þar ...

Inngangur veitingahússins er þannig staðsettur að gestir ganga eiginlega ofaní og yfir þá sem fyrir eru og þjónninn þarf að fara allan salinn á enda til að veita móttöku. Þjónustan var tvískipt, ung stúlka sem virtist ekki skilja neitt tungumál en skrifaði þó í gríð og erg niður allt sem við sögðum og eldri maður, afar kurteis, sem greip inní þegar virtist stefna í óefni. Allt of mörgum borðum hefur verið komið fyrir í þessum litla kjallara svo þeir sem ganga um beina eiga fullt í fangi með að troðast hjá, virkar klaufskt og skapar óþarfa spennu. Grjóthrúgan í miðjum salnum hefði kannski getað róað stemmninguna eitthvað niður en það var því miður skrúfað fyrir hið fengsjúíska vatnsgutl á meðan við vorum á staðnum ef þetta er þá yfirhöfuð gosbrunnur.

Stundum gerist það að veitingastaður verður vinsæll bara afþví bara. Svo eru aðrir staðir sem slá í gegn vegna þess að maturinn þar er góður, þjónustan elskuleg, umhverfið þægilegt og verðið hóflegt. Á Indian mangó er maturinn ekki vondur, þjónustan ekki fráhrindandi, umhverfið ekki beint óþægilegt þó það sé svolítið ofhlaðið húsgögnum og verðið á viðurgjörningnum er ekki óhóflega uppsprengt en einhvernveginn langar mig samt ekki þangað aftur ...

Rýni þessi birtist í Mannlífi, september ´06

Thursday, September 14, 2006

Brekka, Hrísey

Hrísey! Einangrunarstöð fyrir innflutt gæludýr. Galloway nautabúskapur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Sjálfstæðisyfirlýsing endurnýjuð árlega. Hellulagðar götur. Dráttavélar. Alli Bergdal, Hallgrímur Helga og að sjálfsögðu; ... Árni Tryggva. Þessi næststærsta eyja landsins býr yfir galdri sem ég hef ekki kynnst eins áþreifanlega annarstaðar. Tíminn er ekki til eins og hann þekkist á meginlandinu og þegar ég spurði Nestorinn hvort hann vissi hvað klukkan væri spurði hann mig hvort ég vissi hvaða dagur væri. Allt tempo er hægara og allir eru ekkert að flýta sér.
Í rúma tvo áratugi hefur veitingahúsið Brekka verið rekið í eyjunni og varð frægt fyrir nautasteikurnar sem ekki fengust annarstaðar. Mér þótti það reyndar alltaf skondin einangrun því svo tók maður kjötið með sér tilbaka innvortis og enginn gerði athugasemd við það. En einangruninni hefur verið aflétt og eru hálfskoskar beljur nú víða á landinu. Brekka er þó enn á sínum stað í reisulegu húsi sem á sínum tíma var eitt stærsta hús eyjunnar. Saga hússins er samofin sögu plássins alveg frá því það var byggt með handafli á árunum 1932-34 en það gerði Tryggvi Jóhannson, faðir Árna leikara. Á heimasíðu veitingastaðarins, www.brekkahrisey.is má lesa sögu hússins auk matseðla og annars fróðleiks. Veitingastaðurinn er opinn yfir sumartímann og opnaður sérstaklega fyrir hópa á öðrum tíma ársins. Gisting er í boði og er verðið hóflegt. Miklu styttri skreppur er út í eyju en mætti halda, kannski eru allar gubbuferðirnar í Herjólfi svona sterkar í í minningunni að ef maður heyrir orðin ferja og eyja í sömu andránni hrökkva allar varnir í gang. En óttinn er ástæðulaus því ferðin er stutt og skipið þægilegt. Nærsveitamenn hafa þarna skemmtilegan valkost í veitingahúsaflórunni við Eyjafjörð.
Matseðillinn er fjölbreyttur og er plankasteikin líklega þekktust. Piparsteik og kjúklinga-bringa með quacemole sósu eru einnig í boði af kjöti og svo eru fjórir fiskréttir á sérréttaseðli. Samlokur, hamborgarar og panini með pepperoni eða skinku, pizzur með óvenjulegu áleggi og úrval baksturs, kanilsnúðar, kleinur og rabbabarakaka með rjóma. Sá sem finnur ekki eitthvað sem hann langar í af seðlinum er einfaldlega ekki svangur. Plankasteikin er annaðhvort lamba rib-eye eða nautalund og smakkaði ég lundina. Greinilegt var að kjötið hafði verið meðhöndlað af kunnáttumanni því það var svo meirt að það bráðnaði í munninum. Steikingin var nákvæmlega eins og um var beðið og stenst þessi steik fyllilega samanburð við það sem best gerist í höfuðborginni. Saltfiskkókossteik á kartöflumauki með sætri plómusósu er góður réttur og óvenjulegur. Humarsúpan á undan var með örlitlum koníakstón og var flauelsmjúk og bragðgóð. Svolítill galsi er í pizzunum á Brekku og eiga þær allar sameiginlegt að álegg er ekki sparað og ekki heldur ostur. Kjúklingapizza með rauðlauk, fetaosti og jalapeno er góð og einnig hvítlaukspizzan með osti og grænum pipar. Stúlkurnar sem ganga um beina í Brekku eru úr röðum heimamanna, þær eru brosmildar með ríka þjónustulund og hafa þægilega nærveru. Súkkulaðikakan, sem við fengum á eftir, lokaði máltíðinni fullkomlega og það var varla hægt að finna pláss fyrir einn “irish”. Það tókst þó og ekki sé ég eftir því. Þarna fékk ég eitthvert besta írska kaffi sem ég hef fengið ofan Ártúnsbrekku.
Gott útsýni er uppá meginlandið, heim að Árskógssandi og Dalvík og inn eftir Svarfaðardal og afar róandi var að fylgjast með þokunni læðast niður hlíðar fjallana á Tröllaskaga, næstum eins og að horfa á málningu þorna. Já, tíminn er sannarlega afstæður. Ég gef Brekku þrjár stjörnur og mæli með því að fólk prófi helgarferð í Hrísey.

Rýni þessi birtist, lítillega breytt, í Mannlífi, september ´06. Hér gefur að líta "orginalinn".

Wednesday, September 13, 2006

Efasemdir

Nú allt í einu efast ég. Var að fletta Séð og heyrt og las þar, á bls. 15, í "heyrt" borðanum, að á Cafe Kidda Rót í Hveragerði hefði "verið allt vitlaust að gera í sumar". Svo las ég stutta upptalningu á því sem má finna á matseðlinum, svolítið þungbærar lýsingar; brjálaðar pizzur, geggjaðar steikur og rómantískir hamborgarar. (já, hinir frægu rómantísku hamborgarar!). En róðurinn þyngdist fyrst þegar ég las um fórnarlund Kidda sjálfs, hafandi "eytt lunganum úr sumrinu" á Arnarvatnsheiði. "Þar dró hann á land 350 bleikjur ásamt félaga sínum á einum sólarhring".
Ekki veit ég hver hann er, þessi félagi bleikjanna sem þarna var dreginn á land og heldur þykir mér stutt sumarið hans Kidda ef lunginn úr því er einn sólarhringur. Sennilega á þessi klausa að segja okkur að Kiddi hafi eitt lunganum úr sumrinu á Arnarvatnsheiði og hafi þar, ásamt félaga sínum, dregið á einum sólarhring 350 bleikjur á land. Smá munur eftir því hvernig raðað er í setningar, svolítið mikilvægt þegar skrifað er á Íslensku.
En það var ekki það sem vakti efasemdir mínar heldur hitt að afgreiðslustúlkan sem þjónaði mér (þjónaði?) til borðs, þegar ég ætlaði að fá mér að borða á Cafe Kidda Rót í sumar, stóð á því fastar en fótunum að Kiddi væri "alltaf" sjálfur á staðnum, jaa... nema bara ekki akkúrat þarna þegar ég spurði, þá var hann í "fyrsta fríinu" frá því opnað var.
Svo nú hlýt ég að spyrja; hver er að ljúga?

Sjá einnig hér neðar á síðunni:Cafe Kidda Rót, Hveragerði. Part Two, eða “þetta kemur þegar það kemur”!!!

Tuesday, September 12, 2006

Spjall !

Fór á heilsusýningu um helgina og mun skrifa lærða grein um þá heimsókn innan tíðar, (eða ekki).
Hinsvegar langar mig að deila smáatviki sem ég varð vitni að á sýningargólfinu. Þarna voru margir og skrítnir básar og fólk að kynna ótrúlegustu hluti fyrir öðru fólki. Svo labbaði sá þriggja ára aðeins frá mömmunni og gefur sig á tal við töffarann sem var að passa einhvern bíl í einum básnum. (tal, segi ég! þið vitið; svona eins og þriggja ára getur talað, og fæstir skilja múkk í). Þá gerðist hið ótrúlega að sá eldri tók þeim yngri af fullri virðingu. Hlustaði og svaraði og átti raunverulegt samtal við stubbinn. Hann fór t.a.m. ekki niður á hnén í eitthvert "gúrí gúri" eins og flestir sem tala við börn. Hann hunsaði heldur ekki beiðni um samtal eins og margir gera þegar litlu mennirnir eiga í hlut. Nei. Hann hélt alveg karakter og var með krosslagðar hendur allan tímann, töffari, en gaf sig samt allan að þessum "manni" sem var þarna kominn til að spjalla. Báðir vona ég að hafi farið ríkari heim af þessum fundi, eftir þetta "close encounter"! Gaman væri að hafa heyrt hvað þeim fór á milli... Og þó ekki. Maður á ekki að vera að hnýsast í einkamál.

Monday, September 11, 2006

Gagn rýnin

Undanfarna daga hafa ýmsir tjáð sig um hugleiðingar Davíðs Þórs, um gagnrýni krakkanna sem skrifa í Reykjavík Grapevine. Mig langar að leggja orð í belg.
Í RGv hafa birst pistlar um veitingahús í borginni og ég hef borið mig eftir að lesa þá. Heldur hefur mér þótt rýnin jákvæð, stundum svo að jaðraði við oflof. En slíkt getur átt að vera háð. Lofrullur RGv gefa varla þá mynd af veitingahúsaflórunni sem hægt er að taka nokkurt mark á. Þessar greinar eru kallaðar gagnrýni en eru það í flestum tilfellum ekki. Frekar dettur manni í hug að þeir séu, með umfjöllunum sínum, að klappa auglýsendum á bakið. Ég minnist í fljótu bragði ekki að hafa lesið slæma krítik um nokkurn veitingastað í blaðinu þeirra. Annaðhvort eru allir ressar í borginni svona óaðfinnanlega frábærir; matur, þjónusta og umhverfi með slíkum ágætum að ekki sé hægt að finna að því, eða að einhverjar aðrar hvatir liggja að baki greinunum en rýni til gagns. Þarna er talsvert önnur ritsjórnarstefna á RGv en sú sem síar pistla og rýni um tónlist og tónlistarmenn, samt skyldi maður ætla að það hyski kaupi auglýsingar líka.
Þeir þrír staðir sem teknir eru fyrir í nýjasta blaði RGv fá einstaklega jákvæða og góða umsögn en fengu allir fremur lága einkunn í umfjöllun minni í tímaritinu Mannlífi, (og hér neðar á síðunni.)

Engin tengs eru milli mín og þeirra sem greiða fyrir auglýsingar í það blað og því er ég að öllu leyti óháður ritstýringu þar sem peningalegir hagsmunir gætu rekist á. (Þó þykist ég viss um að ég hafi ekki auðveldað auglýsingastjóra tímaritsins lífið með umfjöllunum mínum.) En mér hefur ekki verið uppálagt að hafa greinar mínar fullar af lofi og skjalli ef viðkomandi staður hefur trauðla átt slíkt skilið. Nokkrir staðir hafa fengið slæma umsögn hjá mér vegna óvandaðrar eða metnaðarlausrar þjónustu og einn reyndar fyrir framantalið og afspyrnu vondan mat í ofanálag. Einn og einn fær áminningu vegna einhverra smáatriða sem betur mega fara en flestir elda og bera fram góðan mat í snyrtilegu umhverfi, hafa vingjarnlegt og kurteist fólk á launaskránni og eru ekki að okra á kúnnanum.

Matreiðslumenn gera sjaldan eða aldrei útá það að gagnrýna kollegana, leikarar og kvikmyndagerðarmenn ekki heldur. Tónlistarmenn sem leggjast í krítik á aðra tónlistarmenn fá fljótlega að heyra að þeir séu bara svona glataðir sjálfir fyrst þeir þurfi að rakka aðra músikanta niður. Gagnrýnandi sem vogar sér að gagnrýna aðra gagnrýnendur er sjálfsagt, með framansagt í huga, kominn með allt gráa svæðið yfir línuna út á miðjan hála ísinn kastandi gleri úr skyrhúsi. En sá sem gagnrýnir er ekki bólusettur fyrir gagnrýni á sig sjálfan. Davíð Þór var kannski öðru fremur að benda á að til að gagnrýni sé marktæk þarf sá sem hana skrifar að hafa minnst snefil af áhuga á viðfangsefninu. Hann má alls ekki skrifa undir hagsmunatengslapressunni sem auglýsingatekjur skapa útgefendum og það hjálpar mikið ef viðkomandi hatar ekki beinlínis þann eða þá sem hann ætlar að beina sínu kastljósi að hverju sinni.

Vernharður Linnet spilar, mér vitanlega, ekki á neitt hljóðfæri og það gerir Jónatan Garðarson ekki heldur, í það minnsta ekki opinberlega. Þessir tveir hafa þó skrifað meira um djass, síðustu tvo til þrjá áratugina, heldur en aðrir íslendingar samanlagt. Þeirra skrif eru marktæk öðru fremur af því þeir hafa einlægan og fölskvalausan áhuga á viðfangsefninu. Þeir hafa sem áhugamenn og hlustendur viðað að sér þekkingu á tónlistinni, tónlistarmönnunum og eiginlega flestöllu sem á nokkurn hátt tengist djassi. Þess vegna er að marka það sem þeir skrifa. Það þýðir ekki að maður sé alltaf sammála þeim í öllum atriðum og kannski aldrei.

Smekkur manna er misjafn og sumir þykjast jafnvel hafa smekk fyrir hlutum sem þeir þekkja harla lítið. Slíkum einstaklingum fer illa að gagnrýna. Ég er ekki kokkur en hef þó eldað mat frá því ég var 14 ára. Ég er heldur ekki þjónn en hef borðað á veitingastöðum út um allan hinn siðmenntaða heim og verið þar þjónað til borðs. Og mér finnst gaman að borða góðan mat og drekka góð vín. Veitingahúsgagnrýni sem ég skrifa er byggð á minni reynslu og upplifun undanfarin 30 ár. Og hún er hugsuð sem vettvangur upplýsinga fyrir aðra veitingahúsakúnna.

Þegar rýnir RGv hraunar yfir tónlistarmann af því hann fílar ekki viðkomandi, er það engum til gagns og gjaldfellir í raun öll greinarskrif um svipað efni í blaðinu framvegis. Ekki er nauðsynlegt að vera sérfróður um það sem á að gagnrýna en það hlýtur að vera til bóta að maður hafi áhuga á því sem maður ætlar að skrifa um. Að öðrum kosti ætti að fela öðrum blaðamanni að skrifa í umrætt sinn. Svona eins og þegar dómari í sakamáli víkur sæti af því hann hafði látið álit sitt í ljós áður en til formlegrar umfjöllunar kom. Fjölmiðill má ekki láta standa sig að því að hægt sé að sirka út hvernig krítik þessi eða hinn muni fá af því einu hver ritar umfjöllunina. Gott íslenskt orð yfir slíkt er “fordómar”, þar sem eitthvað er dæmt fyrirfram og það sem á eftir kemur litast af þeim dómi. Reykjavík Grapevine er fordómafullur fjölmiðill og þeir sem lesa snepilinn ættu að hafa það í huga. Þá má kannski hafa gaman af ýmsu sem þar er ritað.

Meira um sama efni:
http://deetheejay.blogspot.com/; Reykjavik Grape væl + comments
www.blog.central.is/jongunnar/; The Grapes of Wrath?


Og fyrir þá sem halda að munnræpa og gífuryrði séu mest hipp og kúl: sindrieldon.blogspot.com/

Saturday, September 09, 2006

Nings, Stórhöfða

Kínamatur er góður, reyndar misgóður eftir veitingastöðum, en sjaldan vondur. Nokkrir staðir bjóða austurlenska rétti í höfuðborginni og eru þeir eins misjafnir og þeir eru margir. Nings hefur gert út á hollustuna í sinni matargerð og jafnan skartað fegurðardísum til að vekja athygli á veitingastöðunum sem eru orðnir þrír í borginni. Kúnninn getur valið að borða á staðnum, taka með eða láta senda sér matinn. Á Stórhöfða er bjartur og þrifalegur staður sem býður fjóra rétti úr hitaborði auk sérréttaseðils, sushi og sérstakra heilsubakka fyrir þá sem eru að passa línurnar. Hitaborðið í hádeginu hefur sloppið fyrir horn nokkrum sinnum en líka verið óspennandi í hin skiptin. Einhvernvegin þarf þessi matur að vera nýeldaður til að vera virkilega góður. Datt niður á hádegistilboð, í grænmetis- og heilsukafla matseðilsins, steiktar eggjanúðlur með kjúkling og grænmeti, og þann rétt panta ég örugglega aftur. Svo spillir nú ekki að stúlkurnar í afgreiðslunni eru bráðhuggulegar.

Thursday, September 07, 2006

Hrútafjörðurinn

"Þættinum hefur borist bréf" og "fjölmargir hafa haft samband við undirritaðan" eru frasar sem margir muna úr gömlu Gufunni. Ekki get ég státað af fjöldanum en er afar þakklátur þeim tryggu lesendum sem gefa mér feedback á mín fátæklegu skrif. Því er ekki að neita að haft hefur verið samband vegna skrifa minna um veitingaskálana tvo við Hrútafjörð, reyndar ekki við mig persónulega. Ég vil endilega ítreka það sem áður hefur komið fram að ekkert sem ég birti hér, eða er birt eftir mig annarsstaðar, fer frá mér fyrr en eftir mikla yfirlegu. Ég stend fyllilega við hvert einasta orð sem ég skrifa og þeir sem kjósa að taka gagnrýni minni persónulega gera það alveg á eigin forsendum og ábyrgð. Það er ekki markmið hjá mér að vega að mönnum á persónulegum nótum enda myndi slíkt gjaldfella fullkomlega mín skrif. Ég einsetti mér strax í upphafi gagnrýnisferils míns að vera heiðarlegur og einlægur og skrifa jafnt um það sem vel er gert og það sem betur má fara. Einstaka sinnum hefur þó gengið svo gjörsamlega fram af mér að ég hef þurft að eiga það við samvisku mína hvort ég yfirhöfuð ætti að skrifa nokkuð um viðkomandi, hvort viðkomandi væri þess virði að frá honum væri sagt. Í nær öllum tilfellum hef ég ákveðið að rétt væri að lesendur fengju að vita um ósómann. Eins vil ég að þeir sömu lesendur fái fréttir af þeim sem eru að gera vel.
Hvorugur veitingaskálinn við Hrútafjörð er að gera vel. Þjónustulund er þeim ókunnugt hugtak og vandvirkni í eldamennsku er nokkuð sem er greinilega allt of mikið vesen. Almenn kurteisi og hlýlegt viðmót getur gert heilmikið fyrir veitingastað sem er á hverfanda hveli en rekstraraðilar skálanna tveggja kjósa að uppáleggja sínu fólki hortugheit og fruntagang í samskiptum við ferðamenn. Ekki svo að skilja að ég hafi eingöngu mína eigin reynslu að styðjast við heldur varð ég líka vitni að samtölum starfsfólks og gesta meðan ég átti minn stutta stans. Þrifnaði er stórkostlega ábótavant á báðum stöðunum þó keyri um þverbak á öðrum þeirra. Hlandstækja, er orðið sem ég skrifaði og enn hefur mér ekki komið nákvæmara orð til hugar. Því skrifa ég aftur hér; það var svo megn hlandstækja, sem tók á móti okkur við innganginn, að strax þar hefðum við átt að hætta við. Um það sem á eftir fylgdi má lesa á öðrum stað hér á síðunni. (archives, janúar ´06 -"Á þjóðvegi númer eitt"). Engin afsökun þykir mér í því að búið sé að ákveða að færa "number one", þannig að hann muni í framtíðinni liggja útmeð firðinum vestanmegin og við hið nýja vegstæði verði reistur skáli sem leysa muni núverandi stað af hólmi. Má þá alls ekki þrífa þennan og viðhalda honum þangað til? Spyr sá sem á að skilja peningana sína eftir þar. Veitingastaðir og skálar "útá landi" lúta, hvað sem þeim finnst sjálfum um það, sömu lögmálum og staðir í þéttbýli. Eða ættu í það minnsta að gera það. Vondur matur, hrokafull og heimóttarleg þjónusta og almenn óþrif eru ekki góð meðmæli með neinum veitingastað, hvar sem hann er á landinu. Gagnrýni er sett fram til ábendingar, "að rýna til gagns", jafnt fyrir rekstraraðila og viðskiptavini þeirra.

Stjörnufræði

Diskókúla ?!? Nei, "plánetan" Plútó, sem nýverið var svipt titli sínum. Myndin sýnir í réttum litum yfirborð plánetunnar og dökkir fletir eru hæstu fjöll eða klettar.
Samt svolítið eins og diskókúla, muniði, þessar sem snérust í hringi og spegluðu ljósgeislum í öllum regnbogans litum. Þótti mjög stuðkvetjandi á árum áður.

Indian Mango

Loksins komst ég til að prófa þennan umtalaða stað eftir að hafa gert 4 tilraunir áður. Ég kom tvisvar að lokuðum dyrum, þarna er víst ekki opið á sunnudögum, og svo var lokað í lengri tíma í byrjun ársins af ástæðum sem mér eru ekki kunnar. Tvisvar var svo fullt útúr dyrum að ekki var hægt að fá borð en í þetta sinn var aðeins setið við tvö borð. Gestum átti reyndar eftir að fjölga þegar leið á kvöldið. Niðurstaða heimsóknarinnar er í sem stystu máli; “I don´t get it !!”...

Meira um þennan veitingastað Mannlífi september ´06.

Tuesday, September 05, 2006

Fita

Var eitthvað að væla inní mér yfir fitu, minnar og minna nánustu, þegar ég rakst á pistil titlaðan "mörorka" á bloggsíðu Hnakkusar. (sjá link hér til hægri). Ekki bara er Hnakkus skemmtilegur og uppátækjasamur penni heldur sér hann oftar en ekki grátbroslegar hliðar á mönnum og málefnum. Pistillinn er lesning útaf fyrir sig en ég skellti fyrst verulega uppúr við lestur kommentanna og svara bloggarans við þeim. Heimatilbúin vandamál hins vestræna menningarheims vaxa okkur oft svo í augum að skyggir á íroníuna sem í þeim felst. Vælukórinn má ekki verða svo hávær að aðrar og skemmtilegri raddir heyrist ekki eða þagni alveg.
Mæli með heimsókn á blogg Hnakkusar.

Monday, September 04, 2006

Steve Irwin


Steve Irwin er allur. Hann lést er risaskata stakk hann í hjartastað og víst er að mörgum fannst að þar hefði ræzt spádómur um að hann myndi að lokum láta lífið við glannaskap í umgengni sinni við villt dýr. Hann var hetja í sínu heimalandi og óþreytandi við að kynna umheiminum dýralíf Ástralíu en ekki voru þó allir sáttir við aðferðir hans og stíl. Sumum fannst hann jafnvel vera dýraníðingur og víst er að krókódílar, eiturslöngur og risaskötur voru ekki par hrifin af gassaganginum og látunum í kallinum. Blessuð sé minning hans.
Það var risaskata eins og sú sem stakk Steve, en aðeins tvö önnur tilvik eru skráð þar sem menn létust eftir árás "Stingray", eins og þær heita á ensku. Skatan stingur aðeins ef hún telur sér ógnað!

Fleiri orð


Sá skondið viðtal á NFS við Balta. Balti alltaf flottur og með mörg járn í eldinum eins og Heimir sagði réttilega frá. Eitthvað hafa félagarnir verið léttstressaðir í spjallinu því orðin og setningarnar áttu til að bögglast uppí þeim svo úr varð hin besta skemmtun, fyrir mig allavega. Náði ekki að punkta hjá mér allt sem þeim fór á milli en hér fylgja nokkur dæmi: um Ibsen og hátíðina sem Balti var nýkominn heim frá; þeir voru að halda uppá afmæli dauða Ibsens, já dauðaafmæli skáldsins. (sem er venjulega kallað dánardægur því menn eru þegar afmældir við dauða sinn og eiga þar eftir ekki fleiri afmælisdaga), um móttökur leikhúsgesta; við fengum standing óveisjon, fólk stóð og klappaði, (leikhúsrottan Baltasar Kormákur veit vel að talað er um að áhorfendur "risu úr sætum" þegar sagt er á íslensku frá stórkostlegum móttökum eins og þeim sem hópurinn fékk í Noregi), þá sagði Heimir "finnst þér ÞÚ hafa tekist það sem þú ætlaðir þér"??? Áfram héldu þeir. Um lögregluna og þeirra framlag til Mýrarinnar sem Balti er að ljúka við þessa dagana; lögreglan var okkur hli.. uhm, uhm, hjálpaði okkur mjög mikið, (þarna hefði mátt nota orðið "hjálpsöm" sem er gott og gilt. Og að lokum; "hvað er framundan hjá þér Balti minn"? "Framtíðin verður að sjá hvað ber í skauti sér"!
Íslenskan er fegursta tungumál í heimi, vöndum okkur þegar við tölum hana.